Líkt og um önnur feimnismál eru það fræðsla og fordómaleysi, segir Þorgerður Sigurðardóttir, sem þarf til að opna umræðuna um þvagleka.
Áreynsluþvagleki kvenna Fræðsla Líkt og um önnur feimnismál eru það fræðsla og fordómaleysi, segir Þorgerður Sigurðardóttir , sem þarf til að opna umræðuna um þvagleka. HEFUR þú einhvern tíma fundið fyrir því að þvag dropar eða streymir frá þér við aðstæður þar sem þú kærir þig ekki um að slíkt gerist? Sem sagt, alls staðar annars staðar en á salerni? Ertu farin að láta hræðslu um þvagleka hindra þig í að gera eitthvað sem þér þykir skemmtilegt? Ertu hætt að dansa? Þykir þér óþægilegt í góðra vina hópi að hlæja af því að þvagið streymir frá þér? Gerist það sama ef þú hóstar eða hnerrar? Ertu hætt að fara í leikfimi af því að þú óttast að missa þvag? Ertu hrædd um að það sé alltaf lykt af þér? Þarftu að skipta um bindi oft á dag? Ferðu á salerni í tíma og ótíma til að fyrirbyggja vandræði, hafa blöðruna eins tóma og hægt er? Ef eitthvað af þessu á við um þig, kona góð, ert þú hluti af stórum hópi kvenna sem eiga við áreynsluþvagleka að stríða. Feimnismál fram á okkar tíma Þvagleki og þar með talinn áreynsluþvagleki hefur fylgt mannkyni frá örófi alda og án efa hefur stærsti hópurinn alltaf verið konur á barneignaraldri. Langt fram á þessa öld hefur hann þótt "eðlilegur" fylgifiskur barneigna og ekki sæmandi að tala um hann. Sennilega hafa mæður ekki alltaf miðlað þeim upplýsingum til dætra sinna að þvagleki kæmi stundum í kjölfar barneigna. Nokkuð víst er að enn í dag þykir mörgum konum óþægilegt að leita til læknis með slík vandamál og telja eflaust einhverjar að lausn sé ekki til. En sem betur fer eru slíkar skoðanir á undanhaldi. Líkt og um önnur feimnismál eru það fræðsla og fordómaleysi sem þarf til að opna umræðuna um þvagleka. Hvað er áreynsluþvagleki? Þvagleki er flókið fyrirbæri og er flokkaður í nokkrar tegundir þar sem orsakir eru af ýmsum toga. Bæði karlar og konur þjást af þvagleka og getur hann komið á öllum aldri. Áreynsluþvagleki er algengastur meðal kvenna og er skilgreindur sem "óviljandi þvagleki sem verður án samdráttar í blöðru og þegar þrýstingur í blöðru verður meiri en í þvagrás". Það þýðir að lokuþrýstingur í þvagrás er of lítill miðað við búkþrýsting sem ýtir þvagi úr blöðrunni niður í þvagrásina og út. Dæmi: Við hnerra kemur mikill þrýstingur í kviðar- og grindarhol. Það þvag sem er í blöðrunni leitar út nema þvagrásin geti haldið á móti með lokuþrýstingi sem er hærri en þrýstingurinn í blöðrunni. Eftirtaldir þættir eru mikilvægir til að þessi lokuþrýstingur haldist í þvagrásinni: Heilbrigð slímhimna innan í þvagrás. Bandvefur og teygjanlegir þræðir sem halda vefjum á sínum stað. Sléttir vöðvar í þvagrás. Grindarbotnsvöðvar. Röskun á einhverjum þessara þátta getur stuðlað að áreynsluþvagleka. Meðhöndlun fer eftir því hvar veikleikinn er. Sem dæmi má nefna að hormónameðferð kvenna í kringum breytingaskeið og eftir styrkir slímhimnur þvagrásar og legganga auk þess að hafa víðtækari áhrif, til dæmis á beinþéttni. Þjálfun gegn þvagleka Grindarbotnsæfingar eru gerðar til að ná upp styrk