The 40th anniversary tour of the U.K. Dave Brubeck píanó, Bobby Militello altósaxófón, Alec Dankworth bassa og Randy Jones trommur. Verk eftir Dave Brubeck auk nokkurra söngdansa. Hljóðritað á tónleikaför um England í nóvember 1998. Telarac 1999/12tónar.
Djasssnillingar og Íslandsfarar DJASS

Geislaplötur DAVE BRUBECK

The 40th anniversary tour of the U.K. Dave Brubeck píanó, Bobby Militello altósaxófón, Alec Dankworth bassa og Randy Jones trommur. Verk eftir Dave Brubeck auk nokkurra söngdansa. Hljóðritað á tónleikaför um England í nóvember 1998. Telarac 1999/12tónar.

DAVE Brubeck er ein af fáum stórstjörnum djassins sem enn er á lífi. Hvar sem hann kemur fyllir hann tónleikahallirnar. Hann lék hér á Listahátíð 1986 með sama kvartettinum og hann ferðaðist um England með í fyrra utan hvað bassaleikarinn var annar. Í Reykjavík Chris sonur hans. Á Englandi Alec, sonur Johnny Dankworth, og Cleo Lain, einn helsti bassaleikari Englandsdjassins og vel að merkja; Randy Jones er einnig Breti.

Kantaður píanóleikur Dave Brubeck er ólíkur öðrum píanóleik. Hann ber það með sér að píanistinn er tónskáld; þau hafa lengi verið sér á báti í píanóstílsköpun og nægir að nefna Ellington og Monk, Jelly Roll og John Lewis. Sumum fellur ekki stíll Brubecks, en mér hefur löngum þótt hann sjarmerandi ­ heimur út af fyrir sig. Þessi kvartett er einn sá besti sem hann hefur stjórnað síðan Paul Desmond leið, ef undan er skilinn sá tími er Gerry Mulligan lék með honum.

Fyrsta lagið á diskinum er valsinn víðfrægi: Someday my prince will come. Eftir örstuttan inngang a la Garner bera áheyrendur kennsl á lagið og fagnaðarlætin brjótast út. Þessi vals var einnig á dagskrá Brubecks í Englandsförinni fyrir fjörutíu árum og hann lék hann á Broadway á Listahátíð 1986. Fleiri alkunnir söngdansar eru á diskinum: Deep purple, sem leikið er í hægu tempói eins og All of me, sem venjulega er leikið allhraðar. Þar er einleikslína Brubecks sérlega fallega mótuð og gerir að engu flesta þá fordóma er hann hefur orðið að þola. Ekki er sóló hans síðri í I got rhythm. Þar minnir hann á köflum á Monk og svo grípur hann til skálmstílsins. Þessi sóló segir manni ýmislegt um hvers vegna frjálsdjasspíanómeistarinn Cecil Taylor er svo hrifinn af Brubeck. Hann lætur ekki hamaganginn og hamrandi Fats Dominosláttinn fara í taugarnar á sér. Svo er gamall húsgangur: In a shanty in old shanty town. Þetta hljómar allt yndislega en betri eru lög hljómsveitarstjórans. Brubeck hefur samið marga djassklassíkina, s.s. The Duke, In your own sweet way og Blue rondo a la turk og hér eru fjórir ópusar eftir hann. Kannski er The salmon strikes einna bestur. Þetta er hermitónlist sem lýsir tveggja tíma viðureign Brubecks við lax í Alaska. Þá sleit laxinn línuna og hvarf í árstrauminn. Militello fer á kostum í þessu lagi þar sem breiður, harður tónn hans nýtur sín til fullnustu. Píanósóló Brubecks í tangóættuðum ópusi, The time of our madness, er töfrandi. Diskurinn endar á píanósóló með Dave: Goodbye old friend, þar sem hann kveður vin sinn Gerry Mulligan. Impressíonískt verk eins og Lotus blossom sem Ellington lék gjarnan í minningu vinar síns Billy Strayhorns.

Ómissandi diskur fyrir alla Brubeck-aðdáendur.