TÖLUVERT magn af olíu slapp í fyrrinótt úr olíuvarnargirðingunni sem ætlað er að taka við olíuleka úr flutningaskipinu El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Dreifðist olían um nokkura kílómetra svæði í firðinum en erfitt var að fylgjast nákvæmlega með olíuflekknum þar sem samgöngur trufluðust vegna aurskriðna á um 150 metra vegkafla undir fjallinu Bjólfi sem er norðan fjarðarins.

Olía úr El Grillo dreifðist í miklu hvassvirði

TÖLUVERT magn af olíu slapp í fyrrinótt úr olíuvarnargirðingunni sem ætlað er að taka við olíuleka úr flutningaskipinu El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Dreifðist olían um nokkura kílómetra svæði í firðinum en erfitt var að fylgjast nákvæmlega með olíuflekknum þar sem samgöngur trufluðust vegna aurskriðna á um 150 metra vegkafla undir fjallinu Bjólfi sem er norðan fjarðarins. Þar eystra var mikið hvassviðri í fyrrinótt og gífurlegt úrfelli en olíuvarnargirðingin lagðist saman í hvassviðrinu. Hún er þó ekki löskuð, en lögun hennar breytist vanalega þegar sjávarstraumar og vindur leika hana hart, að sögn Óskars Friðrikssonar hafnarvarðar.

Seinnpartinn í gær var fjörðurinn byrjaður að hreinsa sig og fór þá að sjást í bláma sævarins um miðbik fjarðarins en annarsstaðar var sjórinn brúnn á að líta.

Í gær var unnið að því að laga girðinguna eftir því sem aðstæður leyfðu en að sögn Óskars er það ekki gerandi svo vel fari nema í logni. Ekki varð vart við dauða fugla vegna olíunnar svo nokkru næmi, að sögn Óskars.

Veður hafði lægt seinni partinn í gær og var bjart yfir en í veðurhamnum í fyrrakvöld brotnaði rafmagnsstaur í Bjólfi án þess þó að línan slitnaði eða rafmagn færi af. Vegurinn í Bjólfi var lokaður umferð frá því seint í fyrrakvöld fram til hádegis í gær vegna aurskriðna en skemmdir urðu þó ekki á honum.