HEIMASÍÐA NetAid var formlega opnuð á miðvikudag og lögðu ekki minni menn en Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Páfinn blessun sína yfir síðuna auk tónlistarmannanna Bono, David Bowie, Wyclef Jean og rapparans Seans "Puffy" Combs.
www.netaid.org Barátta gegn

fátækt í gegnum

Netið hafin

HEIMASÍÐA NetAid var formlega opnuð á miðvikudag og lögðu ekki minni menn en Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku, Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, og Páfinn blessun sína yfir síðuna auk tónlistarmannanna Bono, David Bowie, Wyclef Jean og rapparans Seans "Puffy" Combs. Heimasíðan er liður í baráttunni gegn fátækt í heiminum og komu tónlistarmennirnir ásamt Kofi Annan, aðalritara Sameinuðu þjóðanna saman til beinnar útsendingar á síðunni er hún var opnuð og var djassgeggjarinn Quincy Jones kynnir. Bono og Wyclef Jean fluttu af því tilefni lag sem samið var sérstaklega fyrir NetAid og kallast New Day eða Nýr dagur. "Á heimasíðunni sjást ekki myndir af nöktum, horuðum börnum og gestir síðan beðnir um peninga til að fæða þau og klæða," sagði Wyclef sem var í hljómsveitinni Fugees. "Með síðunni á að gefa þessum börnum von og fræða þau um gildi menntunar."

Bono hefur sterkar skoðanir á Netinu en segir að tæknina megi nota til að koma sjónarmiðum á framfæri. "Við viljum ekki þykjast vera eitthvað Disney-ævintýri á Netinu. Við viljum skipta máli." Vonast er til að síðan verði heimsótt það oft að met verði slegið. "Við viljum fá a.m.k. milljarð heimsókna á síðuna svo að við getum kveðið fátæktina í kútinn," sagði Quincy Jones. Þrennir stórir tónleikar verða sýndir í beinni á síðunni á næstunni og vonast skipuleggjendur síðunnar til að þeir eigi eftir að fá fólk að tölvuskjánum. Tónleikarnir verða á sama tíma hinn 9. október í New York, London og Genf. Tónleikunum verður jafnframt sjónvarpað á MTV, VH1 og á BBC.

Náð til unga fólksins

Á leikvangi Giants í New York verða Jimmy Page, Puff Daddy, Wyclef og Bono ásamt Bon Jovi, Busta Rhymes og fleirum. Í London munu David Bowie, George Michael og Eurythmics meðal annarra koma fram og í Genf verða Bryan Ferry og Des'ree meðal þeirra sem stíga á svið.

"Við vonum að enn fleiri listamenn eigi eftir að bætast í hópinn," sagði Combs. Tony Blair sagðist vera stoltur af tónlistarmönnunum og vonast til þess að heimsbyggðin geri sér grein fyrir því að þrír milljarðar jarðarbúa lifa í sárri fátækt og þurfa aðstoð. "Listamennirnir eru hvatning fyrir okkur öll. Þeir eiga eftir að ná til fólks um allan heim, sérstaklega ungs fólks á þann hátt sem stjórnmálamenn gera ekki."

Bono á blaðamannafundi sem haldinn var í tilefni af opnun heimasíðu NetAid.