Í KVÖLD kl. 21.30 heldur framtíðardjassinn áfram að hljóma í Tjarnarbíói. Fyrst kemur ÓBÓ fram, eða Ólafur Björn Ólafsson trommuleikari sem hefur fengið til liðs við sig Hlyn Aðils, Böðvar "Brútal" Jakobsson, Smára "Tarfa" Jósepsson og Jóel Pálsson.

Fljótandi stykki

níutíu strengja

Í KVÖLD kl. 21.30 heldur framtíðardjassinn áfram að hljóma í Tjarnarbíói. Fyrst kemur ÓBÓ fram, eða Ólafur Björn Ólafsson trommuleikari sem hefur fengið til liðs við sig Hlyn Aðils, Böðvar "Brútal" Jakobsson, Smára "Tarfa" Jósepsson og Jóel Pálsson.

Síðan stígur á svið fimmtán manna gítarsveit og flytur verkið "Helvítis gítarsinfónían", og er Pétur Hallgrímsson, gítarleikari í Lhooq, er einn aðstandenda þeirrar uppákomu ásamt gítarleikurunum Hilmari Jenssyni, Kristínu Björgu Kristjánsdóttur og Jónsa í Sigur Rós.

"Við Hilmar höfum spilað saman áður í tilraunamennsku, og hugmyndin var að halda gítarkvöld, en hún þróaðist út í þessa fimmtán manna gítarsinfóníu," segir Pétur. "Við höfum æft með Kristínu, svona til að leggja drögin að verkinu, og skrifuðum niður einhverja parta sem menn eiga að spila. Þetta fljótandi stykki, og búast má við að þetta endi í góðum hápunkti. Þetta verður aðeins opið en til þess að þetta verðir ekki algjört kaos verða menn að sníða sér stakk eftir vexti, og ekki spinna of mikið. Hver verður að standa á sínum staur."

­ Hvernig völdust gítarleikararnir í sinfóníuna?

"Það var nú ekki erfitt, það þekkja allir alla."

­ Hefur þetta verið reynt áður?

"Ekki veit ég til að það hafi gerst á Íslandi. Glenn Branca og Robert Fripp hafa báðir búið til stærri gítarhljómsveitir. Þetta verður alveg frábært og alveg örugglega í eina skiptið sem manni gefst tækifæri til að leika með fjórtán öðrum gítarleikurum, níutíu strengjum."



Morgunblaðið/Árni Sæberg Gítaristarnir Hilmar, Kristín Björg og Pétur ásamt Jóhanni Jóhannssyni sem lék í Tjarnarbíói í gærkveldi.