INDÓNESÍSK stjórnvöld fullyrtu í gær að B.J. Habibie, forseti Indónesíu, hefði enn fulla stjórn á indónesíska hernum og að orðrómur um að herinn hygðist hrifsa til sín völdin væri ekki á rökum reistur. Jafnframt stæðhæfðu stjórnvöld í Jakarta að þeim myndi takast upp á eigin spýtur að stemma stigu við öldu ódæðisverka á Austur-Tímor,
Hávær orðrómur í Indónesíu um að her landsins hyggist hrifsa til sín öll völd Fullyrt að Habibie haldi enn um stjórnartaumana

Jakarta, Auckland. Reuters.

INDÓNESÍSK stjórnvöld fullyrtu í gær að B.J. Habibie, forseti Indónesíu, hefði enn fulla stjórn á indónesíska hernum og að orðrómur um að herinn hygðist hrifsa til sín völdin væri ekki á rökum reistur. Jafnframt stæðhæfðu stjórnvöld í Jakarta að þeim myndi takast upp á eigin spýtur að stemma stigu við öldu ódæðisverka á Austur-Tímor, en hundruð manna hafa fallið þar í átökum undanfarna daga og vikur.

Svo virtist sem minni líkur væru nú á að Sameinuðu þjóðirnar gripu inn í stöðuna á A-Tímor en Kofi Annan, framkvæmdastjóri SÞ, hafði á mánudag gefið Indónesíustjórn tvo sólarhringa til að binda enda á vargöldina á eyjunni eða sætta sig ella við að alþjóðasamfélagið tæki til sinna ráða.

Á fundi utanríkisráðherra Bretlands og APEC-ríkjanna, samstarfsnefndar Asíu- og Kyrrahafsríkjanna, í Ástralíu var hins vegar ekki lögð fram nein áætlun um hvernig alþjóðasamfélagið ætti að beita sér í málinu, og aðeins var ályktað að leggja þyrfti allt kapp á að koma á friði í A-Tímor.

Sendinefnd á vegum öryggisráðs SÞ kemur til A-Tímor á morgun, laugardag, í því skyni að leggja mat á stöðu mála en að sögn talsmanna SÞ dró nokkuð úr átökum í Dili, höfuðstað A-Tímor, í gær. Enn var reyndar gert ráð fyrir að SÞ flyttu meginhluta starfsliðs síns á brott frá landinu í dag, föstudag, en þó er sennilegt að lítill hópur starfsmanna SÞ dvelji áfram í A- Tímor.

Herinn sagður seilast til valda

Talskona Habibies Indónesíuforseta vísaði í gær á bug háværum orðrómi um að indónesíski herinn væri u.þ.b. að hrifsa til sín völdin í Indónesíu og sagði að þessar sögusagnir væru runnar undan rifjum andstæðinga Habibies sem vildu varpa rýrð á forsetann. Sagði talskonan að þessi orðrómur væri ógnun við viðkvæmt lýðræði landsins.

Ali Alatas, utanríkisráðherra Indónesíu, staðhæfði einnig að her og lögregla landsins styddu tilraunir stjórnvalda til að stöðva vargöldina á A-Tímor og Alatas hafnaði öllum hugmyndum, sem settar hafa verið fram, um að erlent friðargæslulið verði sent til A-Tímor, sem áður var portúgölsk nýlenda.

Alatas átti í gær fund með Habibie, Wiranto hershöfðingja, sem er yfirmaður indónesíska hersins, og fimm manna sendinefnd SÞ í Jakarta og viðurkenndi eftir fundinn að "óeirðaseggir" í röðum indónesískra öryggissveita í A-Tímor hefðu aðstoðað andstæðinga sjálfstæðis A-Tímor við ódæðisverk, sem þeir hafa framið undanfarna daga, og sem skilið hafa Dili eftir í rústum. Hann fullyrti hins vegar að það væri á færi Indónesíustjórnar að ná stjórn á ástandinu án þess að til afskipta erlendra friðargæslusveita kæmi.

Reuters Stuðningsmenn sjálfstæðis A-Tímor söfnuðust saman fyrir framan höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Lissa bon, höfuðborg Portúgals, og kröfðust þess að SÞ sendi friðargæslusveitir þegar til eyjunnar.