ÞÓRÓLFUR Árnason, forstjóri Tals hf., segir það fráleitt að gagnrýni hans á skort á afskiptum samgönguráðuneytisins í málefnum Landssímans í Morgunblaðinu í fyrradag sé hluti af auglýsingaáætlun Tals hf. til að vekja athygli á fyrirtækinu. Þessu hélt Sturla Böðvarsson samgönguráðherra m.a. fram í blaðinu í gær.
Forstjóri Tals svarar samgönguráðherra

Ekki hluti af auglýsingaáætlun

ÞÓRÓLFUR Árnason, forstjóri Tals hf., segir það fráleitt að gagnrýni hans á skort á afskiptum samgönguráðuneytisins í málefnum Landssímans í Morgunblaðinu í fyrradag sé hluti af auglýsingaáætlun Tals hf. til að vekja athygli á fyrirtækinu. Þessu hélt Sturla Böðvarsson samgönguráðherra m.a. fram í blaðinu í gær.

Þórólfur kveðst hafa svarað á kurteisan hátt og vísað í bréfaskipti Tals og samgönguráðuneytisins spurningum sem Morgunblaðið hafi haft um umrætt málefni. Fram hefði komið í bréfi frá ráðuneytinu 7. júlí að erindi Tals yrði svarað efnislega þegar niðurstaða lægi fyrir. Svar væri ekki enn komið og tveir mánuðir væru langur tími í viðskiptum. "Ég er ekki að búa neitt til í þessum efnum, ég var aðeins að vísa í umrædd bréf og vitna til þingræðu samgönguráðherra 16. júní. Því get ég ekki annað en svarað því sem Morgunblaðið beinir að mér og bendi á að ég vitnaði aðallega í orð samgönguráðherra sjálfs," sagði Þórólfur.

Forstjórinn segir það hafa legið fyrir að Samkeppnisstofnun hafi haft málið til meðferðar í 9 mánuði og ráðherra hafi strax haft uppi viðbrögð við úrskurði stofnunarinnar 9. júní. "Hins vegar upplýsti hann ekki fyrr en 7. júlí að mynda ætti starfshóp í framhaldi af bréfi okkar frá 30. júní og enn virðist engin hreyfing vera á málinu. Við verðum að þrýsta á málið því í viðskiptum er tíminn peningar," sagði Þórólfur Árnason og vildi ítreka að Morgunblaðið hefði átt frumkvæði að umfjöllun um málið í fyrradag.