VEIÐIFÉLAG Fnjóskár boðar til félagsfundar á Skógum mánudaginn 13. september nk. kl. 21, þar sem á dagskrá verður leiga árinnar. Veiðifélagið Flúðir á Akureyri hefur haft ána á leigu til fjölda ára.
Leiga Fnjóskár til umræðu á félagsfundi Um 160 laxar komnir á land

VEIÐIFÉLAG Fnjóskár boðar til félagsfundar á Skógum mánudaginn 13. september nk. kl. 21, þar sem á dagskrá verður leiga árinnar. Veiðifélagið Flúðir á Akureyri hefur haft ána á leigu til fjölda ára.

Jón Sigurðsson í Hjarðarholti, formaður veiðifélagsins, sagði að veiðin í sumar hefði verið frekar dræm en taldi að á land væru komnir um 160 laxar og um 500 bleikjur, sem er heldur minni veiði en í fyrra. Á neðra svæðinu eru seldar sex stangir en einnig eru seld veiðileyfi á Illugastöðum á silungasvæði árinnar.

Fnjóská hefur tvívegis farið yfir 550 laxa á sumri á síðustu 20 árum en eins og víðast hvar annars staðar á Norðurlandi er veiðin í ár frekar dræm. "Fiskifræðingar voru búnir að spá því að þetta yrði metár hjá okkur en það fór nú svona. Gamall bóndi í dalnum, sem hefur lengi verið viðloðandi Fnjóská og spáir mikið í þetta, sagði að í gegnum aldirnar hefði það fylgst að að ef harðæri og kal væri á landi væri ekki veiði. Og ég er ekki viss um að þetta sé út í loftið hjá honum," sagði Jón.