NOKKUÐ hefur borið á því að undanförnu að fólk hafi veikst af jafnvægistaugarbólgu eða jafnvægistaugarþrota. Jafnvægistaugarbólga (Vestibularis neuritis) leggst á eyra eða jafnvægistaug með þeim afleiðingum að fólk fær skyndilegan svima og missir jafnvægið. Blaðinu er kunnugt um nokkur nýleg tilfelli, þar sem sjúkdómurinn hefur lagst þungt á miðaldra konur.
Jafnvægistaugarbólga gerir vart við sig

NOKKUÐ hefur borið á því að undanförnu að fólk hafi veikst af jafnvægistaugarbólgu eða jafnvægistaugarþrota. Jafnvægistaugarbólga (Vestibularis neuritis) leggst á eyra eða jafnvægistaug með þeim afleiðingum að fólk fær skyndilegan svima og missir jafnvægið. Blaðinu er kunnugt um nokkur nýleg tilfelli, þar sem sjúkdómurinn hefur lagst þungt á miðaldra konur.

Sigurður Stefánsson, læknir á háls-, nef- og eyrnadeild Sjúkrahúss Reykjavíkur segir ný tilfelli koma reglulega upp. Talið sé að bólgan stafi af vírus og sjúkdómurinn sé af svipuðum toga og andlitstaugarlömun og skyndilegt heyrnaleysi. Búast megi því við að hann geri stundum vart við sig í bylgjum, þó aldrei sé hægt að tala um faraldur. Sigurður kvað starfsfólki Sjúkrahúss Reykjavíkur þó ekki vera kunnugt um að slík aukning hefði gert vart við sig undanfarið.

Tímabundið ástand

Um ýmsa sjúkdóma getur verið að ræða þegar svimi og jafnvægisskortue gerir vart við sig. En oft er þó um jafnvægistaugarbólgu að ræða, en hún hefur í för með sér að virkni jafnvægistaugarinnar verður léleg eða jafnvel engin. Í kjölfarið kemur langvarandi svimi sem er svæsinn fyrstu dagana og fylgir þá oft ógleði og jafnvel uppköst. Um tímabundið ástand er að ræða og segir Sigurður misjafnt hve lengi fólk sé að jafna sig. Svimans kunni jafnvel að gæta í nokkrar vikur eða mánuði. Ekki er þó um alvarleg veikindi að ræða, þó sjúklingurinn hafi töluverð óþægindi af.

Að sögn Sigurðar er ekki vitað nákvæmlega hvað veldur jafnvægistaugarbólgu. Talið sé þó að um vírus sé að ræða og þá mögulega fleiri en eina vírusgerð. Jafnvægistaugarbólga er ekki smitandi og gera má ráð fyrir að allt að fimm til tuttugu af hverjum hundrað þúsund einstaklingum veikist á ári hverju.