Vaskar, ungar konur hittast vikulega í Hlaðvarpanum og ræða kvennapólitík. Sumar eru enn í menntaskóla en aðrar rétt byrjaðar í háskólanámi. Þær eru sér meðvitandi um stöðu kvenna, vel lesnar í kvennafræðunum, hafa lifandi áhuga á samfélaginu og vilja gera róttækar breytingar. Salvör Nordal sat "sellufund" hjá Bríeti.
GLEFSUR FRÁ FUNDI HJÁ BRÍETI, FÉLAGI UNGRA FEMÍNISTA

Misréttið

er meira falið núna

Vaskar, ungar konur hittast vikulega í Hlaðvarpanum og ræða kvennapólitík. Sumar eru enn í menntaskóla en aðrar rétt byrjaðar í háskólanámi. Þær eru sér meðvitandi um stöðu kvenna, vel lesnar í kvennafræðunum, hafa lifandi áhuga á samfélaginu og vilja gera róttækar breytingar. Salvör Nordal sat "sellufund" hjá Bríeti.

"Ég talaði við Málfríði vegna ráðstefnunnar Konur og lýðræði og hún sagði að við gætum ekki tekið þátt í ráðstefnunni. Ráðstefnan verður víst svo stór. En það er mögulegt að við fáum að senda áheyrnarfulltrúa."

"Það er æðislegt."

"En er mögulegt að einhverjar af ráðstefnunni komi í heimsókn og ræði við okkur?" "Við gætum verið með litla ráðstefnu hér í Hlaðvarpanum fyrir þær sem ekki fá aðgang að hinni."

"Jú, það er mögulegt. Það kemur einnig til greina að við vinnum sem sjálfboðaliðar á ráðstefnunni."

"Auðvitað gerum við það. Þetta er gott málefni."

Á þessum orðum hefst félagsfundur hjá Bríeti, Félagi ungra femínista, þetta tiltekna mánudagskvöld. Félagskonurnar eru að ræða um hugsanlega þátttöku þeirra í alþjóðlegu ráðstefnunni Konur og lýðræði sem haldin verður hér á landi í haust. Þær vilja endilega taka þátt í henni sem og öllu starfi er tengist kvenfrelsismálum. Þetta er hressilegur hópur ungra kvenna og þær hafa allar miklar skoðanir á málefnum kvenna í samfélaginu.

Kvennaráðstefna og jafnréttisfræðsla

"Þessi ráðstefna er mjög "relevant" fyrir okkur. Það verður mikið rætt um "non-governmental organizations"."

"Það erum við."

Áhugi hópsins er greinilegur. En þær eru með margt annað á prjónunum.

"Ég hringdi líka í menntamálaráðuneytið vegna hugmyndarinnar um að vera með jafnréttisfræðslu í grunnskólum. Slík fræðsla er hins vegar undir hverjum skólastjóra komin."

"Svona fræðsla þarf að vera mjög vel undirbúin."

"Kannski ættum við að einbeita okkur frekar að framhaldsskólunum og heyra hvað þeim finnst. Þið vitið, hvað þeim finnst vanta í grunnskólafræðsluna."

"Það er ekkert efni kennt í grunnskóla."

"Ég talaði við konu hjá Námsgagnastofnun. Hún sagði að við gætum lagt fram okkar efni sem hugmynd að kennsluefni.

"Við gætum skrifað námsefnið sjálfar."

Þær eru komnar á flug.

"Skipum nefnd í skólamálin." "Hvernig er eiginlega með allar þessar nefndir? Hvernig ganga nefndastörfin?"

"Við erum með styrkjanefnd, ritnefnd, klámnefnd."

"Klámnefnd. Ég vil vera í henni."

Þær skipa nefnd í skólamálin enda skólafræðslan nokkuð sem þarf að vinna vel að. En dagskrá fundarins er langt frá því að vera tæmd. Bríet á heimasíðu.

"Hvernig er með heimasíðuna okkar?"

"Það kostar mikið að kaupa svona tölvulén. Það er um 15 þúsund og svo 4 þúsund á mánuði."

"Við verðum að vera með briet.is. Á ekki að skrifa sérstaklega um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur á heimasíðuna?"

