Vonandi fá verktakar vinnufrið við endurbætur vallarins, segir Óskar Jóhannsson, og áhugamenn um betri byggð verðugra verkefni en að svipta íslensku þjóðina Reykjavíkurflugvelli.
Reykjavíkurflugvöllur er ekki einkamál Reykvíkinga Flugvöllurinn Vonandi fá verktakar vinnufrið við endurbætur vallarins, segir Óskar Jóhannsson , og áhugamenn um betri byggð verðugra verkefni en að svipta íslensku þjóðina Reykjavíkurflugvelli. REYKJAVÍKURFLUGVÖLLUR er ekki eign Reykjavíkurborgar. Hann er ekki á landareign Reykjavíkur, nema að litlu leyti. Flugvöllurinn er undirstaða íslenskra flugsamgangna. Lokun hans yrði mikið áfall fyrir íslenskt innanlandsflug. Kannast nokkur við þessa sögu? Innanlandsflug frá Reykjavík: Það er vetur. Ekki hefur verið hægt að fljúga til Ísafjarðar í þrjá daga. ­ Fjórði dagur: "Nei því miður. Ófært eins og er. Reyndu að hringja upp úr klukkan tíu." "Nei, því miður. Ófært eins og er. Reyndu að hringja klukkan ellefu." "Nei, því miður. Ófært eins og er, en það á að reyna klukkan hálftólf." Ísfirðingurinn, sem þurfti að fljúga til höfuðborgarinnar og sinna nokkrum erindum, pantar leigubíl og er kominn út á flugvöll eftir fimmtán mínútur. Hann er heppinn og kemst með vélinni. Klukkan eitt er hann aftur á Reykjavíkurflugvelli, eftir eins og hálfs tíma flug. Það var sveimað yfir Djúpinu, en ekki hægt að lenda. Eftir fjórða daginn er hann ennþá veðurtepptur í Reykjavík. Svo byrjar hann að hringja aftur næsta morgun. Innanlandsflug frá Keflavík Fjóra morgna í röð er vinur okkar, Ísfirðingurinn, búinn að aka í leigubíl út að Hótel Loftleiðum, nógu snemma til að taka rútuna, svo hann verði kominn til Keflavíkur þegar fyrsta flug á að fara samkvæmt áætlun til Ísafjarðar. Í fjóra daga hefur hann þurft að hanga úti á flugvelli þangað til vonlaust var að flogið yrði þann daginn, og þá kom hann með rútunni aftur í bæinn. Að kvöldi fjórða dags, er hann ennþá veðurtepptur í Reykjavík, búinn að eyða fjórum dögum í að hanga úti á Keflavíkurflugvelli. ­ Eyða átta þúsund krónum í fjögur hundruð kílómetra rútuferðalög. ­ Borga átta ferðir með leigubílum á milli dvalarstaðar og Loftleiðahótels, og eytt heilmiklum peningum í dýrt snarl á vellinum. Trúlega hefur hann margsinnis heitið því að fara aldrei oftar fljúgandi til Reykjavíkur. Hann Villi Vestmanneyingur þurfti að skreppa til Reykjavíkur í blíðskapar veðri um hásumar. Í dag tekur flugið hann 25 mínútur hvora leið, samtals 50 mínútur. Flugleiðin til Keflavíkur er tíu prósentum lengri, ferðatíminn meira en þrisvar sinnum lengri, og fargjaldið til Reykjavíkur tvöþúsund krónum dýrara! Kemur þessum mönnum ekkert við hvar Reykjavíkurflugvöllur er? Öðruvísi frelsishreyfing Nú hefur sprottið upp enn ein "frelsishreyfingin". Venjulega hafa þessir fámennu trúflokkar barist af heift gegn þjóðfélagslega hagkvæmum framkvæmdum, heimtað lýðræði, en ekki sætt sig við að fámennur æsingahópur fái ekki að kúga meirihlutann, og heilbrigða skynsemi. Hér er hinsvegar nýr flokkur slíkrar hreyfingar á ferðinni, sem heimtar að farið verði út í margra tuga milljarða framkvæmdir, sem myndu valda áratuga afturför í samgöngumálum og kölluðu á mikið óhagræði og fjárútlát flugfarþega um ókomin ár. Furðulegar hugmyndir um flutning innanlandsflugsins frá Reykjavík hefur mátt sjá í dagblöðunum að undanförnu. Þ.á m. að gera nokkurra tuga milljarða flugvöll úti í sjó í Skerjafirði. Brú yfir ytri höfnina, út í Engey og myndarlegan flugvöll þar. Ekki hef ég þó séð Grímsey nefnda ennþá. Eina hugmyndin sem fram hefur komið, og kæmist næst því að vera framkvæmanleg, yrði að flytja innanlandsflugið til Keflavíkur. En hvers vegna þarf að flytja flugið frá Reykjavík, sem fólk er í langflestum tilfellum að koma til, eða fara frá?

