Sighvatur Bjarnason
Mig langar í fáum orðum að
minnast míns gamla vinar og starfsfélaga Sighvats Bjarnasonar sem látinn er eftir nokkurt veikindastríð á undanförnum mánuðum.
Við Sighvatur kynntumst er hann fluttist til Vestmannaeyja fyrir næstum fimmtíu árum. Foreldrar hans bjuggu þá hér þar sem faðir hans gegndi stöðu útibússtjóra við Útvegsbankann. Hér í Eyjum kynntist Sighvatur sinni yndislegu konu, Elínu Jóhönnu Ágústsdóttur frá Aðalbóli eða Ellý eins og hún er ætíð nefnd af ættingjum og vinum. Sighvatur hóf störf við bankann, fyrst við ýmis bankastörf en fljótlega tók hann við starfi gjaldkera útibúsins. Því starfi gegndi hann allt þar til er eldgosið braust út árið 1973. Starfsemi útibúsins var þá flutt á 5. hæð aðalbankans í Reykjavík þar sem við reyndum að sinna viðskiptavinum okkar úr Eyjum meðan starfsemi gat ekki farið fram þar. Þegar útibúið fluttist aftur heim til Eyja eftir að gosi lauk kaus Sighvatur að starfa áfram í Reykjavík og þá hjá aðalbankanum. Var hann fljótlega gerður að aðalféhirði bankans og því starfi gegndi hann þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir.
Við sem störfuðum hér áður hjá gamla Útvegsbankanum í Eyjum höfum horft á eftir góðum félögum og samstarfsmönnum. Fyrir rúmu ári máttum við sjá á eftir Ólafi Helgasyni og í nóvember sl. lést Ingólfur Guðjónsson. Báðir voru þeir, eins og Sighvatur, öðlingsdrengir.
Ég vil fyrir hönd fjölskyldu minnar og fyrrverandi vinnufélaga Sighvats hér í Eyjum þakka samfylgdina á liðnum árum. Ég kveð þig, gamli vinur, og þakka samstarf, órjúfanlega vináttu og ógleymanlegar samverustundir á langri starfsævi.
Ég vil að lokum færa Ellý, börnum þeirra og öðrum skyldmennum innilegar samúðarkveðjur frá okkur hjónum og börnum okkar.
Jóhannes Tómasson.