LANDSSAMBAND íslenskra útvegsmanna hefur gefið út ritið Ábyrg fiskveiðistjórnun Íslendinga ­ fyrirmynd annarra þjóða sem er einnig gefið út á ensku, Iceland's system of responsible resource management ­ a model for the world, í þeim tilgangi að kynna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis. í fréttatilkynningu segir m.a.
LÍÚ kynnir fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis LANDSSAMBAND íslenskra útvegsmanna hefur gefið út ritið Ábyrg fiskveiðistjórnun Íslendinga ­ fyrirmynd annarra þjóða sem er einnig gefið út á ensku, Iceland's system of responsible resource management ­ a model for the world, í þeim tilgangi að kynna íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið erlendis.

í fréttatilkynningu segir m.a. að með aukinni áherslu á umhverfismerkingar sjávarafurða, sjálfbærar veiðar og umhverfisverndarsjónarmið sé nauðsynlegt að taka frumkvæðið. "Góð kynning á skynsamlegri nýtingarstefnu Íslendinga er þannig liður í að tryggja hærra verð fyrir íslenskar sjávarafurðir á erlendum mörkuðum. Einnig hefur borið á því í máli stjórnmálamanna á alþjóðavettvangi og forstöðumanna alþjóðlegra stofnana að öðrum þjóðum beri að líta til frumkvæðis og góðs árangurs Íslendinga í fiskveiðistjórnun. Íslensk stjórnvöld hafa talað þessu máli innan alþjóðlegra stofnana en minna hefur borið á þátttöku þeirra í kynningu á vettvangi sjávarútvegs og meðal almennings."

Bæklingnum er skipt í sex kafla. Fyrst er fjallað um aukna umræðu um fiskverndarmál og vægi sjávarútvegs í íslenskum þjóðarbúskap. Síðan kemur sögulegt yfirlit um fiskveiðistjórnun á Íslandsmiðum og rekstrarlega hagkvæmni af kerfinu sem var fest með lögum 1990. Þá er útskýrt hvað felst í aflamarkskerfinu og heimildum til framsals á aflaheimildum auk þess sem greint er frá hagræðingu og sameiningu sjávarútvegsfyrirtækja og aukinni hlutabréfaeign almennings. Fjallað er um mikilvægi samstarfs vísindamanna og hagsmunaaðila við hafrannsóknir og sagt frá því hvernig umhverfissjónarmið hafa verið sett í öndvegi í fiskveiðum og hvernig breytt viðhorf á alþjóðavettvangi hafa leitt til þess að fiskur, sem veiddur er í samræmi við sjálfbæra þróun, er verðmætari á mörkuðum.