FORMENN stéttarfélaga starfsmanna Íslenska álfélagsins fordæma "tilefnislausar og ruddalegar uppsagnir starfsmanna fyrirtækisins" í opnu bréfi til stjórnenda Íslenska álfélagsins. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins vísar þessum ásökunum á bug. Í bréfinu segir að undanfarna mánuði hafi starfsmenn Íslenska álfélagsins orðið vitni að áður óþekktum vinnubrögðum fyrirtækisins í uppsögnum.
Formenn stéttarfélaga starfsmanna Íslenska álfélagsins í opnu bréfi til Ísal

Fordæma tilefnislausar uppsagnir

Ísal vísar

ásökunum á bug

FORMENN stéttarfélaga starfsmanna Íslenska álfélagsins fordæma "tilefnislausar og ruddalegar uppsagnir starfsmanna fyrirtækisins" í opnu bréfi til stjórnenda Íslenska álfélagsins. Upplýsingafulltrúi fyrirtækisins vísar þessum ásökunum á bug.

Í bréfinu segir að undanfarna mánuði hafi starfsmenn Íslenska álfélagsins orðið vitni að áður óþekktum vinnubrögðum fyrirtækisins í uppsögnum. Starfsmönnum, sem unnið hafa í áratugi hjá fyrirtækinu, hafi verið sagt upp störfum og þeim "boðið eða ráðlagt" að hætta samdægurs. Þeir hafi ekki gerst brotlegir í starfi og aldrei fengið áminningarbréf eða kvartað verið undan störfum þeirra. Aðaltrúnaðarmaður stéttarfélaganna hafi ítrekað leitað eftir skýringum á þessum uppsögnum en engar skýringar fengið.

Í bréfinu segir að átta starfsmenn hafi verið látnir fara undanfarna mánuði, en á sama tíma hafi óvanir starfsmenn verið ráðnir í fyrirtækið og bent er á að umtalsverð vöntun sé á starfsfólki hjá fyrirtækinu. "Í yfirlýsingu ISAL með kjarasamningi segir að "fastráðnir starfsmenn skulu að öðru jöfnu hafa forgang til starfa sem losna hjá ISAL", en ISAL hunsar eigin yfirlýsingu um störf fastráðinna starfsmanna."

Stjórnvöld draga lappirnar

"Formenn stéttarfélaga starfsmanna Íslenska álfélagsins fordæma harðlega tilefnislausar og ruddalegar uppsagnir starfsmanna sem nú eru eftir áratuga starf að nálgast það að geta nýtt sér ákvæði kjarasamnings um flýtt starfslok. Þessi vinnubrögð væru lagabrot ef íslensk stjórnvöld væru búin að staðfesta samþykktir Alþjóðavinnumálasambandsins, sem kveða á um að fyrirtæki geti ekki sagt upp starfsfólki án þess að fyrir því liggi skýringar. Allflest Evrópuríki hafa staðfest samþykktina og sama má segja um ríki Afríku og Asíu. En íslensk stjórnvöld draga lappirnar og á meðan reynir Íslenska álfélagið að halda uppi stjórnunarstíl gamla tímans með því að skapa óvissu og ótta hjá starfsmönnum og vanvirða áratuga framlag þeirra hjá fyrirtækinu.

Formenn stéttarfélaga starfsmanna hjá Íslenska álfélaginu vara alvarlega við þessum vinnubrögðum sem nú þegar hafa leitt til megnrar óánægju starfsmanna fyrirtækisins og skora á fyrirtækið að taka upp nýja og jákvæða starfsmannastefnu gagnvart starfsmönnum," segir í bréfinu og undir það rita Sigurður T. Sigurðsson, Verkalýðsfélaginu Hlíf, Örn Friðriksson, Félagi járniðnaðarmanna, Níels S. Olgeirsson, Félagi matreiðslumanna, Unnur Helgadóttir, Verzlunarmannafélagi Hafnarfjarðar, Haukur Harðarson, Bíliðnafélaginu, Vigfús Helgason, Félagi byggingarmanna í Hafnarfirði og Guðmundur Gunnarsson, Rafiðnaðarsambandi Íslands.

Uppsagnir m.a. vegna hagræðingar

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Íslenska Álfélagsins, segist furða sig á bréfinu og vísar á bug þeim ásökunum sem þar koma fram í garð fyrirtækisins. Hann segir bréfið jafnframt fullt af rangfærslum.

"Það er ekki rétt að átta starfsmenn hafi verið látnir fara á undanförnum mánuðum. Rétt er að fimm starfsmönnum hefur verið sagt upp á þesu ári og þremur á síðasta ári. Þetta þýðir að átta starfsmönnum hefur verið sagt upp á nánast tveggja ára tímabili og í 500 manna fyrirtæki er það ekki mikið, sérstaklega ef það er borið saman við önnur fyrirtæki af þessari stærðargráðu.

Þetta bréf er sérstaklega furðulegt í ljósi þess að þessi sömu verkalýðsfélög láta ekkert í sér heyra þegar tugum manna er sagt upp annars staðar. Ég man ekki betur en að 50 manns hafi verið sagt upp í stóru fyrirtæki í síðustu viku. Ekki hefur verkalýðshreyfingin tjáð sig um það.

Þá ber að benda á að hátt í 100 manns hafa nýtt sér flýtt starfslok, og að halda því fram að fyrirtækið sé að losa sig við einstaka starfsmenn til þess að koma í veg fyrir að það geti nýtt sér flýtt starfslok er alveg fráleitt," segir Hrannar.

Að sögn Hrannars eru ástæður uppsagnanna breytingar á vinnufyrirkomulagi fyrirtækisins sem meðal annars eiga sér stað vegna breytinga á tækjabúnaði og hagræðinga af þeim sökum.