Disney-myndin "Inspector Gadget" er byggð á þekktri teiknimyndapersónu með sama nafni og segir ævintýralega sögu heldur óframfærins öryggisvarðar að nafni John Brown (Matthew Broderick). Hann dreymir um að ná langt sem lögreglumaður. Reyndar dreymir hann um að verða heimsins mesta lögga.
KVIKMYNDIR/Bíóhöllin, Kringlubíó, Laugarásbíó, Nýja bíó í Keflavík og Nýja bíó á Akureyri hafa tekið til sýninga Disney-myndina "Inspector Gadget" með þeim Matthew Broderick og Rupert Everett í aðalhlutverkum.

Lögreglumaður hlaðinn

tæknibrellum Disney-myndin "Inspector Gadget" er byggð á þekktri teiknimyndapersónu með sama nafni og segir ævintýralega sögu heldur óframfærins öryggisvarðar að nafni John Brown (Matthew Broderick). Hann dreymir um að ná langt sem lögreglumaður. Reyndar dreymir hann um að verða heimsins mesta lögga. Hann starfar sem öryggisvörður hjá rannsóknarstofu sem sérhæfir sig í gerð vélmenna og reynir án árangurs að koma í veg fyrir að glæpamaðurinn Sanford Scolex (Rupert Everett) steli bestu hugmyndinni, sem auka mun völd óþokkans um ókomna tíð. John lendir á sjúkrahúsi eftir æsilegan eltingaleik og fær í framhaldi af því ýmsa tæknilega aðstoð til þess að ráða niðurlögum illmennisins Scolexar; hann er hlaðinn ekki færri en 14.000 hjálparhlutum áður en sjúkrahúsvist hans lýkur. Gadget er frönsk teiknimyndapersóna og hefur verið vinsæll í evrópsku sjónvarpi og þurfti að gera á honum nokkrar breytingar til þess að hann félli inn í bandaríska bíómynd. "Við vildum gefa Gadget sakleysislegt yfirbragð," er haft eftir einum af framleiðendum myndarinnar, Jordan Kerner. "Við litum aftur til einfaldari tíma í lífi Bandaríkjanna, litum til karaktera eins og Jimmy Stewarts eða Cary Grants, karaktera sem bjuggu yfir öllum þeim kostum sem Bandaríkjamenn höfðu áður í hávegum og mundu vilja hafa enn í dag." Framleiðendurnir sögðust aðeins hafa haft einn leikara í huga í titilhlutverkið og það var Matthew Broderick. Þegar þeir heyrðu að hann sýndi áhuga á að taka hlutverkið að sér flugu framleiðendurnir til fundar við hann í New York þar sem hann býr og fengu hann endanlega á sitt band. "Ég vil ekki draga úr kostum Brodericks með því að líkja honum of ákveðið við einhvern annan leikara en ég hef svo miklar mætur á Jimmy Stewart og Broderick minnir mig sterklega á hann," er haft eftir einum framleiðandanum, Jon Avnet sem einnig er kunnur leikstjóri. "Gadget er hversdagshetja en fyndinn og uppfinningasamur í leiðinni." Broderick fannst persónan sem hann átti að leika sniðuglega gerð. "Ég varð mjög spenntur yfir hlutverkinu og leist vel á þennan mann sem er búinn alls konar tækjum og tólum." Leitað var til breska leikarans Rupert Everetts þegar ráða átti í hlutverk erkióvinar Gadgets. "Mér leist vel á þá hugmynd að leika óþokkann," er haft eftir Everett. "Það veitti mér tækifæri til þess að gera marga skemmtilega hluti." Leikstjóri myndarinnar er David Kellogg en hann hefur unnið mikið í auglýsingum m.a. fyrir Nike og Pepsi. Sá sem var fenginn til þess að hafa umsjón með tæknibrelluatriðunum var hinn sögufrægi brellusérfræðingur Stan Winston en hann hefur áður unnið við myndir eins og Tortímandinn 2 og "Aliens". Hann hefur fjórum sinnum unnið til óskarsverðlauna fyrir starf sitt í kvikmyndunum. Á ferð og flugi; Matthew Broderick í hlutverki lögreglumannsins Gadget. Krumlur sem Freddi Kruger hefði verið stoltur af; úr "Inspector Gadget". Breski leikarinn Rupert Everett leikur óþokkann í Disney-myndinni.