Það er ekkert sem bannar vinnuveitanda að greiða launamanni hærri laun en kveðið er á um í kjarasamningi, segir Guðmundur Gunnarsson, eða veita honum í einhverju betri ráðningarkjör.
Eru kennarar þjófar? Launakjör Það er ekkert sem bannar vinnuveitanda að greiða launamanni hærri laun en kveðið er á um í kjarasamningi, segir Guðmundur Gunnarsson , eða veita honum í einhverju betri ráðningarkjör.

UNDANFARIÐ hafa borgaryfirvöld haldið því fram í fjölmiðlum, að þau hafi greitt kennurum of há laun undanfarin þrjú ár og þau ætli sér nú að draga hluta þessarar "ofborgunar" af launum kennara. Samtök kennara höfnuðu því alfarið að sá gjörningur væri löglegur. Og þá koma forsvarsmenn borgaryfirvalda fram í fjölmiðlum og beina því til samvisku kennara, að þeim beri að greiða þessa fjármuni tilbaka, þeir eigi þá ekki. Þessi málflutningur hljómar ákaflega einkennilega og jafnvel ósmekklega því eins og borgaryfirvöld stilla þessu upp þá er það gefið í skyn að þeir sem ekki geri það séu þjófar. Borgaryfirvöld virðast greinilega ekki átta sig á því að löglega gerður kjarasamningur milli samtaka launamanna og atvinnurekenda er samningur um lágmarkskjör og maður spyr, hvernig geta borgaryfirvöld haldið því fram að þau hafi greitt of há laun? Það er ekkert sem bannar vinnuveitanda að greiða launamanni hærri laun en kveðið er á um í kjarasamningi eða veita honum í einhverju betri ráðningarkjör. Hafi vinnuveitandi greitt launamanni einhver ákveðin laun fyrir fastan vinnutíma í einhvern tíma, oftast er um að ræða þrjá mánuði, er ætíð litið svo á að kominn sé á samningur um hver launa- og ráðningarkjör viðkomandi launamanns séu og þeim er síðan ekki hægt að breyta nema að undangengnum uppsagnarfresti og sama gildi um launamanninn, hann geti ekki breytt þessum fasta vinnutíma nema að undangengnum uppsagnarfresti. Það er því eðlilegt að þeir kennarar, sem hafa fengið útborguð laun, þótt þau séu í einhverju hærri en þau lágmörk sem kjarasamningur kveður á um, líti svo á að það hafi verið þau laun sem ætlunin hafi verið að greiða þeim fyrir vinnu þeirra. Borgaryfirvöldum er því óheimilt að lækka þessi launakjör nema að undangengnum uppsagnarfresti eða m.ö.o. það eru sennilega a.m.k. þrír mánuðir þar til borgin getur lækkað laun umræddra kennara. Sama skilningsleysi á grundvallaratriðum kjarasamninga kom einnig fram í ummælum sömu forsvarsmanna borgarinnar, þegar þeir fjölluðu um ástæður þess hvers vegna þeir fái ekki skólaliða til starfa í skólana. Þeir héldu því fram að það væri vegna ákvæða kjarasamninga um hvaða laun megi greiða þeim. Þessi málflutningur er kostulegur. Borgaryfirvöld tóku það að sér að sjá til þess að börnin í borginni fái ákveðna þjónustu í skólanum, það er í gildi milli fjölskyldna í borginni og borgaryfirvalda samningur um að þær greiði henni ákveðið gjald fyrir þessa þjónustu og eftir því er gengið með innheimtu skatta, útsvara og sérgjalda. Það kemur málinu ekkert við þó að í kjarasamningum sé kveðið á um hver eigi að vera lágmarkslaun skólaliða. Borgaryfirvöld verða og eiga einfaldlega, að greiða þau laun sem þarf til þess að fólk fáist til þess að sinna þessum störfum svo þau geti staðið við sinn hluta þessa samnings. Því var lofað í síðustu kosningum og kosningunum þar á undan líka. Þetta eru ákvæði sem fyrirtæki á almennum vinnumarkaði verða að virða og fara eftir og opinber fyrirtæki verða að gera það líka. Ég er sannfærður um að það sé skilningur borgaryfirvalda að ef þau gera samning við rafverktaka um að hann setji upp og gangi frá raflögn í eitthvert húsa borgarinnar fyrir einhverja ákveðna upphæð, þá þýði ekki fyrir rafverktakann að koma til borgarstjóra og segjast ekki geta staðið við samninginn vegna þess að hann fái ekki rafvirkja til þess að vinna á lágmarkstaxta. Höfundur er formaður Rafiðnaðarsambands Íslands. Guðmundur Gunnarsson