ÞAÐ hefur áreiðanlega verið nokkuð um ekkasog í kvikmyndahúsum þegar Obi-Wan Kenobi lét lífið í Stjörnustríði. Ástæðan fyrir þessu ótímabæra fráfalli er ekki öllum kunn. Að sögn Sir Alec Guinness, sem lék Jedi-meistarann hugumprúða, var hún einfaldlega sú að hann var búinn að fá sig fullsaddan á verkefninu.
Guinness með

andstyggð á

Stjörnustríði

ÞAÐ hefur áreiðanlega verið nokkuð um ekkasog í kvikmyndahúsum þegar Obi-Wan Kenobi lét lífið í Stjörnustríði. Ástæðan fyrir þessu ótímabæra fráfalli er ekki öllum kunn. Að sögn Sir Alec Guinness, sem lék Jedi-meistarann hugumprúða, var hún einfaldlega sú að hann var búinn að fá sig fullsaddan á verkefninu. Í viðtali í tímaritinu Talk kemur fram að leikarinn, sem er 85 ára, hefur andstyggð á hlutverki sínu í myndinni, sem hann er líklega þekktastur fyrir, og raunar á fyrirbærinu Stjörnustríði eins og það leggur sig. Guinness segir það sína hugmynd að Obi-Wan léti lífið, að því er virtist vegna þess að hann væri máttugri sem draugur. Lucas var á sama máli og breytti handritinu. Það sem bjó undir hjá Guinness var annað: "Ég gat bara ekki haldið áfram að segja þessar hryllilegu, lágkúrulegu setningar. Ég var búinn að fá nóg af þessum vitleysisgangi." Alec Guinness er um þessar mundir að kynna þriðja hluta sjálfsævisögu sinnar "A Positively Final Appearance". Hann segist ekki fást við leiklist lengur vegna þess að hann vilji ekki að fólk sjái hann öðruvísi en upp á sitt besta. "Ef fólk vill horfa á mig," segir hann, "getur það fengið sér 30 ára gamla mynd þegar ég var ekki svona ellihrumur."