GRANDI hf. hefur undirritað samning við Naust Marine um kaup og ísetningu á ATW SymmetryControl-togvindubúnaði um borð í togarann Ottó N. Þorláksson RE. Naust Marine hét áður Rafboði en Rafboði annaðist ísetningu fyrsta Auto- Trawl-kerfisins fyrir rafmagsnsspil sem sett var í Ottó N. Þorláksson RE árið 1980.
Nýr togvindubúnaður í

Ottó N. Þorláksson RE

Naust Marine semur einnig við Síldarvinnsluna

GRANDI hf. hefur undirritað samning við Naust Marine um kaup og ísetningu á ATW SymmetryControl-togvindubúnaði um borð í togarann Ottó N. Þorláksson RE. Naust Marine hét áður Rafboði en Rafboði annaðist ísetningu fyrsta Auto- Trawl-kerfisins fyrir rafmagsnsspil sem sett var í Ottó N. Þorláksson RE árið 1980. Togvindurnar sem settar verða í skipið eru frá Ibercisa á Spáni, en þær hafa náð ráðandi markaðshlutdeild á íslenska markaðnum á síðustu árum, að sögn Ásgeirs Erlings Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Naust Mariene.

ATW SymmetryControl-stjórnkerfið er þróað í samvinnu Naust Marine, sem boðið hefur Auto- Trawl-kerfi fyrir rafmagnsvindur, og Scantrol í Noregi, sem boðið hefur samsvarandi kerfi fyrir vökvavindur. Söluverð nýja ATW SymmetryControl-kerfisins sem sett verður um borð í Ottó N. Þorláksson RE er um 26 milljónir króna og verður niðursetningu kerfisins lokið 6. janúar 2000.

Togvindubúnaður í tvo togara Síldarvinnslunnar

Samningurinn við Granda var undirritaður á Íslensku sjávarútvegssýninguni en þar undirritaði Naust Marine einnig samning við Síldarvinnsluna hf. í Neskaupstað um ný ATW SymmetryControl-togvindukerfi fyrir togarana Barða NK og Bjart NK. Ásgeir segir Íslensku sjávarútvegssýninguna vera mjög öfluga í samanburði við aðrar sýningar sem Naust Marine taki þátt í. "Til okkar koma viðskiptavinir frá öllum helstu viðskiptalöndum okkar víðs vegar um heiminn. Þessi sýning er alls ekki bundin við Norður-Evrópu því hingað koma gestir alls staðar að úr heiminum, meðal annars frá Suður-Ameríku. Sýningin er því búin að skapa sér nafn á alheimsvísu," segir Ásgeir.

Að sögn Ásgeirs verður ýmiss búnaður frá Naust Marine um borð í nýja hafrannsóknaskipinu sem er í smíðum í Asmar-skipasmíðastöðinni í Chile. "Við höfum átt gott samstarf við skipasmíðastöðina í Chile og munum afgreiða búnað í önnur skip sem þar eru í smíðum. Ennfremur höfum við átt samstarf við ýmis fyrirtæki úti í heimi þar sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki koma að rekstri."

Sigurbjörn Svavarsson, útgerðarstjóri Granda, og Ásgeir Erling Gunnarsson, framkvæmdastjóri Naust Marine, handsala samning um nýjan búnað í Ottó N. Þorláksson RE.