EINN af leiðtogum vopnaðra sveita, sem framið hafa grimmileg ódæðisverk á Austur-Tímor undanfarna daga, sagði í gær, að sveitirnar hefðu ákveðið að boða til vopnahlés. Talsmaður Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, tilkynnti í gær, að öllum formlegum samskiptum við Indónesíuher hefði verið slitið.
Andstæðingar sjálfstæðs A-Tímors lýsa yfir vopnahléi Enn fréttir af blóðugum ódæðisverkum

Bandaríkjamenn hætta samskiptum við Indónesíuher

Lissabon, Jakarta, Freiburg. Reuters, AFP.

EINN af leiðtogum vopnaðra sveita, sem framið hafa grimmileg ódæðisverk á Austur-Tímor undanfarna daga, sagði í gær, að sveitirnar hefðu ákveðið að boða til vopnahlés. Talsmaður Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytisins, tilkynnti í gær, að öllum formlegum samskiptum við Indónesíuher hefði verið slitið.

Herminio da Silva Costa, leiðtogi vopnaðra sveita, sem andvígar eru sjálfstæði A-Tímor, sagði, að sveitirnar hefðu lýst yfir vopnahléi og öllum aðgerðum hefði verið hætt. Sveitirnar hafa staðið fyrir sannkallaðri ógnaröld undanfarna daga eftir að ljóst varð að mikill meirihluti íbúa A-Tímor hafði lýst sig fylgjandi sjálfstæði landsins.

Craig Quigley aðmíráll og talsmaður Pentagons sagði á blaðamannafundi í gær, að í ljósi þess hvernig frammistaða Indónesíuhers á A-Tímor hefði verið, væri ekki viðeigandi að hafa einhver samskipti við hann. Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna, ræddi A-Tímor á fréttamannafundi í gær en boðaði engar sérstakar aðgerðir fyrir utan þær, sem Quigley greindi frá. Sagði hann, að efnahagslegar refsiaðgerðir væru ekki á döfinni en með framferði sínu væri Indónesíustjórn að gera að engu vonir um efnahagslega endurreisn í landinu.

Dagblað í Páfagarði greindi frá því í gær, að morðsveitirnar hefðu drepið um eitt hundrað manns í kirkju í bænum Suai fyrr í vikunni. Talsmenn kaþólsku hjálparsamtakanna Caritas sögðu ennfremur í gær að flestir hinna fjörutíu A- Tímorbúa, sem starfað hefðu fyrir þau í landinu, hefðu verið myrtir. Loks bárust fréttir um það í gær, að faðir Xananas Gusmaos, leiðtoga sjálfstæðishreyfingar A-Tímor, hefði verið myrtur á þriðjudag. Var Gusmao sagt frá dauða föður síns í gær en fastlega er gert ráð fyrir að Gusmao, sem Indónesíustjórn sleppti nýlega úr fangelsi, verði fyrsti forseti sjálfstæðs A-Tímors.

Orðrómur um valdarán

Sögusagnir voru á kreiki um það í Jakarta, höfuðborg Indónesíu, í gær að her landsins hygðist hrifsa til sín öll völd en liðsmenn hans eru sagðir ósáttir við að A-Tímor fái sjálfstæði. Talsmenn B.J. Habibies, forseta Indónesíu, fullyrtu hins vegar að hann héldi enn um stjórnartaumana.

Gert er ráð fyrir að SÞ flytji meginhluta starfsliðs síns frá landinu í dag en á morgun kemur þangað sérleg sendinefnd öryggisráðs SÞ sem meta mun ástandið á eyjunni.



Fullyrt að/??