LÍN hefur undanfarin ár heimilað ýmsum aðilum aðgang að upplýsingum un nöfn námsmanna erlendis og umboðsmanna þeirra, auk heimilisfanga. Elfa Dögg Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, segir talsverðan fjölda námsmanna hafa haft samband við skrifstofu SÍNE og lýst yfir óánægju sinni með þessa starfshætti lánasjóðsins.
LÍN hefur selt og látið frá sér upplýsingar um námsmenn erlendis SÍNE mun óska þess að sölu verði hætt



Lánasjóður íslenskra námsmanna hefur um nokkurra ára skeið selt eða látið af hendi án endurgjalds upplýsingar um nöfn námsmanna erlendis og nöfn og heimilisföng umboðsmanna þeirra hérlendis. SÍNE hyggst fara fram á að þessu verði hætt.

LÍN hefur undanfarin ár heimilað ýmsum aðilum aðgang að upplýsingum un nöfn námsmanna erlendis og umboðsmanna þeirra, auk heimilisfanga. Elfa Dögg Þórðardóttir, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra námsmanna erlendis, segir talsverðan fjölda námsmanna hafa haft samband við skrifstofu SÍNE og lýst yfir óánægju sinni með þessa starfshætti lánasjóðsins. Hún segir að stjórn SÍNE muni funda um málið, kanna lögmæti þessa gjörnings og væntanlega fara fram á að LÍN hætti sölu heimilisfanga umboðsmanna námsmanna erlendis.

Tölvunefnd ræðir málið

Sigrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri tölvunefndar, segir skylt að hafa starfsleyfi til að láta þær upplýsingar af hendi sem um ræðir og kveðst hún ekki minnast þess að gefið hafi verið út slíkt starfsleyfi fyrir LÍN. Hún eigi von á að tölvunefnd ræði málið og bíði átekta með hvort því verði vísað til hennar með formlegum hætti.

Steingrímur Ari Arason, framkvæmdastjóri LÍN, segir að ýmsir aðilar hafi áhuga á upplýsingum um námsmenn erlendis og hafi sjóðurinn veitt aðgang að þessum upplýsingum og í nokkrum tilvikum hafi verið farið fram á að hlutaðeigendur greiddu kostnað samfara því að taka þessar upplýsingar saman.

"Sá aðili sem hefur fengið þessar upplýsingar hjá okkur í hvað mestum mæli er SÍNE, eða upplýsingar um alla þá námsmenn sem eru í námi erlendis hverju sinni. En ýmsir aðrir hafa jafnframt óskað eftir þessum upplýsingum og fengið. Tilefnin eru margvísleg, allt frá því að menn óska eftir upplýsingum um alla námsmenn sem eru á tilteknum tíma erlendis og fá upplýsingar um námsmenn á ákveðnum stöðum, t.d. þegar fréttamenn hringja og biðja um upplýsingar um námsmenn í ákveðinni borg til að geta haft samband við þá af einhverjum ástæðum. Við höfum verið liðlegir í að veita þessar upplýsingar en auðvitað erum við meðvitaðir um að í einhverjum tilvikum gætu námsmenn upplifað þetta sem ónæði. Við teljum þó að í fleiri tilvikum standi námsmönnum á sama eða þeir hafi hreint og beint gagn af," segir Steingrímur Ari.

Tæplega 2.000 íslenskir námsmenn stunda nám erlendis um þessar mundir og eru um 1.800 þeirra lántakar hjá LÍN. Í gögnum sjóðsins kemur fram að árið 1996 fengu þrír aðilar upplýsingar af þessum lista og greiddi einn þeirra um 13 þúsund krónur fyrir en hinir tveir tæpar 10 þúsund krónur hvor. Ekki kemur fram í gögnum LÍN að aðrir aðilar hafi greitt fyrir þessar upplýsingar síðan, en að sögn Steingríms Ara má þó búast við að menn hafi fengið þær án greiðslu á þeim tíma.

