JÚLÍUS Jónasson, skytta og varnarjaxl íslenska landsliðsins í handknattleik, hafði ákveðið að hætta að leika með liðinu síðastliðið vor, en svaraði kalli Þorbjörns Jenssonar landsliðsþjálfara fyrir leikina gegn Makedóníu er sá síðarnefndi leitaði logandi ljósi að sterkum varnarmönnum.
Júlíus Jónasson leikur landsleik fyrir hönd Íslands í hinsta sinn

Skylda okkar að vinna JÚLÍUS Jónasson, skytta og varnarjaxl íslenska landsliðsins í handknattleik, hafði ákveðið að hætta að leika með liðinu síðastliðið vor, en svaraði kalli Þorbjörns Jenssonar landsliðsþjálfara fyrir leikina gegn Makedóníu er sá síðarnefndi leitaði logandi ljósi að sterkum varnarmönnum. Júlíus segist þess fullviss að leikirnir gegn Makedónum verði þeir síðustu, þar sem hann klæðist landsliðsbúningi Íslands. "Já, á því leikur enginn vafi. Ég átti raunar að vera búinn að hætta síðastliðið vor, en eitthvað hefur teygst úr því. Ég hafði í raun gefið svar um að ég yrði ekki aftur með. En vegna þess hve illa stendur á hjá mönnum, varðandi meiðsli, fannst mér vert að aðstoða þá í þessu verkefni ­ bara þessu verkefni," segir Júlíus.

Ég hef tileinkað mér annað "lífsform". Ég er fluttur heim og byrjaður að sinna vinnu ­ handknattleikur er ekki lengur atvinna mín," segir Júlíus. "Ef ég væri enn erlendis að leika, hefði ég áreiðanlega haldið áfram. Þetta var engin skyndiákvörðun og ég var búinn að greina Þorbirni frá því að ég væri hættur, að ég myndi söðla um er ég kæmi heim. Auk þess held ég að ég hafi verið í liðinu frá 1984. Það er langur tími og þýðir að ég er orðinn mjög gamall. En fólk hefur einnig spurt mig hvað ég geri ef vel gengur, ef við komumst áfram til Króatíu. En það er alltaf hægt að segja þetta; ef, ef og ef. Það er bara ekkert um það að ræða. Eftir það eru Ólympíuleikar í Sydney. Ég held að þetta sé rétti tíminn til að hætta. Þetta tímabil hefur verið mjög skemmtilegt og gefið mér mikið."

Viltu ekki kveðja landsliðið á jákvæðum nótum?

"Jú, að sjálfsögðu. Ég set mér sama markmið og fyrir leikina gegn Sviss í vor, að komast áfram. Ég set mér það aftur. Þótt útlitið hafi ekki verið gott eftir fyrri leikinn í Sviss, gekk það þó upp. Það er ljóst að þetta verður mjög erfitt. Allir leikir eru erfiðir, en við verðum allir að leggja okkur hundrað og tíu prósent fram til að ná settu marki ­ verðum að spila báða leikina sérstaklega vel. Kaplakriki hefur oft reynst okkur vel. Hann er góður heimavöllur og þar myndast góð stemmning."

Hvernig meturðu mikilvægi þessara leikja?

"Ég tel mjög mikilvægt að komast áfram. Við urðum að fara krókaleið og erum enn á þeirri leið. Þetta er þeim, sem taka við liðinu eftir að við þessir eldri höfum hætt, mjög mikilvægt. Margir okkar hafa hætt að undanförnu og það eru bara Valdimar [Grímsson] og Guðmundur [Hrafnkelsson], sem eru eftir. Það er skylda okkar að vinna og skylda okkar að skila búinu vel af okkur. Það er mun skemmtilegra fyrir þá sem taka við að eiga verðug verkefni fyrir höndum," segir Júlíus Jónasson.

Eftir Edwin Rögnvaldsson