HLUTAFÉLAGIÐ Íslenska vindorkufélagið var stofnað á fundi, sem haldinn var á Hvolsvelli síðdegis í gær. Að fyrirtækinu standa Bæjarveitur Vestmannaeyja og Selfossveitur og er stofnfé ein milljón króna.

Íslenska

vindorkufélagið

stofnað

HLUTAFÉLAGIÐ Íslenska vindorkufélagið var stofnað á fundi, sem haldinn var á Hvolsvelli síðdegis í gær. Að fyrirtækinu standa Bæjarveitur Vestmannaeyja og Selfossveitur og er stofnfé ein milljón króna.

"Fyrirtækið er stofnað meira formsins vegna til að annast áframhaldandi rannsóknir á möguleikum á nýtingu vindorku hér á landi," sagði Friðrik Friðriksson, veitustjóri Bæjarveitna Vestmannaeyja, eftir að stofnfundur hins nýja félags hafði verið haldinn í gær.

Tveir menn eru í stjórn félagsins, Friðrik og Ásbjörn Blöndal, veitustjóri Selfossveitna. Varamenn eru tveir, Guðjón Hjörleifsson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, og Þorvaldur Guðmundsson, stjórnarformaður Selfossveitna.

Friðrik sagði að á fundinum hefðu verið sveitarstjórnarmenn úr Vestmannaeyjum og af Selfossi ásamt sveitarstjórnarmönnum annars staðar af Suðurlandi, sem vildu fylgjast með málinu þar sem allt benti til þess að suðurströnd landsins hentaði vel til virkjunar vindorku.

Orkuveiturnar tvær hafa sótt um styrki til Orkusjóðs iðnaðarráðuneytisins til að gera nokkurs konar vindatlas yfir Ísland, og til Evrópusambandsins til að reisa vindorkustöðvar, sem ráðgert er að verði í Eyjum og miðja vegu milli Eyrarbakka og Stokkseyrar, fimm vindmyllur á hvorum stað.



Vatnsorka og vindorka/34-35