"Í bréfi tölvunefndar til LÍN frá 25. október 1993 stendur að tölvunefnd vísi til fyrri bréfaskipta varðandi upplýsingagjöf LÍN og notkun heimildar þar að lútandi í 35. grein reglugerðar um sjóðinn númer 210/93. Tölvunefnd telur að á grundvelli framangreinds reglugerðarákvæðis sé sjóðnum heimilt að veita upplýsingar um nöfn og heimilisföng, námslönd, námsgreinar og skóla umsækjenda og lánþega, svo og almennar upplýsingar, t.d. um fjölda námsmanna í tilteknu námi, en hins vegar sé sjóðnum óheimilt að veita upplýsingar um kennitölur einstakra lánþega, svo og um fyrirgreiðslu við þá og fjárhagsleg atriði. Rísi vafi um einstök tilvik, svo sem um hvort veita skuli upplýsingar um önnur atriði en að ofan greinir, skal það eigi gert nema áður hafi verið aflað álits tölvunefndar. Ég vil hins vegar ekki fullyrða að þetta sex ára gamla bréf nái yfir það sem hér um ræðir," segir Steingrímur Ari.

Jákvæði haft að leiðarljósi

Hann segir að þessi mál hafi verið rædd innan stjórnar LÍN fyrir nokkrum árum, en hann hafi þó ekki haldbærar upplýsingar um hvort formlega hafi verið samþykkt innan hennar að heimila að þessi gögn yrðu látin af hendi. "Það hefur borið á góma hvað ætti að ganga langt í þessum efnum og menn hafa viljað nálgast þetta með jákvæði að leiðarljósi, þ.e. vera þeim innan handar sem hafa haft áhuga á að fá þessar upplýsingar. Það er hins vegar sjálfgefið að þessi mál verða rædd í stjórninni núna þannig að formleg samþykkt verði að minnsta kosti gerð innan hennar. Við leggjum mikið upp úr að gæta fyllsta trúnaðar gagnvart viðskiptavinum okkar og að fullt traust ríki á milli aðila."

Elfa Dögg segir ekkert samhengi á milli þess að námsmannahreyfing á borð við SÍNE hafi undir höndum lista með nöfnum skjólstæðinga sinna og þess að heimilisföng þeirra séu seld til óviðkomandi aðila, svo sem sölumanna. Námsmannahreyfingar hafi gert þjónustusamning við LÍN sem veiti þeim aðgang að lánþegum sjóðsins með beintengingu við skrár hans.

Ekki sæmandi opinberri stofnun?

"Þetta er gert meðal annars til að létta undir með starfsmönnum LÍN, enda fulltrúar námsmannahreyfingarinnar vel að sér í reglum sjóðsins. SÍNE gefur ekki út skrár úr tölvugrunni sínum og er það vegna þess að gengið var úr skugga um það hjá tölvunefnd hvort slíkt væri leyfilegt eður ei, auk þess sem reynslan sýnir að námsmenn erlendis vilja almennt ekki að heimilisföng þeirra séu gefin út og alls ekki í þeim tilgangi sem LÍN hefur gert. Það er spurning hvort þetta stenst lög og einnig spurning hvort það sæmir opinberri stofnun sem LÍN að vera að selja heimilisföng viðskiptavina sinna. Ég veit ekki til þess að aðrar lánastofnanir geri slíkt," segir Elfa Dögg.

Fyrir síðustu alþingiskosningar sendi SÍNE út kynningarefni fyrir alla stjórnmálaflokka til námsmanna erlendis, en vegna viðbragða námsmanna á þeim tíma segir Elfa Dögg ljóst að það verði ekki endurtekið.

Sigrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri tölvunefndar, segir að í ársbyrjun 1995 hafi nefndinni borist erindi sem tengist aðgangi að upplýsingum LÍN, en þá hafi tiltekinn aðili beðið um heimilisföng umboðsmanna námsmanna erlendis í því skyni að bjóða þeim ákveðna milligönguþjónustu. Nefndin hafi samþykkt þá málaleitan, með vísan til þess að upplýsingarnar væru eingöngu notaðar eins og lýst var í umsókninni, og ekki mætti taka fram annað en nöfn og heimilisföng.

