Björn Kjartansson Þegar setja skal minningarorð á blað um kæran fjölskyldumeðlim verður erfitt um vik. Minningarnar streyma fram, samofnar öllum þeim árum sem ég hef átt samleið með tengdafólki mínu. Ekki er gott að greina hvað eru aðalatriði og hvað aukaatriði á langri samleið, því öll smáatriðin mynda heildina.

Í samheldinni fjölskyldu rennur liðin tíð saman, þar sem umhyggja og ástúð hafa ætíð verið í fyrirrúmi. "Afi Bjössi" lagði þar til ómældan skerf. Hann varð fljótt eini eftirlifandi afi barna okkar Odds og rækti það hlutverk af stakri natni. Samt var hann alltaf kallaður afi Bjössi eins og til nánari aðgreiningar frá hinum öfunum eða kannski vegna þess hversu sérstakur afi hann var.

Ég minnist þess er ég kom fyrst á heimili tengdaforeldra minna, þeirra Sóleyjar og Björns. Þau höfðu þá búið sér fallegt heimili á Laugarnesveginum og Bjössi var á Norðursjónum á síldveiðum eins og þá var algengt um sjómenn. Hann var því langdvölum að heiman og þó að ég hitti hann stopult til að byrja með tók hann mér strax opnum örmum og sem jafningja. Þannig var Bjössi, hreinn og beinn, fór ekki með hávaða en glettnin og kankvíst brosið var alltaf til staðar. Undir bjó þó athugull spekúlant. Það voru þessir eiginleikar hans sem löðuðu að honum fólk og ekki síst það unga. Hann hafði næmt auga fyrir eiginleikum barnabarnanna og kom stundum með athugasemdir um hluti sem við foreldrarnir höfðum ekki gefið sérstakan gaum en reyndist nokkuð til í er að var gáð.

Eftir að Bjössi hætti til sjós vann hann um árabil í álverinu í Straumsvík. Þau Sóley ferðuðust mikið erlendis og naut hann þess í ríkum mæli. Áhugi hans á umheiminum var mikill og var hann hafsjór fróðleiks um landafræði. Enda fór það svo að eftir að alzheimer-sjúkdómurinn hafði leitt hann á hjúkrunarheimili var landakortabókin það sem hann tók með sér og blaðaði í.

Er sjúkdómur hans fór að ágerast breyttist margt og hefur oft reynt mjög á tengdamóður mína. Hún stóð þó meðan stætt var og saman fóru þau í síðustu ferðina hans utan þótt erfitt væri orðið. Á hjúkrunarheimilið Eir fór hann ekki fyrr en öll sund voru lokuð og öll þau 3 ár sem hann dvaldi þar í góðri umsjá starfsfólks heimsótti Sóley hann nánast daglega. Tryggð hennar og umhyggja vöktu aðdáun allra er til þekktu.

Að leiðarlokum er margt að þakka. Alla velvildina í garð okkar allra og sérstaklega er heimilið var opnað fyrir Guðmundi syni okkar á menntaskólaárunum. Að því mun hann ætíð búa.

Nú dvelur þú á strönd sólarlandsins bjarta þar sem þú kannar nýja staði. Hafðu þökk fyrir allt og allt.

Jónína Guðmundsdóttir.