Kenningar um að áráttukennd notkun Netsins sé sálrænn kvilli eru nýjar af nálinni. Nú telja sálfræðingar ESB brýnt að bjóða netfíklum upp á meðferð áþekka þeirri sem alkóhólistum og spilafíklum er víða boðið upp á.

Meðferð

við meintri netfíkn

Kenningar um að áráttukennd notkun Netsins sé sálrænn kvilli eru nýjar af nálinni. Nú telja sálfræðingar ESB brýnt að bjóða netfíklum upp á meðferð áþekka þeirri sem alkóhólistum og spilafíklum er víða boðið upp á.

"HJÓNABÖND leysast upp, börn eru á glapstigum, fólk fremur lögbrot og það eyðir um efni fram." Þessi uggvænlegu tíðindi bárust nýverið um heimsbyggðina frá Bandaríkjunum. Ný rannsókn, sem gerð var þar vestra, þykir benda til að Netið sé að stórum hluta sökudólgurinn og að næstum sex prósent þeirra sem nota Netið ­ eða um ellefu milljónir manna ­ séu netfíklar. Niðurstöðurnar styðja óneitanlega kenninguna um að áráttukennd notkun Netsins sé ný tegund sálræns kvilla.

Sálfræðingar Evrópusambandsins eru altjent þeirrar skoðunar. Þeir hafa kveðið upp úr með að þeir sem vafra um á Netinu í meira en fjóra tíma á dag séu sjúkir og þarfnist meðferðar. Samkvæmt drögum að stefnuskrá, sem nú er til athugunar hjá heilbrigðisráðgjöfum í Brussel, er gert ráð fyrir að heilbrigðisþjónustan sjái netfíklum fyrir meðferð sambærilegri þeim sem alkóhólistum og fjárhættuspilurum er boðið upp á.

Alvarlegar hegðunartruflanir

Gangi tillagan eftir upplýsir The Sunday Times að allt að fjögur hundruð þúsund Bretar, þ.e. 10% þeirra sem eiga tölvur og vafra reglulega um á veraldarvefnum eða efna til kunningsskapar á spjallrásum, verði læknisfræðilega skilgreindir með alvarlegar hegðunartruflanir.

ESB-sálfræðingarnir hafa varað lækna víðsvegar í Evrópu við og segja netfíkn jafnvel alvarlegra vandamál en happdrættisfíkn. Þeir ráðleggja læknum að búa sig undir aukinn fjölda sjúklinga sem hafi ánetjast Netinu. Í Bretlandi er hins vegar undir heilbrigðisráðherranum, Frank Dobson, komið hversu mikilli aukafjárveitingu verður varið til að kljást við vandann, segir ennfremur í The Sunday Times .

Þótt umdeilt sé hvenær menn teljast fíklar eru líkur taldar á að stöðugt hringsól á Netinu auki dópamín í heilanum. Efnabreytingarnar eru sagðar svipaðar og þegar adrenalínið fer upp úr öllu valdi í hita leiksins hjá fjárhættuspilurum, sem í kjölfarið fyllast óbærilegri depurð og þunglyndi.

Nýjustu rannsóknir, sem afhjúpaðar voru á árlegri ráðstefnu samtaka bandarískra sálfræðinga (APA) í Boston fyrir skemmstu, benda til að aukin notkun Netsins víðsvegar í heiminum sé í raun alvarlegt vandamál, en yfir 100 milljónir tölva eru nettengdar. Fyrir aðeins þremur árum var þorri netfíkla sagður ungir karlar í millistétt, sem kunningjar og vinir skírskotuðu góðlátlega til sem sérvitringa eða "tölvunörða". Síðan þá hafa ódýrar heimilistölvur, sem auðveldar eru í notkun, jafnt og þétt haslað sér völl og er nú svo komið að konur og ellilífeyrisþegar vafra í síauknum mæli á Netinu.

Ekki fyndið lengur

Að sögn dr. Kimberly Young, lektors við Pittsburgh-háskóla, sem útskýrði netfíkn fyrir sálfræðingum ESB, er stutt síðan sálfræðingum þótti málið allt hið fyndnasta. Fjölda hjónaskilnaða, sem beinlínis megi rekja til netfíknar, segir hún þó smám saman hafa breytt slíku viðhorfi. Máli sínu til stuðnings sagði Young sextán þúsund sálfræðingum á ráðstefnu APA dæmisögur úr raunveruleikanum. Ein var af móður í Flórída, sem tapaði nýverið í forræðisdeilu yfir barni sínu vegna þess að hún gat ekki haldið sig frá tölvunni. Ýmis hegðunareinkenni eins og undirferli og vanrækslu vina segir Young vera fylgikvilla netfíknar.

Kollegi Youngs, dr. Keith Anderson, tók í sama streng og vísaði til bresk/bandarískrar rannsóknar sem gerð var af háskólum á Norður- Írlandi. Niðurstöðurnar, sem byggðust á 1.300 viðtölum, bentu til að margir ánetjuðust fíkninni í framhaldsskóla. Enda upplýstist að einn af tíu nemendum vafraði á Netinu í tæpa fjóra tíma á dag til viðbótar við tölvunotkun í námi. Aðrir nemendur notuðu tölvur hins vegar að jafnaði í 85 mínútur á dag sér til skemmtunar.

Fræga fólkið og Netið

Nemendur eru fjarri því þeir einu með dellu fyrir Netinu. Sandra Bullock, stjarnan úr kvikmyndinni Netið, og Keanu Reeves, hasarhetjan úr sumarsmellinum The Matrix , sem bæði léku tölvuforritara, kváðust hafa orðið gagntekin af Netinu þegar þau undirbjuggu sig fyrir hlutverkin.

Þá er David Bowie, sem á eigin netþjón, sagður rísa úr rekkju um fimmleytið sérhvern dag til að geta kúrt yfir tölvunni í fjóra tíma. Samkvæmt köldu mati upplýsingafulltrúa hans er Bowie einfaldlega netfíkill. Hinn 52 ára söngvari kærir sig kollóttan. Vandamálið í Bretlandi segir hann vera ríkjandi tortryggni gagnvart þeim sem séu sérstaklega áhugasamir um ákveðin málefni eða fyrirbæri, t.d. Netið.

Þokkadísin Elizabeth Hurley hefur líka tekið Netið í þjónustu sína til að liðka fyrir sér á framabrautinni. Haft er eftir nánum kunningja hennar að Netið sé þarfaþing leikkvenna, tískusýningardama og kvikmyndaframleiðenda eins og Hurley, hverra líf og starf sé beggja vegna Atlantshafsins. "Ómetanlegt tæki til að vera vel með á nótunum á öllum vígstöðvum," segir hann og deilir þeirri skoðun sinni trúlega með fleirum.

Morgunblaðið/Golli

Meira en 100 milljónir tölva í heiminum eru nettengdar.



Kvikmyndastjörnurnar Sandra Bullock og Keanu Reeves segjast hafa orðið gagntekin af Netinu þegar þau undurbjuggu sig fyrir hlutverk tölvuforritara. David Bowie á eigin netþjón og flokkast efalítið sem netfíkill samkvæmt fjögurra tíma viðmiði sálfræðinga ESB.