NOKKUÐ hefur borið á kvefpestum nú í haust og er kvefið að mati Ólafs Stefánssonar læknis á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti fyrr á ferðinni en oft áður. Undanfarnar tvær til þrjár vikur hefur borið töluvert á kvefpestum. Hósti, jafnvel langvarandi þurr hósti og hálssærindi hafa oft fylgt í kjölfarið og segir Ólafur nokkuð hafa borið á þessu frá miðjum ágústmánuði.

Kvefpestir komnar á kreik

NOKKUÐ hefur borið á kvefpestum nú í haust og er kvefið að mati Ólafs Stefánssonar læknis á heilsugæslustöðinni í Efra-Breiðholti fyrr á ferðinni en oft áður.

Undanfarnar tvær til þrjár vikur hefur borið töluvert á kvefpestum. Hósti, jafnvel langvarandi þurr hósti og hálssærindi hafa oft fylgt í kjölfarið og segir Ólafur nokkuð hafa borið á þessu frá miðjum ágústmánuði. Ástandið minni því jafnvel meira á það sem búast má við yfir vetrartímann og sé veðráttunni e.t.v. að nokkru leyti um að kenna.

Atli Arnarson yfirlæknir á heilsgæslustöðinni í Grafarvogi hefur einnig orðið var við kvefvírusinn. Hann segir að þó flestir finni bara fyrir kvefeinkennum þá hafi sumir fengið berkjubólgu og jafnvel lungnabólgu í kjölfarið. Fólk sé þá mislengi að jafna sig af kvefvírusinum, en líkt og áður sé meiri hætta á að þeim slái niður sem ekki gæta að heilsunni. "Ef fólk veikist á það að taka mark á því þegar hitamælirinn sýnir hita," segir Atli.

Heilsugæslan í Grafarvogi þjónustar mikið af ungu fólki og verður starfsfólkið þar því fljótt vart við þegar kvefpestir gera vart við sig. Skólar eru auk þess hafnir á nýjan leik og því dreifist kvefið nú hraðar meðal yngri kynslóðarinnar.

Innflúensutíminn er þó ekki hafinn, en bólusetningar fyrir áhættuhópa hefjast í október.