"Ég er bara ekki viss hvað ég á að skrifa mikið um hana. Við verðum auðvitað með mynd af henni og æviatriði. Mér finnst svo ótrúleg sagan af því hvernig henni var tekið í borgarstjórn þegar hún hélt sína fyrstu ræða fyrst kvenna árið 1908. Hún lagði til að settar yrðu 200 krónur til að kenna ungum stúlkum sund, en þá voru settar 450 krónur í að kenna strákum sund. Þegar hún hafði mælt fyrir þessu kom einhver karl upp í pontu og átti ekki orð yfir frekjuna og fannst þessi tillaga yfirgangur og dónaskapur."

"Settu þessa sögu á vefinn."

"Hvernig er með bolina okkar? Verðum við ekki að selja meira af þeim?"

"Við eigum nú ekki mikið eftir af þeim."

"Hvað eiga þeir að kosta?"

"Er ekki 1.200 kall svolítið mikið?"

Og nú hefst umræða um peningamál félagsins. Ein þeirra er gjaldkeri og ber nafnið Gullveig og sú gerir grein fyrir stöðu mála. Félagsskapurinn stendur fyrst og fremst með félagsgjöldunum sem er 500 krónur á mánuði, en fáa styrki hafa þær fengið fyrir starfseminni. Þær velta því fyrir sér hvort félagsgjaldið sé of hátt.

"Þetta er eins og tveir sígarettupakkar.

"Eða einn bjór?"

"Hvar kaupir þú bjór eiginlega?"

"Þetta er eins og einn bjór á Kaffibarnum."

Klámið niðurlægir okkur allar

Að síðustu er rætt um haustfagnað Bríetar sem þær vilja halda í september. Og næsta fund, en þá ætlar Þórunn Sveinbjarnardóttir þingkona að koma í heimsókn.

"Við verðum að ræða um afstöðu hennar til þessara klámbúlla í bænum."

Og nú er lesin fundargerð og formlegum fundi að ljúka. Sú sem hefur skrifað fundargerð er nefnd ritfreyja og hún les upp helstu atriði fundarins. Það er komið að blaðamanni að spyrja og það er byrjað á kláminu sem þeim virðist svo hugleikið. Hver er afstaða Bríetar í þeim efnum?

"Í stefnuskránni kemur afstaða okkar mjög skýrt fram. Við erum á móti klámi og strípidansi sem hlutgerir konur og stuðlar að virðingarleysi fyrir öllum konum. Það þarf að endurskoða lögin um klám og byrja á því að skilgreina hvað klám er. Vændi virðist í lagi ef það er ekki aðaltekjulind. Sko, þetta eru fáranleg lög. Og það er alltaf kúnnin sem sleppur."

Og hún les úr lögum um klám máli sínu til stuðnings. Fleiri taka til máls og málefnið er þeim greinilega ofarlega í huga og þær eru líka nokkuð vissar um að vændi sé hluti af starfsemi klámbúlla bæjarins og segja margar sögur máli sínu til stuðnings.

"Ég vil líka heyra meira frá karlmönnum sem finnst þetta ekki í lagi og finnst þetta niðurlægjandi fyrir sitt kyn en það eru margir á þeirri skoðun."

"Við erum ekki að berjast á móti dönsurunum sjálfum heldur á móti þessum iðnaði. Þessi iðnaður skapar ímynd sem fer út í samfélagið og þessu fylgja auknir kynferðislegir glæpir."

"Ég á heima við Laugaveginn rétt hjá Vegas og það er beinlínis hættulegt að vera á ferli þegar þessum stað er lokað. Karlmennirnir sem koma æstir út ráðast bara á næstu konu. Svo þetta ástand ógnar mér persónulega."

"Afstaða fjölmiðla hefur líka komið á óvart. Það er eins og öllum finnist þetta í lagi og fjölmiðlar segja frá þessum stöðum eins og þeir séu sjálfsagðir í flóru skemmtanalífsins."

"Maður á ekkert að vera að æsa sig yfir þessu því þá er bara sagt að við séum ljótar femínistakellingar."

"Já, við erum svo öfundsjúkar!"

"Eða allar lesbíur!"

"En staðreyndin er sú að þessi klámiðnaður hér er að þróast upp í venjulegt vændi."

"En þetta er lítillækkun fyrir allar konur og við verðum allar varar við það hvernig karlmenn koma fram við konur."

Bríet varð til í menntaskóla

Blm: En hvernig varð félagsskapurinn Bríet til?

