Stundum grípa menn á lofti orðalag sem hrífur með eftirminnilegri hætti en annað, það verður allt í einu öllum tamt á tungu. Víkverji man eftir því að heyra í fyrsta sinn í umræðuþætti fyrir fáeinum árum talsmann náttúruverndarsjónarmiða ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á hálendinu.
Stundum grípa menn á lofti orðalag sem hrífur með eftirminnilegri hætti en annað, það verður allt í einu öllum tamt á tungu. Víkverji man eftir því að heyra í fyrsta sinn í umræðuþætti fyrir fáeinum árum talsmann náttúruverndarsjónarmiða ræða fyrirhugaðar framkvæmdir á hálendinu. Hann sagði þá að ráðamenn mættu ekki falla í þá gryfju að tala eingöngu um kílóvattstundirnar en gleyma unaðsstundunum sem óbyggðirnar veittu svo mörgum.

Vafalaust hefur maðurinn álitið að flestir könnuðust við þessa samlíkingu en Víkverja fannst þetta vera nýtt innlegg. Það var hins vegar Sigurður heitinn Þórarinsson jarðfræðingur sem (líklega) á höfundarréttinn. Það sá Víkverji þegar hann leit í sumar inn í hús sem reist hefur verið við Gullfoss til að minnast sæmdarkonunnar Sigríðar Tómasdóttur í Brattholti, sem á sínum tíma kom í veg fyrir að fossinn yrði virkjaður. Henni fannst víst að þótt rafmagnið væri gott mætti ekki fórna öllu fyrir það. Þarna eru á vegg myndir og tilvitnanir, meðal annars í þessi orð Sigurðar frá 1978 um unaðsstundirnar sígildu.



Víkverja fannst athyglisvert að sjá að erlendur fyrirlesari á ráðstefnu um ferðaþjónustu varaði okkur Íslendinga við því að einblína bara á fjölda ferðamanna þegar við reyndum að auka veg atvinnugreinarinnar heldur skiptu gæði ferðaþjónustunnar og umhverfisins mestu. Ferðaþjónusta ætti að vera vistvæn í þeim skilningi að fyrst og fremst ættu gestirnir okkar að hafa áhuga á merkilegri náttúru landsins. Þá væru meiri líkur á að þeir dveldu lengur en ella og þeir væru ólíklegri til að valda náttúruspjöllum.

Kannski er þetta rétt. Rannsóknir hafa gefið til kynna að ferðamenn sem hingað koma séu að jafnaði fremur vel menntaðir og vel efnaðir og sé það rétt erum við á réttri braut, erum að laða að okkur "góðu ferðamennina".

En vonandi ber ekki að skilja þetta sem svo að endurvekja eigi umnræður um "bakpokalýðinn" sem voru vinsælar fyrir nokkrum áratugum.

Þá var Ísland að stíga sín fyrstu hikandi skref inn í nýja atvinnugrein. Áður höfðu aðeins slæðst hingað fáeinir fullhugar eða sérvitringar auk breskra laxakalla. Dollaraglampinn skein því fljótt í augum margra og þá var ljóst að félitlir námsmenn með allar eigur sínar í bakpokanum voru lítil tekjulind.

En ætli þeir peningalitlu séu nú ekki stundum góð búbót fyrir okkur í þeim skilningi að þeir fari héðan þakklátir og með góðar minningar um land og þjóð? Þeir gætu líka efnast síðar.

Í sumum löndum hefur ferðaþjónusta verið stunduð öldum saman og haft að sumu leyti slæm áhrif á hugarfarið. Ferðamenn eru þá fyrst og fremst féþúfur sem eiga það eitt skilið að vera plokkaðir inn að skinninu. Víkverji hefur stundum haft það á tilfinningunni eftir að hafa maulað í sig dasaðan en samt fokdýran hamborgara eða annan skyndibita í vegasjoppum landsins að við þurfum að gæta okkar vel á að hafna ekki í þessari sömu ófæru. En vonandi reyna allir í ferðaþjónustunni að muna að ferðamenn eru líka fólk en ekki bara féþúfa.