"MÉR finnst málið ekki eingöngu snúast um að vinna þessi leiki, heldur erum við hreinlega að leika upp á framtíð handknattleiksins hér á landi," segir Bjarki Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik og einn burðarása Íslands- og bikarmeistara Aftureldingar um leikina við Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Fyrri leikurinn fer fram í Kaplakrika á sunnudagskvöldið.




HANDKNATTLEIKUR Framtíð handknattleiksins í húfi "MÉR finnst málið ekki eingöngu snúast um að vinna þessi leiki, heldur erum við hreinlega að leika upp á framtíð handknattleiksins hér á landi," segir Bjarki Sigurðsson, landsliðsmaður í handknattleik og einn burðarása Íslands- og bikarmeistara Aftureldingar um leikina við Makedóníu í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik. Fyrri leikurinn fer fram í Kaplakrika á sunnudagskvöldið.

Við verðum hreinlega að ljúka þessu verkefni með sóma og komast í lokakeppnina til þess að handknattleikurinn verði áfram ein aðal íþróttagreinin hér á landi. Mikið er til af ungum og efnilegum handknattleiksmönnum hér á landi og það er skylda okkar sem eldri eru að skila liðinu í fremstu röð. Við höfum stundum verið í þeim sporum að komast ekki áfram í lokakeppni, vantað herslumuninn upp á. Nú erum við í þeirri stöðu að það þýðir ekki lengur að tala um að við getum gert hlutina, heldur verðum við að gera. Athafnir verða að koma í stað orða," segir Bjarki.

Bjarki segir að fyrst sé það leikurinn hér heima á sunnudagskvöldið sem verði að einbeita sér að að vinna með góðum mun. "Getan er fyrir hendi hjá okkur. Við vitum hvað við getum en því miður er vitneskjan um andstæðinginn ekki eins mikil. Alla þessa viku höfum við æft einu sinni á dag, í hádeginu, og leikið æfingaleiki á kvöldin og því tel ég að við séum á góðri leið með að stilla saman strengi okkar fyrir fyrri leikinn. Helgin fer síðan í að fara yfir andstæðinginn."

Fyrri leikurinn er algjört lykilatriði að mati Bjarka. Hann verði að vinna með góðum mun til þess að liðið hafi eitthvert veganesti fyrir síðari leikinn. "Ýmislegt hefur verið rætt og ritað um aðstæðurnar í Makedóníu og flest af því er nokkuð frábrugðið þeirri reynslu sem ég bý yfir frá því ég lék með Aftureldingu við félagslið frá Makedóníu ytra fyrir nokkrum árum. Þá var vel tekið á móti okkur og allur viðurgjörningur hinn besti. Reyndar vorum við ekki í Skopje, en skammt þar frá. En hvað sem því líður verðum við að vera tilbúnir í allt."

Bjarki segir að leikmenn eigi að vera komnir í góða æfingu og reiðubúnir í átökin. Margir leikmanna íslenska liðsins leiki í Þýskalandi og þar er keppnistímabilið hafið, þannig að þeir leikmenn eiga að vera í góðri leikæfingu. Þeir leikmenn sem leika með íslenskum liðum eiga einnig að vera að nálgast sitt besta. Menn hafi æft vel og mikið leikið af æfingaleikjum. "Ég óttast ekki að leikmenn séu ekki í leikæfingu, aðalmálið er að stilla saman strengina og að menn leggi sig alla fram í verkefnið sem framundan er. Gerist það ekki geti illa farið og niðurstaðan orðið vonbrigði.

"Ég hef trú á að við getum lokið þessu verkefni með sóma, ekkert bendir til annars, en því miður er aldrei hægt að fullyrða neitt fyrirfram og þá er máske best að segja sem minnst."

Morgunblaðið/Kristinn Nafnarnir Róbert Julian Duranona og Róbert Sighvatsson voru mættir á æfingu í gær. Eftir Ívar Benediktsson