grindarbotnsvöðva svo þeir veiti líffærum í grindarholi betri stuðning, komi þannig í veg fyrir þvagleka og þyngslatilfinningu í grindarbotni. Til þess að grindarbotnsæfingar beri árangur þarf að gera þær af nægilega miklum krafti, nógu oft og síðast en ekki síst; ­ rétt. Grindarbotnsæfingar eru áhættulausar, án aukaverkana og ættu að vera fyrsta meðferðarform sem reynt er ef ástand grindarbotnsvöðva er talið þáttur í þvagleka. Konur með áreynsluþvagleka eiga oft í vandræðum með að finna vöðvana og stjórna þeim viljabundið. Stóru vöðvarnir allt í kring; magavöðvar, rassvöðvar og innanlærisvöðvar eru þá virkjaðir en þeir geta á engan hátt komið í veg fyrir þvagleka. Mjög mikilvægt er að samdráttur grindarbotnsvöðva sé réttur og geta konur þurft að leita til sjúkraþjálfara til að fá leiðbeiningar og stuðning. Þegar því er náð er mikið unnið, eftirleikurinn þá auðveldari og líkurnar á bata aukast. Rannsóknum ber ekki saman um tíðni áreynsluþvagleka. Sumar niðurstöður benda til að allt að önnur hver kona glími við hann einhvern tíma á ævinni. Þetta er ekki aðeins heilsufarslegt vandamál, heldur einnig hreinlætis- og félagslegur vandi. Konur sem virkilega hafa verið þjakaðar af þessum kvilla tala um þá félagslegu einangrun sem þær hafa verið komnar í. "Ég fór ekki lengra en út með ruslið," er lýsing konu einnar sem leitaði hjálpar sjúkraþjálfara. Það segir meira um ástandið en mörg orð. Nýjung í meðhöndlun Einstaklingsmeðferð hjá sjúkraþjálfara hefur verið í boði um alllangt skeið með ágætum árangri. Í fyrsta sinn á Íslandi, eftir því sem best er vitað, var síðastliðinn vetur einnig boðið upp á sérstaka hóptíma fyrir konur með áreynsluþvagleka. Þeir tímar eru hugsaðir sem aðhald og viðbót við heimaæfingar sem nauðsynlegt er að stunda til að árangur náist. Þetta form hefur verið notað í Noregi um árabil og samkvæmt þarlendum rannsóknum losna 60% til 70% kvenna sem taka þátt í slíkri hópleikfimi við áreynsluþvagleka, á móti um það bil 17% sem eingöngu æfa heima og án utanaðkomandi aðhalds. Skoðanakönnun meðal íslensku kvennanna, sem tóku þátt í hóptímunum síðastliðinn vetur, gefur tilefni til að ætla að árangur hérlendis sé síst verri. Ekki eru barnsfæðingar eina ástæða áreynsluþvagleka. Óbyrjur og konur sem hafa eignast börn með keisaraskurði geta fengið þvagleka. Offita, léleg líkamsvitund, geðræn vandamál, ýmis lyfjanotkun, skaði í taugakerfi og hækkandi aldur eru einnig þættir sem geta aukið líkur á þvagleka þótt þeir geri það sem betur fer ekki alltaf. Einnig er þvagleki meðal íþróttakvenna þekktur. Enginn á að sætta sig við þvagleka sem orðinn hlut án þess að leita aðstoðar. Talið við þvagfæralækni, kvensjúkdómalækni eða heimilislækni og fáið greiningu á vandamálinu, því fleiri tegundir af þvagleka eru til en áreynsluþvagleki og í framhaldi af því er hægt að byggja upp réttu meðferðina. Umfram allt: Látið ekki þvagleka hefta líf ykkar og takmarka athafnafrelsi, því bæði eru ýmis hjálpartæki til og oft fæst mikil hjálp með réttri meðferð. Höfundur er löggiltur sjúkraþjálfari og starfar í Tápi ehf., sjúkraþjálfun og æfingastöð. Þorgerður Sigurðardóttir