Björn Kjartansson Kæri vinur, þá er kallið komið eftir langa og stranga baráttu. Megi góður Guð fylgja þér á þeirri leið sem þú hefur lagt upp í.

Ég átti því láni að fagna að tengjast og kynnast Birni tengdaföður mínum fyrir rúmlega þrjátíu árum. Tel ég það hafa verið forréttindi að hafa átt samleið með slíkum öðling sem hann var. Mínar fyrstu minningar um Björn eru vináttan og þráin til þess að hjálpa og aðstoða þá sem til hans leituðu.

Margs er að minnast þegar litið er til baka, til dæmis þegar við keyptum íbúðir í sama húsi við Blöndubakka. Það voru ánægjuleg ár í því sambýli. Margar ferðir fórum við saman á landsleiki í fótbolta með kaffibrúsa í farteskinu. Við ferðuðumst oft saman hérlendis og erlendis. Ég minnist þess hve frábær ferðafélagi hann var, fróður um lönd og þjóðir sem við heimsóttum og glöggur var hann á áttir.

Einnig rifjast upp hjónaböllin og gömlu dansarnir sem við stunduðum árum saman. En ofar öllu eru þó minningarnar um samverustundir og samheldni fjölskyldunnar. Umhyggja hans fyrir fjölskyldunni var mikil og barnabörnin nutu ástúðar hans. Lífsbaráttan var hörð hjá Birni fyrstu æviárin og mótaði það hann. Skólaganga hans var ekki löng en hann var víðlesinn og hafði ákveðnar skoðanir á þjóðmálum. Umræðurnar við eldhúsborðið voru oft líflegar þegar stjórnmál bar á góma.

Þegar sjúkdómurinn herjaði á hann og halla tók undan fæti var sárt að geta ekki gert meira, en gott var að njóta samvistanna til hinstu stundar.

Umhyggja Sóleyjar tengdamömmu var engu lík. Hún annaðist hann af alúð og nærgætni í veikindum hans, fyrst heima og svo eftir að hann fór á Hjúkrunarheimilið Eir þar sem hann dvaldi síðustu þrjú árin.

Megi Guð gefa Sóleyju og fjölskyldunni styrk í sorginni. Guð blessi minningu Björns.

Halldór Snorrason.