Ítalir og Englendingar riðu ekki feitum hesti frá síðustu viðureignum sínum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Dino Zoff, þjálfari Ítala, segir að sitt lið hafi vanmetið Dani, sem snéru leiknum sér í hag í Napólí og unnið 3:2. Enska liðið fær harða gagnrýni, ekki síst framlínumenn liðsins, sem voru sagðir sýna litla tilburði gegn Pólverjum.
Englendingar, Ítalir

og Frakkar í vanda

Ítalir og Englendingar riðu ekki feitum hesti frá síðustu viðureignum sínum í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu. Dino Zoff, þjálfari Ítala, segir að sitt lið hafi vanmetið Dani, sem snéru leiknum sér í hag í Napólí og unnið 3:2. Enska liðið fær harða gagnrýni, ekki síst framlínumenn liðsins, sem voru sagðir sýna litla tilburði gegn Pólverjum. Heimsmeistarar Frakka eru áhyggjufullir en varnarleikur liðsins, sem var helsta vopn þess á HM, er lakari en áður og hefur liðið fengið fimm mörk á sig í undanförnum leikjum.

Ítölsk dagblöð vanda leikmönnum liðsins ekki kveðjurnar. Segir í Tuttosport að ítölsku leikmennirnir hafi orðið hræddir gegn Dönum og í Corrierre dello Sport segir í fyrirsögn að ítalska liðið hafi verið ömurlegt. Þá segir í Gazzetta dello Sport að leita þurfi aftur um áratugi að ítölsku landsliði sem misst hefur niður tveggja marka forskot á heimavelli.

Dino Zoff, þjálfari Ítala, sagði að sitt lið hafi vanmetið styrk þess danska og úrslitin væru liðinu áminning. "Við gerum fátt af viti, mikið af mistökum sem við eru ekki vanir að gera. Allir héldu að leikurinn yrði okkur auðveldur en raunin er sú að aldrei er hægt að gera ráð fyrir sigri fyrirfram. Þetta sagði ég fyrir leikinn en enginn lagði við hlustir." Þrátt fyrir ósigur er ítalska liðið jafnt Dönum í efsta sæti 1.-riðils með 14 stig og nægir því jafntefli gegn Hvít-Rússum í síðasta leik til þess að komast beint í úrslitakeppnina því Danir hafa lokið sínum leikjum.

Englendingar gagnrýndir

Enska landsliðið virðist rúið trausti eftir markalaust jafntefli gegn Pólverjum í Varsjá. Hefur liðið verið sakað um getuleysi og hefur gagnrýnin beinst að framherjum liðsins. Jack Charlton, fyrrverandi leikmaður enska landsliðsins, segir að enska liðið hafi ekki sýnt neina tilburði til þess að vinna leikinn. "Alan Shearer gerði nákvæmlega ekki neitt. Ég er mikill aðdáandi hans en hann gerði ekkert fyrir mig. Michael Owen, sem kom inn á seint í leiknum, gerði heldur ekkert. Þá fékk Robbie Fowler þrjú tækifæri til þess að skora en mistókst í öll skiptin." Charlton gagnrýndi einnig frammistöðu miðjuleikmanna enska liðsins og sagði þá ömurlega. Joe Royle, knattspyrnustjóri Manchester City, tók undir þau orð að leikmenn enska liðsins hefðu ekki staðið undir væntingum. Hann bar blak af Kevin Keegan, þjálfara enska liðsins, og sagði að hann hefði ekkert til að skammast sín fyrir. "Öll spjót beinast að Keegan en það voru leikmennirnir sem brugðust honum á leikvelli," sagði Royle.

Íþróttafréttamenn Breska ríkisútvarpsins BBC líktu leik Englendinga við harmleik og sögðu það dapurlegt að liðið þyrfti að treysta á að sænska liðið vinni Pólverja í Svíþjóð til þess að enska liðið hafi möguleika á að komast úr riðlinum. Englendingar virðast ekki hafa mikla trú á að landsliðið komist áfram ef marka má hvað lagt er undir hjá William Hill-veðmangarafyrirtækinu. Þar eru möguleikar enska liðsins 1-3 að það komist ekki áfram, 2-1 að liðið komist í lokakeppnina og 25-1 að liðið tryggi sér Evróputitilinn næsta sumar.

Enskir áhorfendur voru á ný í sviðsljósinu er átök milli þeirra og pólskra áhorfenda brutust út á meðan leiknum stóð. Í The Sunday Times segir að vonandi líti forráðamenn Alþjóða knattspyrnusambandsins [FIFA] á ólætin sem einangrað tilvik og að það bitni ekki á umsókn enska knattspyrnusambandsins á að halda heimsmeistarakeppnina árið 2006. Englendingum til hryllingar var Sepp Blatter, forseti FIFA, staddur á leiknum og gat fylgst með er enskir óeirðaseggir og pólskar fótboltabullur létu ófriðlega.

Slakur varnarleikur Frakka

Frakkar eru áhyggjufullir vegna frammistöðu liðsins í 4.-riðli undankeppni EM, ekki síst yfir varnarleik liðsins. Það hefur skorað sex mörk í síðustu fjórum leikjum undankeppninnar en fengið á sig fimm. Til samanburðar fékk liðið á sig tvö mörk í sjö leikjum á HM. Liðið fékk á sig tvö mörk gegn Armenum í Jerevan á miðvikudag og mistókst að bæta markatölu liðsins, sem gæti riðið baggamuninn í riðlinum er upp er staðið. Eina von Frakka um að fara beint áfram er að vinna Íslendinga og að Rússar og Úkraínumenn geri jafntefli í Mosvku.

Roger Lamerre, þjálfari Frakka, var reiður út í sína leikmenn eftir leikinn gegn Armenum og sagði það ekki eðlilegt að núverandi heimsmeistarar gætu ekki leikið á eðlilegan hátt síðustu mínútur leiksins og vitnaði til þess að franska liðið fékk á sig vítaspyrnu undir lokin. "Ég er ekki ánægður með frammistöðu liðsins því það sýndi ekki yfirvegaðan leik og fékk á sig mark undir lokin. Í raun voru síðustu mínúturnar hrein martröð fyrir mig," sagði Lamerre. Hann gaf í skyn að agaleysi væri meðal leikmanna franska liðsins og kvaðst hafa heyrt að nokkrir leikmenn hefðu rofið útgöngubann eftir leikinn gegn Úkraínu um síðustu helgi og farið út á lífið í Kænugarði.

Lamerre taldi sitt lið ekki eiga lengur möguleika á fyrsta sæti í riðlinum en það væri möguleiki á að ná öðru sæti, er tryggir því sæti í sérstakri úrslitakeppni um sæti í lokakeppninni.

Morgunblaðið/Brynjar Gauti HERMANN Hreiðarsson skallar að marki gestanna í landsleik Íslendinga og Úkraínumanna á Laugardalsvelli í gærkvöldi, sem lauk með sigri Úkraínu, 1:0. Ríkharður Daðason bíður átekta. Eftir Gísla Þorsteinsson