FRANK Judd lávarður sagði að hann hefði átt margar andvökunætur þegar hann var ráðherra breska flotans í síðasta þorskastríði vegna þess að hann hefði óttast að illa færi rækjust breskt herskip og íslenskt varðskip á.
Flotamálaráðherra Breta 1974

til 1976 kveðst hafa átt margar andvökunætur í þorskastríðinu Bresku herskipunum var meiri hætta búin en varðskipunum

FRANK Judd lávarður sagði að hann hefði átt margar andvökunætur þegar hann var ráðherra breska flotans í síðasta þorskastríði vegna þess að hann hefði óttast að illa færi rækjust breskt herskip og íslenskt varðskip á. Judd, sem nú á sæti í lávarðadeild breska þingsins og sat fund Evrópuráðsins í Reykjavík í upphafi vikunnar, sagði að bresku freigátunum hefði verið meiri hætta búin en skipum Landhelgisgæslunnar.

"Mér fannst mjög dapurlegt á þessum tíma að lönd okkar skyldu eiga í þessari deilu," sagði hann. "Ég hef alltaf dáðst mjög að Íslandi og ég ber mikla virðingu fyrir hörku og seiglu íslensku þjóðarinnar. Ég kom hingað reyndar eftir þorskastríðið þegar ég var hjá breska utanríkisráðuneytinu fyrir hönd Evrópusambandsins til að tala um fisk."

Judd, sem var flotamálaráðherra frá 1974 til 1976 í stjórn Harolds Wilsons, kvaðst lítið vilja tala um deiluna um stækkun fiskveiðilögsögu Íslands í 200 mílur, hún heyrði fortíðinni til og hann vildi horfa til framtíðar. Hann játti því þó að hann hefði átt margar andvökunætur í þorskastríðinu.

"Ég gerði mér alltaf grein fyrir því að á þessum tíma vorum við með freigátur búnar nýjustu tækjum, sem voru hönnuð til háþróaðs stríðsrekstrar," sagði hann. "Tækin voru rándýr og fín, en skipsskrokkarnir voru næfurþunnir og hefði orðið árekstur á opnu hafi í þessum kulda hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. En skipstjórnendur sýndu mikla hæfni á báða bóga og það var mikil gagnkvæm virðing. Þið komuð ykkar sjónarmiðum á framfæri og gerðuð það án þess að kæmi til stórslyss."

Var pólitískt stríð

"Þetta var í raun pólitískt stríð," sagði hann. "Báðir aðilar vildu sýna staðfestu sína og ákveðni og það hefði verið sorglegt hefði eitthvað út af borið. Og ég held í raun að hættan hafi verið meiri fyrir okkur en ykkur því að íslensku varðskipin hefðu sennilega þolað árekstur betur en okkar háþróuðu skip."

Judd vildi ekki ræða hvort hann hefði undir niðri vitað hvernig landhelgisdeilan myndi fara: "En frammistaða íslenskra stjórnmálamanna var góð líkt og íslenskra sjómanna. Þá var um raunverulega hagsmuni að ræða fyrir Íslendinga. Auðvitað hafði útkoman miklar félagslegar afleiðingar á Bretlandi og það var sársaukafullt, en þannig fór."

Ekkert ríki stendur eitt í samfélagi þjóðanna

Judd lávarður leggur áherslu á að ekkert ríki standi lengur eitt í samfélagi þjóðanna og bendir á að það eigi ekkert síður við í fiskveiðimálum, en á öðrum sviðum.

"Þegar ég horfi á barnabarn mitt geri ég mér grein fyrir því að ekki eitt einasta af helstu málunum verður leyst fyrir tilverknað einhvers eins ríkis. Það á við um hnattvæðingu, viðskipti, öryggismál og umhverfismál. Okkar verkefni er hvernig við ætlum að leysa þessi mál með hagsmuni alls mannkyns að leiðarljósi og taka um leið með í reikninginn sérstöðu einstakra hópa, eins og norræn ríki og fisk. Það er á okkar ábyrgð að tryggja að barnabörn okkar og barnabarnabörn hafi fisk og þurfi ekki að spyrja: hvað varð um allan fiskinn? Og það getur ekkert eitt ríki leyst vanda hafanna, til þess þarf alþjóðlegt samstarf."

Hann sagði að það væri synd að Ísland skyldi ekki vera í Evrópusambandinu: "Ég virði þá ákvörðun, en held að siðmenntuð og heiðvirð þjóð á borð við ykkur hafi margt fram að færa til að stuðla að aukinni mannúð í Evrópusambandinu í framtíðinni. Ég veit ekki hvað þið mynduð fá mikið í aðra hönd, en þið mynduð leggja ykkar af mörkum og hafa mikið að segja."

Hann kvaðst engu að síður telja að Ísland gæti haft áhrif utan frá: "Staða ykkar í heiminum er langt umfram það, sem stærð landsins gefur til kynna."

Judd er nýkominn frá ferð til Kosovo, Montenegro og Serbíu á vegum fólksflutninga- og flóttamannanefndar þings Evrópuráðsins þar sem sitja fulltrúar þjóðþinga aðildarríkja ráðsins. Hann er formaður undirnefndar, sem fjallar um flóttamenn, og greindi frá ferðinni á fundinum í Reykjavík. Skýrsla úr ferðinni verður lögð fyrir nefndina alla í París 10. september og síðan fyrir þing Evrópuráðsins í Strassborg í lok mánaðar.

Morgunblaðið/Golli Judd lávarður.