Vilji Kristján G. Arngrímsson stuðla að málefnalegum umræðum um þessi mál á grundvelli orða minna, segir Björn Bjarnason, er frumforsenda að hann vitni rétt til þeirra og geri hvorki mér né öðrum upp skoðanir.
Rökræður á röngum grunni

Vilji Kristján G. Arngrímsson stuðla að málefnalegum umræðum um þessi mál á grundvelli orða minna, segir Björn Bjarnason, er frumforsenda að hann vitni rétt til þeirra og geri hvorki mér né öðrum upp skoðanir.

Í MORGUNBLAÐINU 9. september birtist grein eftir Kristján G. Arngrímsson, fastan dálkahöfund blaðsins, sem skilja má á þann veg, að hann sé að vitna orðrétt til ræðu minnar á háskólahátíð 3. september sl. og rökræða um skoðanir mínar. Dálkahöfundurinn gefur sér hins vegar eigin forsendur, kennir þær við mig, og hefur síðan rökræður, sem eru næsta marklitlar vegna þessara sérkennilegu vinnubragða. Fyrsta setning í þessum dálki Kristjáns G. Arngrímssonar dugar til að staðfesta þessa fullyrðingu mína og skora ég á lesendur blaðsins að bera hana saman við þau orð, sem ég lét falla á háskólahátíðinni. Einnig bið ég lesendur að kynna sér, hvernig Kristján leggur út af þeim orðum mínum, þar sem ég fjalla um mikinn og vaxandi áhuga á háskólanámi. Fer ég þess vinsamlega á leit við Morgunblaðið, að það birti orðréttan þennan kafla ræðu minnar. Hann var á þennan veg:

"Á tímum örra breytinga getur verið erfitt að ná áttum og leggja rétt mat á stöðu sína. Segja má, að háskólastigið sé nú á slíku breytingaskeiði jafnt hér á landi sem hvarvetna annars staðar í heiminum.

Rithöfundurinn Stefan Zweig segir frá því í meistaraverki sínu Veröld sem var, þegar hann hóf háskólanám í Austurríki fyrir réttum hundrað árum. Á þeim gömlu og gleymdu tímum hafi enn verið nokkur rómantískur ljómi yfir því að fara í háskóla. Ýmis hlunnindi fylgdu því að vera stúdent, svo að ungir háskólaborgarar nutu víðtækra forréttinda fram yfir aðra jafnaldra sína. Háskólarnir hafi flestir verið stofnaðir á miðöldum, á þeim tíma þegar tæplega var litið á það sem starfsgrein að leggja fyrir sig vísindastörf, og því nauðsynlegt að veita stéttinni einhver forréttindi til að laða unga menn að námi.

Sá tími er sannarlega liðinn, að veita þurfi forréttindi til að laða ungt fólk að námi. Hitt er að verða sönnu nær, að það séu forréttindi að komast að í því háskólanámi, sem menn hafa hug á að stunda. Hvarvetna standa stjórnendur háskóla frammi fyrir því gleðilega viðfangsefni, að þeim fjölgar sífellt, sem vilja komast að í skólunum. Vandi skólastjórnenda felst í því að tryggja nægilegt fjármagn, nota fjármuni vel og stjórna skólastarfi þannig, að góðir kennarar veljist til starfa og staðið sé að kennslu og rannsóknum af metnaði.

Fyrir nokkrum mánuðum var prófessor Anthony Giddens, sem er rektor London School of Economics og jafnframt helsti hugmyndafræðingur þriðju leiðarinnar svonefndu í stjórnmálum, hér í heimsókn. Í samtali okkar taldi hann lífsnauðsynlegt fyrir skóla sinn að afla tekna með skólagjöldum. Skólinn ætti í samkeppni við háskóla á borð við Harvard í Bandaríkjunum, sem væri í hópi öflugustu fyrirtækja þar í landi. Enginn háskóli gæti staðist slíka samkeppni án heimildar til að innheimta kennslugjöld. Gjöldin tryggðu nemendum betri menntun. Kostnaðarvitund nemenda og kennara skerptist, nemandinn nyti námsins til langs tíma og ætti því að bera kostnað umfram skatta sína auk þess sem hann styrkti skóla sinn til góðra verka. Ókeypis háskólaganga leiddi ekki til þess að hinir efnaminni færu frekar í langskólanám.

Mér er ljóst, að það eitt er hættulegt fyrir menntamálaráðherra að lýsa skoðunum annarra á skólagjöldum. Hefur það áður verið lagt út í áróðursumræðum hér á landi á þann veg, að ég sé að mæla með slíkri gjaldtöku í ríkisháskólum á Íslandi. Ég tel þó skylt að taka þessa áhættu, því að ræði menn ekki þennan þátt í starfsumhverfi háskóla, sjá þeir aldrei heildarmyndina. Þeim löndum fækkar, þar sem háskólanám er ókeypis fyrir nemendur.

Á vegum Eurydice, sem er samstarfsvettvangur þjóðanna á evrópska efnahagssvæðinu um söfnun og miðlun upplýsinga um menntamál, hefur nýlega verið gefin út fróðleg skýrsla um fjárhagslegan stuðning við háskólastúdenta í Evrópu. Þar er einnig að finna röksemdir með og á móti skólagjöldum og samanburð milli þjóða í því efni. Tilgangur skýrslunnar er meðal annars að auðvelda stjórnvöldum menntamála og öðrum að átta sig á þeim kostum, sem fyrir hendi eru við þróun og stjórn háskólastigsins.

Í öllum löndum er stefnt að því að bjóða meiri fjölbreytni í námsvali um leið og nemendum fjölgar. Talsmenn aukinnar menntunar þurfa að huga að leiðum til að örva frumkvæði, frumleika og árangur í kennslu og rannsóknum, og fjárstreymi til skóla og rannsóknarstofnana. Leiðir til þessa eru margar en geta verið vandrataðar.

Við fjármögnun er ekki margra kosta völ og um hana þarf að ríkja sæmileg sátt, svo að nemendur, kennarar og skólastjórnendur geti einbeitt sér að höfuðtilgangi skólastarfsins, markvissu námi og metnaðarfullri kennslu. Tel ég, að því markmiði verði best náð með samningum milli ríkisvaldsins og einstakra skóla, sem byggjast á hlutlægu mati á vel skilgreindum kostnaði."

Vilji Kristján G. Arngrímsson stuðla að málefnalegum umræðum um þessi mál á grundvelli orða minna, er frumforsenda að hann vitni rétt til þeirra og geri hvorki mér né öðrum upp skoðanir.

Höfundur er menntamálaráðherra.