STJÓRNIR Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja hf., Krossaness hf. á Akureyri og Óslands ehf. á Höfn í Hornarfirði hafa allar samþykkt að vinna á grundvelli viljayfirlýsingar um samruna þessara félaga. Í tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands kemur fram að stefnt sé að því að ganga frá formlegri áætlun um samrunann fyrir 15. október næstkomandi.
Sameining Ísfélagsins, Vinnslustöðvarinnar, Krossaness og

Óslands Viljayfirlýsing um samruna samþykkt

STJÓRNIR Vinnslustöðvarinnar hf. í Vestmannaeyjum, Ísfélags Vestmannaeyja hf., Krossaness hf. á Akureyri og Óslands ehf. á Höfn í Hornarfirði hafa allar samþykkt að vinna á grundvelli viljayfirlýsingar um samruna þessara félaga.

Í tilkynningu til Verðbréfaþings Íslands kemur fram að stefnt sé að því að ganga frá formlegri áætlun um samrunann fyrir 15. október næstkomandi. Gert er ráð fyrir að félögin fjögur sameinist undir merkjum Ísfélags Vestmannaeyja, sem er elsta starfandi hlutafélag landsins, og að höfuðstöðvar fyrirtækisins verði í Vestmannaeyjum.

Stefnt er að því að hið nýja félag verði skráð á Verðbréfaþingi Íslands, en Vinnslustöðin hf. er nú þegar á aðallista Verðbréfaþings og Krossanes hf. er á vaxtarlista. Félagið mun ráða yfir 20 þúsund þorskígildistonna kvóta. Fjórar fiskimjölsverksmiðjur verða í eigu félagsins með samtals 3.500 tonna afkastagetu á sólarhring, en nýja félagið mun ráða yfir 15% af loðnukvótanum. Samtals mun hið sameiginlega félag gera út 13 skip.