1. Einhver sagði að kona, líklega hávaxin, hafi kvartað undan því, að hún yrði að ganga hálfbogin utandyra, til að fá ekki eina eða tvær flugvélar í hausinn! Líklega yrði ódýrara að útvega henni góðan hjálm og aðvörunarljós. 2. Bent hefur verið á, að kannske gæti orðið flugslys. Flug er öruggasti ferðamátinn. Ekkert flugslys hefur orðið vegna staðsetningar flugvallarins. 3. Stórhuga arkitekta og verkfræðinga langar mikið til að skapa sér ævarandi minnismerki, með byggingu fyrirmyndarborgar á svæðinu. Ekki hefur annað komið fram, en að þeir ætli sjálfir að fjármagna það. ­ Stórhuga menn þar á ferð. 4. Það er stundum bölvaður hávaði af flugvélum. Hávaði í farþegavélum hefur minnkað á undanförnum árum og áfram er unnið að minnkun hávaðans. Einnig er minni þörf fyrir langar flugbrautir. 5. Það kemur loftmengun af flugvélum. Með flutningi til Keflavíkur, lengjast allar flugleiðir innanlands, um 5-10%. Ekki minnkar mengunin við það ­ og þó, trúlega minnkaði mengunin, því svo stórlega mundi draga úr innanlandsflugi. Hvað kostar ódýrasta breytingin? Við skulum aðeins líta á nokkra kostnaðarliði við langódýrustu leiðina. 1. Hvað kostar að byggja nýja innanlandsflugstöð fyrir bæði flugfélögin, með öllum tilheyrandi mannvirkjum, þar með talin flugskýli, verkstæði, flughlað og jafnvel hótel? Þeirri spurningu verður ekki svarað hér. 2. Hvað kostar að flytja farþegana á milli Keflavíkur og Reykjavíkur? Árið 1998 komu og fóru um Reykjavíkurflugvöll yfir 440 þúsund farþegar. Þótt við slepptum rúmlega 40 þúsund farþegum, þyrftu þeir að greiða í fargjald á milli Reykjavíkur og Keflavíkur um 400 milljónir á ári. 3. Hvað lengist ferðatími fólksins á ári? Líklega um 10 þúsund vinnuvikur sem eru eyðilagðar, með því að láta fólk sitja í rútum, sem keyra um 20 milljónir farþegakílómetra á ári. 4. Hvað verður að reikna með mörgum dauðaslysum, og öðrum slysum og tjóni á Keflavíkurvegi á ári, vegna innanlandsflugsins? Átti ekki að draga úr slysahættu með breytingunni? 5. Ein ástæðan fyrir flutningi flugsins frá Reykjavík var mengun. En aukinn akstur bíla með yfir 400 þúsund farþega, fjörutíu til fimmtíu kílómetra leið ­ kemur engin mengun af þeim? 6. Hvað kostar á ári að flytja allt starfsfólkið fram og til baka, og/eða standa undir gistikostnaði þess? Þó mætti reikna með að Keflvíkingar sinntu þeim störfum að mestu svo þar misstu Reykvíkingar líklega a.m.k. 1.000 störf. Ekki yrði það til hagsbóta fyrir Reykvíkinga. Sem betur fer hafa samgönguráðherra og flugmálastjóri gert samning við traustan verktaka um að veita vellinum myndarlegt viðhald, sem lengi hefur verið þörf á, og mun hann verða í góðu lagi eftir fjögur ár, og fær samkvæmt samningi að vera í friði að minnsta kosti næstu 16 árin. Þegar samgönguráðherra sagði, að ekki sé tjaldað til einnar nætur með 1.500 milljóna króna endurbótum á vellinum, hafði einn forsvarsmaður hópsins orð um að þeir muni ekki gefast upp við að losna við völlinn. Sú hótun sem í því felst, varð til þess að ég fór að skipta mér af þessu, því ekkert hefur heyrst frá þeim sem mest þurfa á þjónustu vallarins að halda, íbúum landsbyggðarinnar. Vonandi fá verktakar vinnufrið við endurbætur vallarins og áhugamenn um betri byggð verðugra verkefni en að svipta íslensku þjóðina Reykjavíkurflugvelli. Höfundur er fyrrverandi kaupmaður. Óskar Jóhannsson