Stjórn KR og knattspyrnuhreyfingin skulda foreldrum barna sem æfa í þeirra röðum, segir Þórarinn Björnsson, skýr svör við því hver sé stefna þeirra í áfengis- og forvarnarmálum.
KR og kampavínið Forvarnir Stjórn KR og knattspyrnuhreyfingin skulda foreldrum barna sem æfa í þeirra röðum, segir Þórarinn Björnsson , skýr svör við því hver sé stefna þeirra í áfengis- og forvarnarmálum.

SVO sannarlega hafa stuðningsmönnum KR gefist allmörg tækifæri undanfarið til að fá gleði sinni útrás á merku afmælisári félagsins. Og hver veit nema gleðin hafi enn ekki náð sínu hámarki. Sumar yngri deildir félagsins hafa þegar borið glæsta bikara sína í hús og um síðustu helgi bættist meistaraflokkur kvenna í hópinn með Íslandsmeistarabikarinn þriðja árið í röð. En fleiri bikarar eru í pottinum og allir bíða spenntir eftir fleiri tækifærum til að fagna. En þá vaknar auðvitað spurningin: Hvernig ber að fagna svo hæfi þeirri virðingu sem áunnist hefur? Sem betur fer virðast forsvarsmenn KR hafa fundið svarið við því: Með kampavíni og knæpum góðum! Sigurgleði hlýtur að kalla á guðaveigar og svo þurfa ljónfjörugir KR-ingar líka vistlegt rými til að hita upp fyrir leiki og sletta úr klaufum sínum eftir leiki. Það er því vel við hæfi að á öllum mikilvægum leikjum KR-inga sér ljónið liðuga, með boltamagann dillandi, um að minna stuðningsmannaliðið á hvar slíkt rými sé að finna um leið og það skemmtir ungviðinu með dansi sínum. Að spyrða þannig saman barnaskemmtun og kráarauglýsingu sýnir framúrstefnulega hugmyndaauðgi og næmt viðskiptavit forystumanna KR um þessar mundir. En þetta er ekki nóg. Ef hámarksárangur á að nást þarf líka að nýta hléin í hálfleik til fullnustu þegar mikið liggur við. Þetta brást heldur ekki á leiknum gegn skoska úrvalsdeildarliðinu á Laugardalsvelli á dögunum. Þá gátu boðsgestir og stuðningsmenn í innsta hring valið um ýmsar sortir léttra vína og bjórdrykkja til að væta kverkar og liðka málbein fyrir seinni hálfleikinn. Fyrir börnunum var líka séð með sérvöldu diet-gosi. Úrvalið var þó sýnu fátæklegra um síðustu helgi þegar KR-stúlkur fögnuðu Íslandsmeistaratitli sínum. Undirritaður fór til að hvetja og samfagna stúlkunum, þar á meðal nokkrum 15 ára nýliðum liðsins sem sigursælar hafa verið með þriðja flokki kvenna í sumar. Í kampavíni var þeim, ásamt foreldrum sínum, systkinum og vinum, boðið að fagna áfanganum og var gengið um anddyri nýs og glæsilegs félagsheimilis KR með flöskurnar og bætt á glösin eftir þörfum. Að baki mér heyrði ég reyndar karlmann afþakka höfðinglegt boð. Var á honum að skilja að hann væri búinn að kynnast gleði vínsins til botns. Hann var þó ekki einn um að ganga þurrbrjósta út. Það gerðu einnig fáeinir foreldrar og yngstu liðsmenn meistaraflokks kvenna þrátt fyrir þrýsting í aðra átt. Auðvitað er ekki við forráðamenn KR að sakast í þeim efnum, enda öllum í sjálfsvald sett hvort þeir hafa með sér dálítið ropvatn eða fernu af Trópí í nesti á slíkar hátíðarstundir. En hver skyldu svo vera markmið hins aldna og virðulega félags á 100 ára afmælisári sínu, sem rís nú upp úr öskustó til nýrrar og bjartari framtíðar? Sé gluggað í heimasíðu knattspyrnudeildar KR sést að "leiðarljós" félagsins er að knattspyrnulið KR geti verið "stolt og samnefnari Vesturbæinga". Þá er uppeldisstefnan ekki síður hjartnæm. Tilgangur hennar er að foreldrar og skólayfirvöld geti treyst því "að barna- og unglingastarf KR sé eins og það best gerist". Í ljósi þessa er það meðal annars markmið uppeldisstefnunnar að KR-ingar séu "heilbrigðir og vel undirbúnir undir lífið". Til að ná þessum háleitu markmiðum hefur KR lagt sitt af mörkum á afmælisárinu til að þau börn og unglingar sem unna knattspyrnunni af heilum hug geti fengið sitt fyrsta alvörutilboð um að neyta áfengis í tengslum við hugðarefni sitt. Það færi því vel á því að bæta við afreksstefnu félagsins að leggja kapp á að styðja Íslendinga í því að slá Norðurlandametið í áfengisneyslu eftir að Íslandsmetið féll í fyrra. Með því að fjölga baráttukveðjum vín- og ölinnflytjenda á nýju KR-útvarpsrásinni ætti markmiðið að vera í sjónmáli. En ef "heilbrigði" og góður undirbúningur fyrir lífið felst í öðru en því að læra að fagna sigrum með kampavínsglas í hendi eða drekkja sorgum með bjórkippu sér við hlið þá tel ég að stjórn KR og knattspyrnuhreyfingin sem slík skuldi foreldrum barna sem æfa í þeirra röðum skýr svör við því hver sé stefna þeirra í áfengis- og forvarnarmálum og vænti greinargóðra svara í þeim efnum. Höfundur er guðfræðingur. Þórarinn Björnsson