ÍSLENSKAR sjávarafurðir ákváðu í gær að kaupa þriðju og fjórðu hæð í húseign við Fjarðargötu 13 til 15 í Hafnarfirði af Sjólastöðinni hf. og Sjólaskipum hf. Eignin er tilbúin undir tréverk og kaupverð hennar, að viðbættum kostnaði við innréttingar og kostnaði við flutninga,

ÍS flytur í

Hafnarfjörð ÍSLENSKAR sjávarafurðir ákváðu í gær að kaupa þriðju og fjórðu hæð í húseign við Fjarðargötu 13 til 15 í Hafnarfirði af Sjólastöðinni hf. og Sjólaskipum hf. Eignin er tilbúin undir tréverk og kaupverð hennar, að viðbættum kostnaði við innréttingar og kostnaði við flutninga, er áætlað samtals um 120 milljónir króna en fyrir skömmu seldi ÍS skrifstofubyggingu félagsins við Sigtún í Reykjavík fyrir 375 milljónir og á að afhenda hana 1. mars á næsta ári. Sölusamband íslenskra fiskframleiðenda hf. er í sömu byggingu í Hafnarfirði og verða því tvö fisksölufyrirtæki á staðnum eftir hálft ár.

Húsnæði ÍS við Sigtún er um 2.500 fermetrar og er það meira en helmingi of stórt fyrir starfsemina en um 40 starfsmenn eru hjá fyrirtækinu. Salan á fasteigninni við Sigtún var liður í að minnka fjárbindingu félagsins í öðru en því sem tengist beinu markaðsstarfi en fyrr í sumar var húsnæði Vöruhúss ÍS við Holtabakka og húsnæði Þróunarseturs ÍS á Kirkjusandi selt auk þess sem umbúðalager var seldur. Söluverð þess var um 360 milljónir. Ársveltan hjá ÍS er um 30 milljarðar.

Húsnæðið í Hafnarfirði er 850 fermetrar með sameign. "Þar sem við höfðum selt hér og verðum að flytja út fyrir 1. mars höfum við verið að kanna möguleika á kaupum á nýju húsnæði á höfuðborgarsvæðinu og þetta var sá kostur sem við töldum áhugaverðastan með það í huga að allt væri tilbúið á settum tíma," segir Finnbogi Jónsson, forstjóri ÍS, um kaupin.

Fyrir nokkrum árum flutti Síf úr Reykjavík í Hafnarfjörð og nú fetar ÍS í fótsporið en Finnbogi segir það tilviljun. "Það er eftirsjá að fara úr Reykjavík og við hefðum helst kosið að vera hér áfram en í sjálfu sér er þetta orðið eitt atvinnusvæði. Hins vegar fundum við ekki hentugt húsnæði í Reykjavík sem gat verið tilbúið fyrir 1. mars en fengum skemmtilegan stað við höfnina í Hafnarfirði í staðinn."