"Þetta byrjaði sem hópur nokkurra stelpna úr MS fyrir um tveimur árum. Við fórum m.a. á landsfund Kvennalistans fyrir tveimur árum og eftir það varð félagið til. Síðan hefur hópurinn stækkað og þroskast. Við erum ekki bundnar sjórnmálaflokki en auðvitað styðjum við kvennapólitík. Við erum fyrst og fremst þrýstihópur."

"Síðastliðinn vetur vorum við með útvarpsþætti um femínisma. Síðan opnuðum við hópinn í vor og það eru ofsalega margar stelpur sem vilja vera með."

"Við höfum fengið mjög góðar viðtökur frá öllum gömlu Kvennalistakonunum og gömlu Rauðsokkunum."

"Þetta gengur ekki nema við stöndum saman."

"Þær sem á undan komu hafa rutt brautina en við erum ný kynslóð femínista. Feminen nouvaux? Misréttið er meira falið núna."

Blm: En hvað varð til að þið gáfuð femínisma gaum?

"Við erum auðvitað ungar, eigum ekki börn og höfum kannski ekki lent í misréttinu sem ríkir, eins og launamisréttinu en við sjáum það allt í kringum okkur og við viljum tryggja okkar framtíð og vonum að dætur okkar eigi eftir að lifa í samfélagi sem er sér betur meðvitandi um jafnrétti kynjanna."

"En auðvitað höfum við líka orðið varar við misrétti. Af hverju er ég send inn í eldhús en ekki bróðir minn? Og allt í einu gerir maður sér grein fyrir því að viðhorfin til kynjanna eru ólík og hafa kannski lítið breyst."

Sterkari kynslóð

"Misréttið er meira falið núna."

"Það er ótrúleg stöðnun ríkjandi. Fólki finnst svo mikið hafa áorkast í kvenfrelsismálum undanfarna áratugi að lítið þurfi að gera til viðbótar. En það ríkja oft fordómar til dæmis gagnvart konum með börn."

"Það er ekki í tísku að vera femínisti. Það er frekar litið á það sem skammaryrði."

"Ímyndin um huggulegu og sætu konuna er allsráðandi. Við erum ekki fórnarlömb."

"Sjálfsmynd stelpna er svo brotin."

Blm: En nú virðist manni sem ungar stúlkur í dag séu svo öruggar með sjálfar sig, öruggari en hér áður fyrr?

"Það er í tísku að vera töff. En tískan gengur hins vegar núna út á það að gera stelpur að einhverjum smábörnum með sleikjó. Það ríkir núna ofurtrú á útlitið og því fylgir megrunarsýki sem er á háu stigi hjá stelpum allt niður í 10 ára aldur."

"Við erum líklega sterkari kynslóð enda búum við við miklu betri aðstæður og tækifæri en undangengnar kynslóðir. Við vitum að það tekur langan tíma að breyta samfélaginu en við viljum ekki bíða í önnur 30 ár til þess að sjá enn frekari breytingar."

"Við viljum láta bera virðingu fyrir okkur sem konum. Við viljum koma að nýrri hugmyndafræði í stofnanir samfélagsins og opna augu fólks fyrir því að taka tillit til beggja kynja þegar ákvarðanir eru teknar."

"Maður heyrir oft að karlmönnum finnst þeir líka þurfa að standa vörð um sína hagsmuni."

"Ef karlmönnum finnst þeir eiga erfitt uppdráttar eiga þeir að stofna svona félag. Við eigum ekki að gera það fyrir þá. Þeir eiga að hætta þessu væli og gera eitthvað í málinu sjálfir."

"Við erum ekki fórnarlömb karla heldur samfélagsins."

"Við erum ekki fórnarlömb!"

Það er erfitt að ímynda sér þessar stelpur sem fórnarlömb. Þær vilja taka ráðin í sínar hendur og hafa áhrif á stöðu sína í samfélaginu. Þessi hressilegi hópur er staðfesting þess að kvenfrelsishugsjónin er langt frá því að vera dauð, ný kynslóð er komin fram á sjónarsviðið sem er tilbúin að taka geirinn í hönd.

Morgunblaðið/Árni Sæberg Þuríður Ósk Sigurjónsdóttir og Hólmfríður Anna Baldursdóttir.

Tinna Björk Árnadóttir og Þóra Þorsteinsdóttir.

Ólafía Svansdóttir.

Félagskonur í Bríeti hafa allar sitthvað til málanna að leggja.