John Abercrombie gítar, Mark Feldman fiðlu, Kenny Wheeler trompet og flýgilhorn, Joe Lovano tenórsaxófón, Dan Wall orgel og Adam Nussbaum trommur. Verk eftir John Abercrombie. Hljóðritað í New York í september 1998. ECM/Japis.
JOHN ABERCROMBIE: OPEN LAND

John Abercrombie gítar, Mark Feldman fiðlu, Kenny Wheeler trompet og flýgilhorn, Joe Lovano tenórsaxófón, Dan Wall orgel og Adam Nussbaum trommur. Verk eftir John Abercrombie. Hljóðritað í New York í september 1998. ECM/Japis.

John Abercrombie er einn áhrifamesti gítarleikari samtímans og má m.a. heyra það í djassgítarleik hér á klakanum. Hann hélt tónleika í Reykjavík með kvartetti sínum (Richie Beirach á píanó, George Mraz bassa og Peter Donald trommur) 1980 og nú er von á honum með allt öðruvísi kvartett á Jazzhátíð Reykjavíkur. Þessi kvartett leikur á nýju ECM-skífunni hans, en tveimur blásurum er bætt við. Kanadamanninum Kenny Wheeler og bandaríska saxistanum Joe Lovano sem er helsta stjarna hinna ítölskættuðu djasstenórista ­ af þeim gömlu má nefna Flip Phillips, Charlie Ventura og Vido Musso.

Tónlist Abercrombie er ekta ECM-tónlist, tær og ljóðræn, sveipuð dulúð en jafnframt framsækin og skapandi. Verkin eru öll eftir Abercrombie utan eitt sem þeir félagar spinna frjálst saman. Fyrsta verkið er undurfögur ballaða er Kenny Wheeler blæs af alkunnu næmi og burstaleikur Adams Nussbaum er frábær. Adam er íslenskum djassunnendum að góðu kunnur. Hann lék hér á tónleikum með John Scofield og Steve Swallow 1983 og hefur á stundum verið trommari í tríói Niels-Hennings.

Abercrombie reis til frægðar í djassinum í djassrokkbylgjunni, en eftir að hann tók að stjórna eigin hljómsveitum hvarf sá spilamáti. Tónlistin varð innhverfari og mildir tónalitir allsráðandi. 1992 hljóðritaði hann með orgeltríói fyrir ECM þar sem Dan Wall lék á hammondið og Nussbaum á trommur og tónlistin var úthverfari og rýþmískari og aftur mátti heyra bergmál af Wes Montgomery í leik Abercrombies. Þetta tríó er nú kvartett eftir að fiðlarinn Feldman bættist í hópinn og á þessum diski er tónlistin allólík því sem orgeltríóið leikur enda Kenny Wheeler eitt af táknum ECMismans.

Þrátt fyrir að ECM-ljóðið svífi yfir vötnunum er oft brugðið á leik eins og í Gimme five þar sem grúfað er léttilega og Abercrombie leitar á Tyrkjaslóðir í sóló sínum. Abercrombie hefur mjög gaman af að glíma við söngdansa og í lokalagi disksins, That's for sure, má heyra bergmál af Fly me to the moon. Organistinn Dan Well á oft kraftmikla sólóa á diskinum, sér í lagi fer hann á kostum í Little Booker.

Það verður spennandi að heyra kvartett Johns Abercrombies á Jazzhátíð Reykjavíkur og dálítið öðruvísi fiðlara en Asmussen og Ziegler í bland við gítar, hammond og trommur.

Vernharður Linnet