FRAMKVÆMDUM við Listabraut, sem nær frá Kringlumýrarbraut að Háaleitisbraut, lýkur í næstu viku en þær hafa staðið frá því í byrjun ágúst, að sögn Haralds Alfreðssonar, verkfræðings hjá gatnamálastjóra.
Framkvæmdum við Listabraut að ljúka

Kringlan FRAMKVÆMDUM við Listabraut, sem nær frá Kringlumýrarbraut að Háaleitisbraut, lýkur í næstu viku en þær hafa staðið frá því í byrjun ágúst, að sögn Haralds Alfreðssonar, verkfræðings hjá gatnamálastjóra.

Framkvæmdirnar tengjast stækkun Kringlunnar, en um næstu mánaðamót verður hluti af 10 þúsund fermetra viðbyggingu Kringlunnar opnaður og því nauðsynlegt að bæta helstu umferðaræðar í nágrenninu til samræmis við væntanlega umferðaraukningu. Kringlunni, þ.e. götunni sem liggur frá Listabraut og inn að verslunarmiðstöðinni Kringlunni, var breytt í sumar, en þá var hún breikkuð og lækkuð.

Harald sagði að verið væri að breyta umferðarflæðinu við Listabraut með því að breyta umferðareyjum og færa til niðurföll. Þá yrði strætisvagnabiðstöðin við Verslunarskólann færð aðeins nær Viðskiptaháskólanum. Hann sagði að framkvæmdunum væri að mestu lokið, aðeins ætti eftir að helluleggja eyjar og tengja umferðarljós.

Kostnaður við gatnagerðarframkvæmdirnar við Listabraut og Kringluna er áætlaður um 33 milljónir króna.