AFAR fátítt er að rafbyssur séu gerðar upptækar hér á landi. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að í nýjum vopnalögum, sem tóku gildi á síðasta ári, sé sérstaklega kveðið á um þessa tegund vopna. Þar er að finna bann við að nota þau, flytja þau inn eða framleiða.

Fátítt að rafvopn

séu gerð upptæk

Algert bann við notkun slíkra vopna

AFAR fátítt er að rafbyssur séu gerðar upptækar hér á landi. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir að í nýjum vopnalögum, sem tóku gildi á síðasta ári, sé sérstaklega kveðið á um þessa tegund vopna. Þar er að finna bann við að nota þau, flytja þau inn eða framleiða.

Fyrir um tveimur árum var rafbyssa tekin af manni og í kjölfarið lét lögreglan gera úttekt á áhrifum og afleiðingum af notkun slíkra vopna. Úttektin var fylgiskjal við samningu vopnalaganna. Niðurstaðan var sú að notkun rafbyssna gæti haft skaðvænlegar afleiðingar, sem er ástæða þess að sérstaklega er fjallað um þær í vopnalögunum.

Geta verið lífshættuleg

Ómar Smári segir að notkun rafvopna geti verið lífshættuleg þolendum séu þeir t.d. veilir fyrir hjarta.

Rafvopn eru ætluð til þess að brjóta niður mótstöðuafl andstæðings og hafa verið notuð sem varnarvopn í Bandaríkjunum. Einkum hafa þar konur notað rafvopn sér til verndar. Ómar Smári segir að rafvopn hafi einnig verið notuð í öðrum tilgangi og eru þau til í mörgum gerðum. Kópavogslögreglan fékk til að mynda fyrir um 15 árum svokallaðar stuðkylfur til að brjóta niður mótstöðuafl manna við handtökur við erfiðar aðstæður. Umræða spannst um kylfurnar og voru þær teknar úr umferð skömmu síðar.

Viðurlög við notkun rafvopna eru sektir eða fangelsi allt að fjórum árum nema þyngri refsing liggi við eftir öðrum lögum.

Algeng gerð rafbyssu sem vart hefur orðið hér.