GUFUNESBÆRINN hefur nú fengið nýtt hlutverk. Þar hefur nú í tæpt ár verið rekin félags- og tómstundamiðstöð fyrir íbúa Grafarvogs og sinnir starfsfólkið þar margháttaðri starfsemi. Miðstöðin heldur utan um starf félagsmiðstöðvanna í öllum skólum Grafarvogs, en jafnframt er unnið að því að koma til móts við ungt fólk sem komið er af grunnskólaaldri.
Gamli bærinn í Gufunesi orðinn félags- og tómstundamiðstöð Grafarvogs

Vettvangur starfsins er frítími Grafarvogsbúa

Grafarvogur

GUFUNESBÆRINN hefur nú fengið nýtt hlutverk. Þar hefur nú í tæpt ár verið rekin félags- og tómstundamiðstöð fyrir íbúa Grafarvogs og sinnir starfsfólkið þar margháttaðri starfsemi. Miðstöðin heldur utan um starf félagsmiðstöðvanna í öllum skólum Grafarvogs, en jafnframt er unnið að því að koma til móts við ungt fólk sem komið er af grunnskólaaldri. Þá er einnig unnið að því að fylla upp í frítíma fullorðinna og má segja að vettvangur starfsemi Gufunesbæjar sé frítími allra Grafarvogsbúa.

Ragnhildur Helgadóttir er einn af verkefnisstjórum Gufunesbæjar. Hún segir að hugmyndin á bak við miðstöðina hafi kviknað síðasta sumar og mikið til vegna óska frá fólkinu í hverfinu. Þá höfðu tvær félagsmiðstöðvar verið til staðar í Grafarvogi, Fjörgyn og Sigyn, en þar sem hverfið stækkaði hratt urðu ákveðnir hlutar þess útundan í félagsstarfinu. Má sem dæmi nefna að nemendur í Engjaskóla í Engjahverfi þurftu að sækja í félagsmiðstöð í Rimaskóla og eins þurftu nemendur Hamraskóla að fara í Fjörgyn.

Náum til fleiri barna og unglinga

Upp úr þessu spratt sú hugmynd að setja á stofn félagsmiðstöð í hverjum skóla og að Gufunesbær yrði stjórnmiðstöð og samstarfsvettvangur þeirra allra. Við Fjörgyn og Sigyn bættust þá félagsmiðstöðvar í Húsaskóla, Hamraskóla og Engjaskóla og eru því orðnar 5 í dag.

Ragnhildur segir að þetta hafi farið hljóðlega af stað í fyrstu. Þeir sem héldu utan um verkefnið fluttu inn í gamla Gufunesbæinn í fyrra haust og árið hefur farið í að koma þessu öllu af stað. Í fyrra var gerð tilraun með að stofna félagsmiðstöð í Engjaskóla, sem gekk mjög vel og með því móti náðist til mun breiðari hóps barna og unglinga.

Hlöðunni breytt í leikhús

Óhætt er að segja að ramminn utan um starfsemina sé óvenjulegur. Gamli bærinn í Gufunesi hefur nú fengið nýtt hlutverk og er nú unnið að því að innrétta allt húsið svo það standi undir nafni sem félags- og tómstundamiðstöð Grafarvogs. Búið er að koma fyrir notalegum skrifstofum og fundarherbergjum, ásamt rúmgóðu eldhúsi, á tveimur efri hæðum hússins.

Í kjallaranum er enn verið að innrétta og þar er gert ráð fyrir að setja upp vinnuherbergi fyrir tómstundastarf, eins og ljósmyndun og fleira. Ragnhildur segir það hamla starfinu nokkuð að geta ekki verið með meira tómstundastarf á bænum sjálfum, en það standi þó til bóta. Skammt frá eru útihús og hlaða sem ráðgert er að útbúa sem aðstöðu fyrir hverskyns klúbba- og félagsstarf. Hlaðan verður þá nokkurskonar fjölnota salur fyrir hópastarf, eins og t.d. fyrir leiklistarklúbb sem ráðgert er að stofna í vetur.

Margþætt starfsemi Gufunesbæjar

Starfsemi Gufunesbæjar skiptist upp í þrjú meginsvið sem hvert og eitt tekur á ákveðnu aldursskeiði. Barna- og unglingasveit Gufunesbæjar hefur umsjón með félagsmiðstöðvunum fimm og skipuleggur fjölbreytta dagskrá, s.s. óvissu- og skíðaferðir, ýmiskonar fræðslu og kynningar, stelpu- og strákakvöld, listavikur og dansleiki. Starfsemin byggir á svokölluðu unglingalýðræði þar sem unglingar eru virkjaðir til að skipuleggja, framkvæma og bera ábyrgð á félagsstarfinu.

Ungmennasveit Gufunesbæjar býður ungu fólki á aldrinum 16-20 ára aðstöðu við að hrinda í framkvæmd eigin hugmyndum. Ragnhildur segir að með þessu móti sé reynt að koma til móts við unglinga eftir að grunnskóla lýkur, þar sem oft á tíðum vanti eitthvað fyrir þann aldurshóp.

Þá er ótalin frístundasveitin sem sinnir margvíslegri starfsemi sem snertir frítíma íbúa Grafarvogs. Á borði sveitarinnar er útgáfa og kynning, skipulagning hátíða og menningarviðburða í samvinnu við stofnanir og félagasamtök í hverfinu, ásamt umsjón með útlánum og útleigu á húsnæði og tækjum miðstöðvarinnar. Einnig má nefna umsjón með svokölluðum mömmumorgnun í Fjörgyn og Trimmhópi Grafarvogs.

Tekist á við félagsleg vandamál

Gufunesbær er ekki aðeins í góðum tengslum við félagsmiðstöðvar skólanna, heldur er gott samstarf við foreldrafélög, skólayfirvöld, hverfalögregluna og Miðgarð. Ragnhildur segir að starfsfólk Gufunesbæjar hjálpi þessum aðilum við að takast á við félagsleg vandamál barna og unglinga í hverfinu. Þau reyna að taka þá sem eru félagslega einangraðir inn í starf félagsmiðstöðvanna og einnig þá sem eru á gráum svæðum í tilverunni og jafnvel komnir í fíkniefni. Þessum einstaklingum er blandað inn í hópa og reynt er að virkja þá á réttan hátt. Þá stendur Gufunesbær fyrir svokölluðu leitarstarfi og útirölti þar sem markmiðið er að fylgjast með útivistartíma unglinga í hverfinu og óæskilegri hópamyndun.

Eitt af mikilvægustu markmiðum Gufunesbæjar er að stuðla að sameiningu íbúa í hverfinu og taka þátt í samstarfi og samskiptum við ýmsa aðila innan og utan Grafarvogs. "Mér finnst þetta ganga vel, þó auðvitað séu ákveðnir hnökrar til staðar svona í byrjun, og ég geri mér góðar vonir um að þetta sé komið til að vera" segir Ragnhildur. Fjölmenni sótti bæinn heim þegar Grafarvogsdagurinn var haldinn hátíðlegur fyrir skömmu og segir Ragnhildur að fólki hafi þótt vinalegt að koma í heimsókn og hafi verið afar jákvætt í garð Gufunesbæjar.

Ragnhildur Helgadóttir verkefnisstjóri Gufunesbæjar. Í baksýn er gamla íbúðarhúsið og fjær sér í útihúsin og hlöðuna sem ætlunin er að taka undir tómstundastarf í framtíðinni.

Morgunblaðið/Kristinn

Starfsfólk Gufunesbæjar er ánægt með húsakynnin og horfir bjartsýnt til framtíðarinnar.