Undanfarin misseri hafa nokkur mikilvæg hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar verið til umfjöllunar í samfélaginu. Nægir að nefna fiskveiðistjórnun, gagnagrunnsmálið og áhrif virkjana á náttúru hálendisins. Allt eru þetta flókin viðfangsefni þar sem um mikla hagsmuni er að tefla og þýðingarmikil verðmæti eru í veði.
RABB

Valdatafl og rökræður Undanfarin misseri hafa nokkur mikilvæg hagsmunamál íslenzku þjóðarinnar verið til umfjöllunar í samfélaginu. Nægir að nefna fiskveiðistjórnun, gagnagrunnsmálið og áhrif virkjana á náttúru hálendisins. Allt eru þetta flókin viðfangsefni þar sem um mikla hagsmuni er að tefla og þýðingarmikil verðmæti eru í veði. Umræðan í samfélaginu um þessi málefni hefur verið lífleg og víðtæk, og mörgum er í mun að koma skoðun sinni á framfæri með einum eða öðrum hætti. Þetta er út af fyrir sig góðs viti í lýðræðissamfélagi. En það er áhyggjuefni hve opinber umræða á oft langt í land með að vera vönduð og málefnaleg. Iðulega er meira kapp lagt á að hafa skoðun og fylgja henni eftir en að hyggja að rökunum fyrir henni. Rökræðan á undir högg að sækja. Því hefur verið haldið fram að ástæðan fyrir þessu sé sú að Íslendingar séu sagnamenn fremur en hugsuðir. Þeim sé tamara að segja hnyttna sögu eða kasta fram stöku en að grandskoða kjarna málsins. Þegar bezt lætur verður ferskeytlan byssustingur í höndum Frónbúans og sagnamaðurinn sníður hausinn af viðmælanda sínum liggi hann vel við höggi. Þetta er arfleifð okkar. Í Morfís keppni framhaldskólanema birtist þessi arfur í formi kappræðu þar sem markmiðið er að "mala" andstæðinginn. Í þeim málflutningi er málefnið aukaatriði, mælskan meginatriði. Þetta morfíshaf mælskulistarinnar er klakstöð íslenzkra kappræðuskörunga sem eiga eftir að munnhöggvast um ókomin ár. En það er til önnur og alvarlegri skýring á rökþrotabúi okkar Íslendinga. Hún er sú að við höfum almennt ekki trú á því að svokölluð málefnaleg rök séu til. Þau séu þegar upp er staðið aldrei annað en yfirvarp fyrir hagsmuni, tilfinningar eða valdapot: Stjórnmálamaður styðji kvótakerfið vegna þess að frændi hans er útgerðarmaður; læknir leggist gegn gagnagrunni á heilbrigðissviði vegna þess að hann öfundar Kára Stefánsson; líffræðingur styðji áform um Fljótsdalsvirkjun vegna þess að hann hyggur á framboð austur á fjörðum. Þetta er aldagömul leið til að ómerkja málfutning og gera hann tortryggilegan. Og auðvitað hafa menn oftast eitthvað til síns máls. Í flestum tilvikum er lítill vandi að benda á einhver atriði af þessu tagi og stundum eru þau nægileg skýring á afstöðu manns. En það er gróft tilræði við vitræna umræðu að fara alltaf í manninn með þessum hætti og hunza það hvernig röksemdir hans tengjast málefninu sjálfu. Hagsmunatengslin veita upplýsingar um manninn sem í hlut á, en þau breyta engu um réttmæti skoðunarinnar sem hann heldur fram. Nýlegt dæmi úr íslenzku samfélagi sýnir ljóslega hve djúprætt það viðhorf er að rökræða sé ekki annað en valdatafl. Með nýrri reglugerð um Vísindasiðanefnd gerbreytti heilbrigðisráðherra skipan nefndarinnar sem fjallar um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Fyrir breytinguna voru sex nefndarmenn af sjö skipaðir eftir tilnefningu deilda og stofnana Háskóla Íslands, en eftir breytinguna eru sex nefndarmenn af sjö skipaðir af ráðuneytum án tilnefningar. Fyrir utan það hve umbúðalaus og gerræðislegur valdgerningur er hér á ferð, þá má túlka hann sem skilaboð til háskólamanna um að þeir séu ekki annað en erindrekar sérhagsmuna. Þessi skoðun kom einkar skýrt fram í nýlegri morgunblaðsgrein (19.8.1999) þar sem því er fagnað að háskólinn "ráði" ekki lengur meirihluta vísindasiðanefndar. Háskólamenn eru minntir á að þeir séu ekki hafnir yfir hagsmunatogstreitur og að þeir hljóti sem ríkisstarfsmenn að draga taum ríkisvaldsins! Ekki dettur mér í hug að líta svo á að háskólamenn séu hagsmunageldir hlutleysingjar, og það er þeim ekki ætlað að vera. Hugsjónin um háskóla krefst þess þvert á móti að háskólamenn taki afstöðu í hverju máli eftir því sem fræðileg rök bjóða þeim. Krafan um hlutleysi kom fram sem hugsjón um sjálfstæði háskóla gagnvart öflum sem vildu ráðskast með vísindamenn og vísindalegar niðurstöður. Þetta felur í sér skyldu háskólamanna til að ástunda gagnrýnið eftirlit með störfum sínum svo að þeir verði ekki að auðsveipu handbendi ríkjandi afla. Þeim ber að hafa það sem sannara reynist og stenst próf fræðilegrar rökræðu. Þetta mætti kalla hagsmuni skynseminnar, eins fyndið og það kann að hljóma í byssustingjasamfélagi kappræðumanna. Með þessu er ég ekki að halda því fram að hagsmunir skynseminnar séu ekki meira og minna samofnir margs konar öðrum hagsmunum í deiglu hversdagsins. Vitaskuld eiga háskólamenn margvíslegra hagsmuna að gæta eins og annað fólk. Og það er yfirleitt ekki auðvelt að aðskilja skynsamleg rök algerlega frá "annarlegum" hagsmunum og raunar á ekki að ætlast til þess. Það er jafnrangt að afgreiða öll rök sem úlfa í sauðargæru og að ætlast til þess að góð rök séu fyllilega óflekkuð af heimssoranum. Hvort tveggja kemur í veg fyrir að rökræður eigi sér stað og þar með að málefni séu skynsamlega til lykta leidd. Rökræðan á undir högg að sækja og eina ráðið til að efla hana er að leggja stund á hana. En forsenda þess er sú að menn hafi trú á því að rök séu annað og meira en vopn í valdatafli. VILHJÁLMUR ÁRNASON