Opið mán.­föstud. frá 12­15.30. Laugard sunnud. 14­18. til 26. sept. Aðgangur ókeypis. AÐ ljósmynd og málverk séu af skyldum meiði hefur löngum verið vitað, málarar fyrri alda notuðust við optísk gler, ýmis tól og tæki til að marka útlínur, smáatriði og fjarvídd í verkum sínum.

"Þögn"

MYNDLIST

Ljósmyndasafn Íslands, Borgartúni 1

LJÓSMYNDIR

TORE H. RÖYNELAND

Opið mán.­föstud. frá 12­15.30. Laugard sunnud. 14­18. til 26. sept. Aðgangur ókeypis.

AÐ ljósmynd og málverk séu af skyldum meiði hefur löngum verið vitað, málarar fyrri alda notuðust við optísk gler, ýmis tól og tæki til að marka útlínur, smáatriði og fjarvídd í verkum sínum. Málverkið var þannig undanfari ljósmyndarinnar og þessi hugvitssömu hjálpartæki málaranna hafa án nokkurs vafa átt drjúgan þátt í uppgötvun ljósmyndavélarinnar. Það var svo í beinu framhaldi fyrri vinnubragða að málarar hagnýttu sér nýuppgötvaða ljósmyndatæknina, þrátt fyrir að sumir harðneituðu því, afneituðu og fordæmdu slík vinnubrög hjá öðrum málurum. Einn þeirra var Edvard Munch, en svo hefur komið í ljós öllun til undrunar að hann notaði ljósmyndina ekki svo lítið og var sjálfur ákafur ljósmyndari, þó svo hann málaði ekki síður beint eftir myndefninu, var þannig aldrei háður hjálpartækjum. Ljósmyndin losaði hins vegar um hugmyndir hjá Munch, líkt og gerðist hjá Picasso, sem mun hafa hafið hvern dag á því að fletta í bókum og skoða myndlist í aldanna rás. Þessir nýskaparar voru þannig ekki of stórir til að leita í mal annarra, læra af öðrum, og töldu sína dýrmætu sköpunargáfu ekki hljóta skaða af líkt og minni spámenn, hvað þá klaufinn og klastrarinn. Seinni tíma málarar hafa og mundað ljósmyndavélina ótt og títt án þess að fara dult með það, má hér nefna Sigmar Polke, sem Listasafnið kynnti nýverið og er æstur ljósmyndari, og þeir notast sömuleiðis við ýmsa hliðartækni tengda filmuvinnu og ljósmyndapappír. Málarar módernismans og í enn frekari mæli síðmódernismans hafa svo einnig hagnýtt sér ljósmyndir annarra undir ýmsum formerkjum og við öllu þessu er lítið að segja, því þetta er eðlilegur gangur sköpunarferlisins.

Það telst hins vegar óvenjulegra, að málari skuli hafa ljósmyndara sér til aðstoðar við gerð mynda sinna, eins og á sér stað um hinn norska Patrick Huse, og er þó á engan hátt forkastanlegt. Samvinna þeirra Tores H. Röynelands og Patricks Huses hefur reynst gifturík, ekki aðeins fyrir málarann heldur einnig ljósmyndarann, sem ekki síður en Huse hefur hrifist af þögninni og orkunni í íslenzku landslagi, víðáttunum, berangrinu og hrauninu. Þetta eru þær andlegar orkulindir sem útlendir sækja stíft í hvað sem roki og rigningu líður, á sama tíma og landsmenn flykkjast til sólarstranda. Í víðáttunum, hinum mikla friði og djúpu kyrrð, eru falin eftirsótt auðævi í vitfirrtum heimi, eru sem bergmál þeirra náttúruafla sem allt líf í mannheimi sækir upphaf sitt til og geta verið jafn friðhelg sjálfum grómögnunum sem smám saman taka að skjóta rótum.

Eins og segir, fæddi samvinnan af sér innblástur hjá ljósmyndaranum til að halda áfram sköpunarferlinu í sjálfstæðu ljósmyndaverkefni, og eftir tökurnar 1997 var niðurstaðan skýr; það varð að halda ljósmyndasýningu sem byggðist á náttúruupplifunum og stemmningu.

Árangurinn getur að líta í 13 stórum ljósmyndum sem til sýnis eru á veggjum ljósmyndasafnsins, undirstrika að nokkru þátt Röynalands í sköpunarferli málverka Huses. En þær eiga ekki síður sinn eigin tón en málverkin, því Röyneland er ekki síður snjall í sinni list en félagi hans og eiga sem slíkar mikið erindi fyrir augu almennings. Fram kemur drjúg tilfinning fyrir hinu myndræna í landslaginu, einkum í myndunum Heat 1 (4), Organic (5), Scar (6), og Peaks (13). Hins vegar njóta ljósmyndirnar sín ekki alltof vel í rýminu og hefði verið eðlilegra að þær hefðu haft samflot með málverkunum á Kjarvalsstöðum. Einhvern veginn komast þær ekki á flug á staðnum enda er rýmið ekki sérlega vel fallið til sýninga jafn stórra mynda og ég hafði það á tilfinningunni að í frambærilegri sýningarsal færu allt aðrar myndir en ég vísaði til að blómstra. Fyrir þá sem áhuga hafa á myndverkum Patricks Huses, er þó vissulega ávinningur að kynnast vinnubrögðum heimildaljósmyndara hans, og þeirri giftusamlegu víxlverkun sem þau hafa fram borið.

Bragi Ásgeirsson

Ein af ljósmyndunum á sýningu Tores H. Röyelands í Ljósmyndasafni Íslands, Borgartúni 1.