GÓÐA vetraryfirhöfn er nauðsynlegt að eiga, ekki síst hér á landi. Dúnúlpur, síðar ullarkápur og skjólgóðir anórakkar eru meðal þess sem hafa yljað landsmönnum á köldum vetrardögum. Nú hefur nýr "skjólstæðingur" bæst í hópinn, sláin eða herðaskjólið. Átt er við ermalausa yfirhöfn, oft bæði síða og víða, sem smeygt er yfir höfuðið.
Herðaskjól

sem hlýja og skreyta

GÓÐA vetraryfirhöfn er nauðsynlegt að eiga, ekki síst hér á landi. Dúnúlpur, síðar ullarkápur og skjólgóðir anórakkar eru meðal þess sem hafa yljað landsmönnum á köldum vetrardögum. Nú hefur nýr "skjólstæðingur" bæst í hópinn, sláin eða herðaskjólið. Átt er við ermalausa yfirhöfn, oft bæði síða og víða, sem smeygt er yfir höfuðið. Þessi flík á rætur að rekja til S-Ameríku og kallast þá "poncho" og er oftast mjög litrík og með kögri. Látlausari útgáfur eru meira í ætt við slárnar sem vinsælar voru í byrjun sjöunda áratugarins, en marglitar og grófari slár áttu frekar upp á pallborðið á áttunda áratugnum.

Nú hefur herðaskjólið fengið uppreisn æru og er sérlega vinsælt hjá mörgum tískuhönnuðum sem ein helsta skjólflíkin. Herðaskjól má fá í mörgum gerðum, en núna eru efnin í þeim þó yfirleitt léttari en áður og þau því auðveldari í meðförum.

Endurvakning áttunda áratugarins

Sigrún Guðný Markúsdóttir, verslunar- og innkaupastjóri fyrir Sautján, segir að endurvakning tísku áttunda áratugarins hafi mikið að segja um vinsældir slárinnar nú. "Þessi "poncho" sem eru vinsæl núna eru frekar grófgerð og bæði til einlit og hekluð eða marglit og munstruð. Hægt er að nota þau við margt, til dæmis rúllukragaboli og gallabuxur, sem er þá mjög í anda áttunda áratugarins."

Slárnar eru að mörgu leyti frjálslegri fatnaður en t.d. aðsniðnir ullarjakkar, án þess þó að tapa glæsileikanum. Sem dæmi má nefna er vel hægt að nota einlitar ullarslár sem spariflíkur. Á hinn bóginn eru marglitar slár með kögri skemmtilegar og upplífgandi í skammdeginu þegar dökkir litir ráða annars ríkjum, bæði í fötum og umhverfi. Einnig er ágætis tilbreyting að klæðast slá, vegna þess hve lögun hennar er óvenjuleg.

"Þetta er mjög skemmtileg tíska og gaman að sjá þessa flík aftur eftir svona langan tíma," segir Sigrún. Enda er það svo að tískan byggist upp á nýjungum, jafnvel endurunnum nýjungum því allt virðist á endanum ganga aftur.



Morgunblaðið/Jim Smart Kristín í Sautján tekur sig vel út íklædd slá.

Morgunblaðið/Ásdís Birna María í grárri hettuslá frá Oasis.

Morgunblaðið/Þorkell Sláin sem Ingibjörg í Morgan klæðist minnir um margt á hippatímabilið.