Er alheimurinn flatur? Eru nokkrar stjörnur eldri en alheimurinn? Hvað er alheimurinn stór? Þenst hann endalaust út? Hvert er ferðinni heitið? Gunnar Hersveinn skoðaði alheiminn í skuggsjá, steig út fyrir endimörkin og kom auga á mótsögn.
Alheimur

í smásjá hugans

Er alheimurinn flatur? Eru nokkrar stjörnur eldri en alheimurinn? Hvað er alheimurinn stór? Þenst hann endalaust út? Hvert er ferðinni heitið? Gunnar Hersveinn skoðaði alheiminn í skuggsjá, steig út fyrir endimörkin og kom auga á mótsögn.

TILGANGUR lífsins er óræður. Gleði lífsins er hverful stund. Jafnvel mannkynssagan hefur óljósa stefnu og enginn getur fært sönnur á að guðlegt plan sé til.

Alheimurinn er allt sem er. Í honum er tíminn, efnið, rúmið og jafnvel neindin (ekkertið) væri ekki til án hans, ekki heldur andefnið eða hvaðeina annað uppgötvað og óuppgötvað.

Upphaf og lok heimsins eru þungamiðja trúarbragða ásamt von um betri heim. Hér er tilgátan mín um upphafið: "Í upphafi var guð einn og einmana í tóminu. En ást hans á öðru en sjálfum sér var svo mikil og þrá hans til að elska eitthvað annað var svo gífurleg, og ástin og ástarþjáningin svo gríðarlega heit að orka hans þjappaðist óendanlega þétt og krappt saman uns hún sprakk. Sprengingin er kölluð hvellurinn mikli eða miklihvellur og var upphaf tímans og alls efnis í alheiminum."

Og alheimurinn þennst út, en hver verða örlög hans? Oftast hefur heyrst að sólin muni kólna (útbrunnin eftir 5 milljarða ára), lífið á jörðinni slokkna og alheimurinn hrynja saman í dauðadepil. En er það rétt? Hvort er betra að hann hrynji saman, eða þenjist endalaust út?

Ég fer í bókabúð og festi kaup á vísindaritum handa skilningslitum almenningi, m.a. Astronomy Now, september 1999, http://www.astronomynow.com (Britains's best- selling astronomy magazine). Alheimurinn er í brennidepli í blaðinu, bls. 41-54. Einstaklingar hafa ef til vill ekki þungar áhyggjur af framtíð alheimsins m.a. vegna þess að hún er ekki á þeirra valdi. Dagurinn framundan veldur þeim yfirleitt meiri kvíða en núna er ég með alheiminn á heilanum.

Alheimurinn í brennidepli

Aldur alheimsins virðist brenna á nokkrum vísindamönnum. Þeir sögðu hann einu sinni vera um það bil 11 milljarða ára gamlan, uppgötvuðu svo stjörnur sem voru a.m.k. 12-14 milljarða gamlar og spurðu sig: "Geta einstaka stjörnur verið eldri en alheimurinn?" Svarið lét á sér standa en einhver kom með þá kenningu að alheimurinn hlyti a.m.k. að vera jafngamall elstu stjörnunum. Það hljómar e.t.v. vel, en það er erfitt að mótmæla því að þessar stjörnur mælast á Hubble-tíma eldri en alheimurinn. Ef til vill eru þær úr öðrum alheimi?

Önnur brennandi spurning er: "Hversu stór er alheimurinn?" Ef til vill sextán hundruð trilljón fermetrar, rúmmetrar, lítrar eða kílómetrar? Eða 60 til 70 km/s/Mpc H0 gildi í HST sefíti? Ég veit ekki.

En hvernig lítur hann út í fjarska? Jörðin er ekki lengur flöt en hugsanlega er alheimurinn flatur eða a.m.k. hérumbil. Sterk tilgáta hefur verið sett fram um það (bls. 49) Alheimurinn þennst út og það dregur ekki úr hraðanum.

Hvort hann muni falla saman eða ekki fer eftir forsendum sem menn gefa sér. En er alheimurin opinn eða lokaður? Fyrstu niðurstöður í glímunni við þessa spurningu benda til að hann sé opinn, þótt leitin að týnda, svarta og kalda efninu í alheiminum standi yfir enn. Hvað merkir þetta? Ef til vill að hann muni þenjast endalaust út og aldrei falla saman aftur.

Bráðabirgðaniðurstaða: Alheimurinn er að minnsta kosti 14 milljarða ára gamall, hann er flatur og þenst endalaust út. Hann er e.t.v. sextánhundruð trilljón kílómetrar á lengd.

Hvenær fæ ég að vita eitthvað meira? Ég las "astronomy" blöð fyrir áratug og þá enduðu greinarnar yfirleitt á fyrirheiti um að gátan yrði ráðin á næstu tíu árum. Grein Nial Tanvir í Astronomy Now endar með þessum orðum, bls. 49: "Næstu tíu ár gefa fyrirheit um miklar uppgötvanir og munu annaðhvort uppfylla byltinguna sem hefur orðið á skilningi okkar á alheiminum eða opna nýjar og heillandi gáttir sem varpa ljósi á hversu lítið við áður skildum."

Hið smæsta og hið stærsta

"Hvar endar þetta?" spyr Mark Kidger í annarri grein, bls. 46, og svarar: "Að lokum munu leifar síðustu rauðu dvergstjarnanna hverfa og alheimurinn okkar deyja köldum, myrkum og einmana dauða."

Dauðinn virðist vera lokaniðurstaðan, lokadómur náttúrunnar. Heimurinn verður að lokum gjaldþrota. Og bölsýnismenn fagna og segja: "Engin mannleg athöfn er ómaksins verð vegna þess að við öll og heimurinn allur ferst að lokum."

Þessi fullyrðing fellur að vísu illa að reynslu kynslóðanna:

Hið einfalda í mannlegu lífi virðist skipta einhverju máli, að minnsta kosti það að finna leiðir til að lina eigin þjáningar og annarra. Einstaklingurinn keppir að öruggri og hamingjusamri tilveru. Líf hans er hlaðið gildum, og fyrirætlanir hans hafa tilgang. Markmið hans hafa merkingu og líf hans hefur þann tilgang sem hann stefnir að, jafnvel þótt allt annað í alheiminum sé honum hulið og þótt lífið í heild sé ef til vill merkingarlaust. Lífstilgangur einstaklinga er gáta og tilgangur lífsins önnur gáta, óháð því hvort alheimurinn kunni að hrynja saman að lokum eða þenjast kannski endalaust út.

Niðurstaðan um einstaklinginn í ljósi alheimsins er: Hið smæsta skiptir mestu máli, hið stærsta minnstu máli. Hegðun og hugsun einstaklingsins hefur djúpa merkingu óháð því hvernig háttað muni um alheiminn í heild, og hver örlög hans verða.

Ef til vill er stærð merkingarlaus? Allt er smátt, hversu stórt sem það virðist? Nei, enga mótsögn. Smæðin skiptir máli!

Reuter Galaxy NGC 4603 með augum Hubble-sjónaukans. Spírallaga vetrarbraut, sú fjarlægasta þar sem borin hafa verið kennsl á sefíti, en það er heiti stjarna af einni tegund sveiflustjarna með mjög reglulega birtusveiflu.

Tilbúin mynd af stjörnu að snæða stjörnu.

Stjarna (Wolf-Rayet) sem hefur spírallögun vetrarbrautar.