AÐ minnsta kosti 32 lík höfðu í gær fundist í rústum níu hæða fjölbýlishúss í Moskvu, sem hrundi eftir mikla sprenging í fyrrinótt. Upphaflega var talið að um gassprengingu hefði verið að ræða en grunsemdir eru um, að sprengju hafi verið komið fyrir í húsinu.
Mikið manntjón í sprengingu í Moskvu Grunur um hryðjuverk

Moskvu. AFP, AP, Reuters.

AÐ minnsta kosti 32 lík höfðu í gær fundist í rústum níu hæða fjölbýlishúss í Moskvu, sem hrundi eftir mikla sprenging í fyrrinótt. Upphaflega var talið að um gassprengingu hefði verið að ræða en grunsemdir eru um, að sprengju hafi verið komið fyrir í húsinu.

Óttast er, að um 50 manns séu grafnir í rústunum en í sprengingunni slösuðust meira en 150 manns og sumir alvarlega. Björgunarmenn sögðu í gær að ólíklegt væri að fleiri fyndust á lífi þar sem eldur logaði í rústunum og kæfandi reykur lá yfir öllu.

Það voru tveir stigagangar, sem hrundu til grunna í sprengingunni en hún olli einnig skemmdum á nálægum húsum. "Ég var að horfa á sjónvarpið og skyndilega varð gríðarleg sprenging," sagði íbúi í nálægu húsi. "Herbergin fylltust af reyk og glerið þeyttist út um allt. Við hlupum eins hratt og við gátum út á götu."

Lúzhkov segir að um hryðjuverk sé að ræða

Vladimír Pútín, forsætisráðherra Rússlands, sagði í gær að sprengingin hefði orðið af völdum gasleka, en haft var eftir öðrum embættismönnum, að hugsanlega hefði sprengju verið komið fyrir í húsinu. Telja sérfræðingar, að sprengikrafturinn hafi svarað til 220 kílóa af TNT.

Júrí Lúzhkov, borgarstjóri Moskvu, skoðaði slysstaðinn í gær og sagði, að íslamskir hryðjuverkamenn hefðu staðið fyrir ódæðinu. Í yfirlýsingu rússnesku leyniþjónustunnar sagði líka, að um einhvers konar sprengju hefði verið að ræða.

Maður, sem ekki vildi láta nafns síns getið, hafði samband við rússnesku Interfax -fréttastofuna og sagði að sprengingin í Moskvu í fyrrinótt og sprenging í herstöð í Dagestan aðfaranótt laugardags, hefðu verið gerðar í hefndarskyni vegna sóknar rússneska hersins gegn skæruliðum múslima í héraðinu. Skæruliðarnir hafa hótað hryðjuverkum í Rússlandi. Einn maður lést í sprengingu í verslunarmiðstöð í Moskvu í síðustu viku, en enginn hefur lýst því tilræði á hendur sér.

Útvarpsstöð í Moskvu sagði í gær að yfirvöld leituðu bifreiðar sem sést hafði við fjölbýlishúsið skömmu áður en sprengingin varð.

Gassprengingar eru algengar í Rússlandi vegna slæms ástands gasleiðslna. Sex manns létust í gassprengingu í fjölbýlishúsi í Moskvu í júlí á síðasta ári.

Reuters

Björgunarmenn að störfum í rústum fjölbýlishússins í gær.