Kosningabaráttan á nýtt stig í Rússlandi Dóttir Jeltsíns bendluð við fíkniefnanotkun Moskvu. The Daily Telegraph. STARFSFÓLKI varnarmálastofnunar King's College í Lundúnum brá illa á þriðjudag er því barst til eyrna að ljóstrað hefði verið upp að Tatjana Djatsjenko, dóttir Borís Jeltsíns Rússlandsforseta,
Kosningabaráttan á nýtt stig í Rússlandi Dóttir Jeltsíns bendluð

við fíkniefnanotkun

Moskvu. The Daily Telegraph.

STARFSFÓLKI varnarmálastofnunar King's College í Lundúnum brá illa á þriðjudag er því barst til eyrna að ljóstrað hefði verið upp að Tatjana Djatsjenko, dóttir Borís Jeltsíns Rússlandsforseta, væri bæði kókaín- og heróínfíkill. Þessar ásakanir og fleiri af sama toga voru eignaðar varnarmálastofnuninni í rússneska vikuritinu Version sem út kom í vikunni og til að renna frekari stoðum undir málið birti ritið mynd af bók, sem gefin er út af King's College, sem ásakanirnar eiga að hafa birst í.

Bar grein Version fyrirsögnina: "Er Djatsjenkó fíkill?" og hafa þar með spillingarmál þau er barið hafa að dyrum Kremlverja að undanförnu, tekið nýja og afar óvænta stefnu. Vikuritið er ekki talið vera slúðurblað og er heimildarmaður þess sagður vera Anton Surikov, landsfrægur rússneskur fjölmiðlavitringur.

Varnarmálastofnun King's College, sem er fræðimannasetur þar sem virtir fræðimenn og stjórnmálaskýrendur starfa, hafnaði því alfarið að upplýsingar af þessu tagi væru frá henni komnar og fordæmdi Version fyrir að birta lygar. "Okkur langar helst til að taka þessu sem gríni af því að þetta er svo fjarstæðukennt," sagði Michael Clark, yfirmaður stofnunarinnar í viðtali við Daily Telegraph . Hins vegar sé málið afar alvarlegt þar sem nafn stofnunarinnar sé bendlað við rógburð.

Ritverk sem ber nafnið: "Glæpir í Rússlandi: Alþjóðlegar afleiðingar", var gefið út á vegum stofnunarinnar árið 1995 og er það eftir téðan Surikov. Hins vegar er þar hvergi minnst á Tatjönu Djatsjenkó. "Það er algerlega óþolandi að lenda mitt í hringiðu átaka milli ólíkra afla í rússneskri pólitík," sagði hinn virti prófessor Lawrence Freedman, sem gegnir stöðu heiðursyfirmanns varnarmálastofnunarinnar.

Djatsjenkó er einn nánasti ráðgjafi Jeltsíns forseta og hefur áður lent í álíka orrahríð. Hins vegar benda ásakanirnar til þess að kosningabaráttan fyrir væntanlegar þingkosningar, sem fram eiga að fara í desember nk., sé orðin afar hatrömm. Er baráttan talin vera komin á slíkt stig að óvandaðir blaðamenn og ritstjórar í Rússlandi sjái mikla gróðavon í að rita og birta greinar og efni eftir pöntunum stjórnmála- og kaupsýslumanna.