Fjölmargir selja lista

"Þetta atriði hefur hvorki verið borið undir tölvunefnd né hún af öðrum ástæðum haft afskipti af því til þessa. Ef LÍN væri að nota þessar upplýsingar til að senda markpóst um eigin þjónustu er það eðlilega ekki starfsleyfisskylt, en um leið og viðkomandi er farinn að gera þetta fyrir aðra er hann kominn í starfsleyfisskylda starfsemi. Þetta er í raun í fyrsta skipti sem ábending um þetta berst til okkar. Fjölmargir aðilar selja lista með skyldum upplýsingum, t.d. ýmis félagasamtök, en réttmæti þess athæfis getur verið mismikið álitaefni. Ég held þó að flestir þeirra aðila hafi starfsleyfi frá okkur og lúti reglum um rétta framkvæmd," segir Sigrún. Hún kveðst fastlega reikna með að þetta mál verði rætt innan tölvunefndar

Hún segir að fyrr á þessu ári hafi LÍN síðan óskað eftir heimild til að fá aðgang að skrá fasteignamats ríkisins, í því skyni að staðfesta réttmæti uppgefinna upplýsinga lántakenda um íbúðareign. Nefndin samþykkti málaleitan LÍN, með því skilyrði að þegar lántakandi fyllti út umsókn sína kæmi fram á henni að upplýsingarnar sem hann gæfi upp yrðu athugaðar nánar með umræddum hætti.

Sala óheimil án starfsleyfis

Í lögum um meðferð og skráningu persónuupplýsinga segir að sala eða önnur afhending úr skrám á nöfnum og heimilisföngum tiltekinna hópa einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða félaga sé óheimil án starfsleyfis sem tölvunefnd veitir. Þá er og óheimilt án slíks starfsleyfis að annast fyrir aðra áritanir nafna og heimilisfanga, svo sem með límmiðaáritun, og eða aðra útsendingu tilkynninga til þeirra sem áður er getið. Starfsleyfishafi má aðeins hafa í skrám sínum upplýsingar um nöfn, heimilisfang, kennitölu, nafnnúmer, fyrirtækjanúmer og starf, auk upplýsinga sem almennur aðgangur er að í opinberum skrám, svo sem fyrirtækjaskrám. Dómsmálaráðherra getur, að fenginni umsögn tölvunefndar, reist með reglugerð frekari skorður við því hvað greina megi í skrám þessum.

Ef skrá er notuð til áritunar eða útsendingar bréfa, tilkynninga, dreifirita eða þess háttar er skylt að fram komi á áberandi stað á útsendu efni að því sé dreift eftir skrá í vörslu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar. Ennfremur að þeir sem kynnu að óska eftir því að losna undan slíkum sendingum framvegis geti skrifað eða hringt til þessa aðila og fengið nöfn sín afmáð af útsendingarskrá. Skrárhaldara er skylt að verða tafarlaust við beiðnum um að nöfn einstaklinga eða fyrirtækja séu máð af útsendingarskrá. Fái skrárhaldari í hendur félagaskrár eða skrár yfir fasta viðskiptamenn er honum óheimilt án samþykkis þess sem hefur gögnin að láta þau af hendi við aðra eða skýra öðrum frá upplýsingum sem í skránum eða gögnunum felast.

Endurskoðun orðin tímabær

Sigrún segir að á þeim tíu árum sem liðin eru síðan lög um skráningu og meðferð persónuupplýsinga tóku gildi hafi ýmislegt breyst hvað útsendingu markpósts varðar, t.d. í tengslum við tölvusendingar, og telji hún orðið tímabært að endurskoða lögin með tilliti til slíkra breytinga þannig að nálgun þessara mála verði með öðrum hætti í framtíðinni.

LÍN ekki með starfsleyfi frá tölvunefnd?

SÍNE hefur fengið upplýsingar frá LÍN