Björn Kjartansson
Elsku afi. Með þessum fátæklegu
orðum vildi ég reyna að þakka þér fyrir allt sem þú gafst mér meðan þú lifðir. Þú varst eini afinn sem ég þekkti og þrátt fyrir að ekki værum við blóðskyldir var ástúð þín og umhyggja síst minni. Margs er að minnast og er skrítið að hugsa til baka og sjá að minningarnar eru allar frá þeim tíma þegar þú varst heill heilsu en minningarnar um sjúkdóm þann sem þú barðist við virðast renna saman í eitt. Upp úr stendur hins vegar hafsjór minninga um þig frá þeim tíma þegar allt lék í lyndi. Sem barn dvaldist ég oft hjá þér og ömmu og var það oftar en ekki svo að við fórum, tveir saman, í ökuferð út á Granda að skoða bátana sem lágu við höfnina. Það var okkar sameiginlega áhugamál að keyra um höfnina, líta á fleyin og ræða málin. Ekki virtist þú nokkurn tímann þreytast á því að hlusta á mig tala og komst fram við mig sem jafningja í allri umræðu frá því að ég man eftir mér. Söguáhugi þinn var mikill sem og þekking í landafræði og á fleiri sviðum. Alls þessa naut ég og hafði gaman af.
Þegar ég var 16 ára opnaðir þú og amma heimili ykkar fyrir mér og bjó ég hjá ykkur að mestum hluta næstu fjögur árin á meðan ég var við nám í menntaskóla. Á þeim tíma var sjúkdómurinn farinn að gera vart við sig og var átakanlegt að fylgjast með því hvernig smám saman dró af þér. Þrátt fyrir allt leið þó ekki sá dagur að við hlægjum ekki saman að einhverju sem enginn annar hefði hlegið að, enda virtist þú geta hlegið að öllum mínum uppátækjum. Svo létt var þín lund, skapmildi, hógværð og hugarró að ekkert virtist geta raskað ró þinni. Þetta voru þín einkenni, kostir sem margir óska sér. Alls þessa naut ég í návist þinni.
Kveð ég þig nú, afi minn og vinur. Guð geymi þig.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð,
margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(V. Briem) Guðmundur J. Oddsson.