ÓKEYPIS djassveisla verður haldin í átta veitingahúsum í Reykjavík í kvöld, þar sem jafnt ungir sem gamlir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi. Allir að dansa Fönksveitin Jagúar leikur á Astró frá kl. 21.30. Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari segist fagna því að jafnmargir ungir tónlistarmenn taki þátt í Jazzhátíð Reykjavíkur eins og raunin er í ár.

Djass fyrir alla

um allan bæ

ÓKEYPIS djassveisla verður haldin í átta veitingahúsum í Reykjavík í kvöld, þar sem jafnt ungir sem gamlir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Allir að dansa

Fönksveitin Jagúar leikur á Astró frá kl. 21.30. Samúel Jón Samúelsson básúnuleikari segist fagna því að jafnmargir ungir tónlistarmenn taki þátt í Jazzhátíð Reykjavíkur eins og raunin er í ár. "Það á auðvitað að bjóða upp á allt litrófið, djass er fyrir alla aldursflokka. Við í Jagúar leikum djassfönk með spuna og sólóum, eða bara fönk, en það fellur inn í þetta djassmengi sem er mjög vítt hugtak. Í kvöld leikum við mestmegnis frumsamin lög af nýrri plötu sem við vorum að taka upp. Við hvetjum alla til að koma, kannski sérstaklega þá sem ekki hafa heyrt í bandinu, en líka hina sem þekkja til og hafa dansað með okkur í brjáluðu stuði."

Hammondinn er vinsæll

Hammondleikarinn Þórir Baldursson er einn þeirra sem fólki gefst tækifæri að hlýða á í kvöld á nýja skemmtistaðnum Klaustrinu við Hverfisgötu.

"Með mér í tríói eru alveg súpergæjar, þeir Jóel Pálsson saxófónleikari og Jóhann Hjörleifsson á trommur. Við erum að spila hefðbundinn djass, sem að vísu hljómar dálítið öðruvísi þar sem Hammond- orgelið er miðpunkturinn, en hljóðið í Hammond-orgelinu er mjög vinsælt þessa dagana. Enginn kontra- eða rafmagnsbassi með, það gerist allt á orgelinu. Við leikum ballöður, sving og soul-fönk sem hæfir orgelinu mjög vel."

­ Engar sérlegar hammondsvítur?

"Nei, nei, engir stælar, bara stemmning. Þetta eru ekki tónleikar, heldur ætlum við að láta fólki líða vel."

Morgunblaðið/Jón Svavarsson JAGÚAR leikur á Astró í kvöld.

Morgunblaðið/Kristinn ÞÓRIR verðum með Hammondinn á Klaustrinu frá kl. 22 í kvöld.

Einnig koma fram:

Kl. 21.00: Dixieland-hljómsveit Árna Ísleifssonar á Ingólfstorgi.

Kl. 21.30: Funkmaster 2000 á Café Victor.

Þóra Gréta Þórisdóttir á Einari Ben.

Andrea Gylfadóttir á Gauki á Stöng.

Jamm session verður í Kaffileikhúsinu og

Jazzmenn Alfreðs leika á Kaffi Reykjavík.