UM ÞESSAR mundir er verið að auglýsa lærdómsnámskeið Bókmenntafélagsins. Þau eru að sögn Gunnars Hauks Ingimundarsonar rekstrarstjóra afsprengi rita þeirra sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út síðan 1970. Hann var spurður hver hefði verið hvatinn að þessari útgáfu og námskeiðunum í framhaldi af henni. "Bókmenntafélagið er fyrst og fremst menningar- og fræðafélag.
Lærdómsnámskeið Bókmenntafélagsins Símenntun allra stétta

UM ÞESSAR mundir er verið að auglýsa lærdómsnámskeið Bókmenntafélagsins. Þau eru að sögn Gunnars Hauks Ingimundarsonar rekstrarstjóra afsprengi rita þeirra sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur gefið út síðan 1970. Hann var spurður hver hefði verið hvatinn að þessari útgáfu og námskeiðunum í framhaldi af henni.

"Bókmenntafélagið er fyrst og fremst menningar- og fræðafélag. Takmarkið er því að gefa út vandað íslenskt efni sem ristir dýpra en "dægurflugan" gerir. Frumkvöðull að útgáfu lærdómsrita Bókmenntafélagins var Þorsteinn Gylfason heimspekingur, en þess má geta að Hafsteinn Guðmundsson fyrrum prentsmiðjustjóri og bókaútgefandi, sem nú er nýlátinn, hannaði hið sérstæða útlit og brot lærdómsritanna. Í þessum bókaflokki áttu frá upphafi að vera lærdómsrit en ekki fagurbókmenntir, auðlesin upplýstum almenningi. Þar skyldu jöfnum höndum vera samtímarit og sígild verk sem hlotið hafa skýlaust lof, ennfremur tímamótarit í sögu mannlegrar hugsunar ­ þetta voru orð Þorsteins Gylfasonar í Skírni áður en fyrstu ritin birtust, þar sem hann var að lýsa efni hinna fyrirhuguðu rita í hnotskurn. Auk þess fylgir hverju riti ítarlegur formáli þar sem skýrt er efni hvers rits og sagt frá höfundi og leitast við að setja efnið í samhengi við íslenskar aðstæður hverju sinni og á hvaða hátt efnið hefur haft áhrif á íslenska menningu. Til gamans má geta þess að rit Erasmusar frá Rotterdam, Lof heimskunnar, hafði þau áhrif á Íslendinginn Þorleif Halldórsson að hann skrifaði ritið Lof lýginnar í anda rits Erasmusar árið 1703, á latínu, sem hann svo þýddi á íslensku árið 1711."

- Hvað hafið þið gefið út mörg rit?

"Í þessum flokki eru komin út 38 rit, allt frá dögum Forngrikkjans Plato til frægustu vísindamanna nútímans, svo sem Stephen W. Hawking ­ Sögu tímans. Nú á haustmánuðum munu þrjú ný lærdómsrit koma út, Samdrykkjan eftir Platon, sem fjallar um ást og fegurð, Frumspeki Aristótelesar, 1. bók, þar sem hann ræðir grunnhugmyndir að eigin heimspeki og Qed ­ eða ljósið, sem er eðlisfræðileg umfjöllun um ljósið."

- Er áhugi almennings mikill fyrir ritum félagsins?

"Þessi rit eru mikið keypt og lesendahópurinn greinilega fjölbreytilegur. Mörg þeirra eru kennd í framhaldsskólum og við háskóla en þó er alltaf stór hópur, og hann fer vaxandi, sem kaupir þessi rit að eigin frumkvæði til að auka víðsýni og þekkingu sína."

- Hafið þið haldið mörg námskeið útfrá þessum ritum?

"Til þess að gera fólki kleift að auka þekkingu sína þá hefur það lengi verið markmið Bókmenntafélagsins að halda námskeið í líkingu við þau sem nú er boðið upp á og auglýst voru fyrir skömmu. Arthúr Björgvin Bollason hélt fyrsta námskeiðið sl. vor við feiknagóðar undirtektir, en þar fjallaði hann um verk Nietzsches, Handan góðs og ills. Nú er ætlunin að fjalla um Kúgun kvenna eftir John Stuart Mills í framhaldi af útgáfu þess rits fyrir tveimur árum, leiðbeinandi á því námskeiði er Auður Styrkársdóttir, en hún bjó þýðingu Sigurðar Jónassonar til prentunar. Þá er boðið upp á námskeið um rit Platons, Samdrykkjuna. Titillinn er þó ekki lýsandi fyrir efnið, en í ritinu er fjallað um ást og fegurð. Þýðandinn og höfundur inngangs, Eyjólfur Kjalar Emilsson, verður leiðbeinandi. Þess má geta að hann hefur þýtt fleiri lærdómsrit. Svavar Hrafn Svavarsson heimspekingur mun svo leiða þriðja námskeiðið um Frumspeki Aristótelesar, hann hefur líka þýtt fleiri lærdómsrit."

- Hvenær var Hið íslenska bókmenntafélag stofnað?

"Það var stofnað 1816 og er því elsta samfellt starfandi útgáfu- og menningarfélag Íslands. Það hefur í 173 ár gefið út tímaritið Skírni, sem nú kemur út tvisvar á ári, á vori og hausti, og er sent á annað þúsund áskrifendum hérlendis og erlendis. Bókmenntafélagið telur að útgáfa lærdómsritanna sé liður í því að auka úrval fjölbreyttra, skemmtilegra og fræðandi rita við allra hæfi og lærdómsnámskeiðin séu kjörinn vettvangur til þess að eiga samfélag við lesturinn undir leiðsögn færustu leiðbeinenda."



Gunnar Haukur Ingimundarson fæddist 11. júlí 1958. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1978. Hann lauk prófi sem landfræðingur, BS, frá Háskóla Íslands 1982. Hann hefur starfað hjá Hinu íslenska bókmenntafélagi frá árinu 1986 og er þar rekstrarstjóri. Gunnar er kvæntur Önnu J. Hilmarsdóttur, BA í guðfræði frá Háskóla Íslands, og eiga þau tvö börn.



Vettvangur til leiðsagnar um lærdómsrit



Gunnar Haukur Ingimundarson