VÍSINDAMENN segjast hafa uppgötvað að dyslexía, sem er kvilli er leiðir til lestrar- og skriftarerfiðleika, megi rekja til ákveðinna arfbera sem nú hafi tekist að tilgreina, að því er BBC greinir frá.

Dyslexía

rakin til

arfbera

VÍSINDAMENN segjast hafa uppgötvað að dyslexía, sem er kvilli er leiðir til lestrar- og skriftarerfiðleika, megi rekja til ákveðinna arfbera sem nú hafi tekist að tilgreina, að því er BBC greinir frá.

Lengi hefur leikið grunur á því, að dyslexíu mætti rekja til arfbera, en þetta er í fyrsta sinn sem tekist hefur að tilgreina hvaða arfbera er um að ræða. Greint er frá niðurstöðum vísindamannanna í British Journal of Medical Genetics.

Vísindamennirnir eru norskir, belgískir og bandarískir. Fundu þeir norska fjölskyldu þar sem stór hluti meðlima hafði dyslexíu. Var lestrargeta 30 fjölskyldumeðlima könnuð og kom í ljós að 11 þjáðust af dyslexíu.

Síðan voru tekin blóðsýni úr öllum fjölskyldumeðlimunum til að greina arfberana og kom í ljós að ein stutt keðja af erfðaefni virtist valda því, að meðlimum þessarar fjölskyldu var hætt við dyslexíu.

Vísindamennirnir vonast til þess að uppgötvunin geti gert kleift að greina fyrr dyslexíu hjá börnum svo hægt sé að bregðast við með sérstökum æfingum sem ætlað er að gera börnunum mögulegt að yfirvinna kvillann.