ANDARNEFJAN sem verið hefur á Pollinum við Akureyri síðustu vikur er enn að sýna sig bæjarbúum sem leið eiga um Drottningarbraut. Það vekur nokkra athygli að þessi hvalategund skuli vera á svo grunnu vatni, þar sem þetta er djúpsjávartegund og lifir utan við landgrunnskantinn.
Andarnefjan enn að sýna sig á Pollinum Djúpsjávartegund sem komin er heldur grunnt

ANDARNEFJAN sem verið hefur á Pollinum við Akureyri síðustu vikur er enn að sýna sig bæjarbúum sem leið eiga um Drottningarbraut. Það vekur nokkra athygli að þessi hvalategund skuli vera á svo grunnu vatni, þar sem þetta er djúpsjávartegund og lifir utan við landgrunnskantinn.

Gísli Víkingsson, hvalasérfræðingur Hafrannsóknastofnunar, sagði að nánast árlega fyndist andarnefja rekin við strendur landsins. Hann sagði þetta tannlausar skepnur sem aðallega lifðu á smokkfiski en að varla væri smokkfisk að finna á Pollinum. "Ég veit því ekki hvað hún er að þvælast þarna en það er stundum með andarnefjur að þegar þær koma svona grunnt geta þær lent í vandræðum með að komast á dýpi aftur og því endað uppi í fjöru."

Gísli sagði að fyrir nokkrum árum hafi verið andarnefja inni í höfninni á Akranesi og hún hafi rennt sér nokkrum sinnum upp í slippinn þar. "Björgunarsveitarmenn drógu hana jafn harðan út og daginn eftir var hún komin til Reykjavíkur, þar sem hún renndi sér einnig upp í slippinn. Þar fór á sömu leið og björgunarmenn drógu hana á flot og um kvöldið hvarf hún. Um mánuði seinna flaut hún svo upp í miðri höfninni."

Kafar lengst allra hvala

Gísli sagði að andarnefjan væri mikil djúpsjávartegund og kafaði lengst allra hvala ásamt búrhvalnum. Hún geti kafað á yfir 1 km dýpi og verið yfir klukkustund í kafi í einu. Það er því nokkuð óvanalegt að hún skuli vera á svo grunnu vatni. Hann sagði að stofn andarnefja væri nokkuð vel á sig kominn og að um 40.000 dýr væru í hafinu kringum landið. Íslendingar hafa ekki veitt andarnefju en Norðmenn gerðu það í einhverjum mæli fyrir áratugum síðan.

Morgunblaðið/Kristján