Friðrik Friðriksson, veitustjóri Bæjarveitna Vestmannaeyja, segir mikla kosti við að nota vatnsorku og vindorku jöfnum höndum og vonast til að hægt verði að sýna fram á það með vindmyllum,
Bæjarveitur Vestmannaeyja og Selfossveitur stofna hlutafélag um vindorkunotkun Vatnsorka og vindorka verði notuð jöfnum höndum

Bæjarveitur Vestmannaeyja og Selfossveitur stefna að því að reisa vindmyllur til rafmagnsframleiðslu innan tveggja ára og stofnuðu í gær hlutafélagið Íslensk vindorka, sem ætlað er að sjá um framkvæmdina. Gangi áætlanir eftir gætu 45 metra há vindmyllumöstur orðið fastur þáttur í íslensku landslagi. Karl Blöndal ræddi við veitustjórana Ásbjörn Blöndal og Friðrik Friðriksson.

Friðrik Friðriksson, veitustjóri Bæjarveitna Vestmannaeyja, segir mikla kosti við að nota vatnsorku og vindorku jöfnum höndum og vonast til að hægt verði að sýna fram á það með vindmyllum, sem fyrirhugað er að reisa í Vestmannaeyjum og miðja vegu milli Stokkseyrar og Eyrarbakka. Ásbjörn Blöndal, veitustjóri Selfossveitna, segir að áætlanir um að reisa fimm vindmyllur milli Stokkseyrar og Eyrarbakka og fimm vindmyllur í Vestmannaeyjum séu raunhæfar og muni skila afgangi standist áætlanir.

Hlutafélag um þetta verkefni var stofnað á Hvolsvelli í gær. Félagið er í eigu Bæjarveitna Vestmannaeyja og Selfossveitna og heitir Íslenska vindorkufélagið.

Friðrik sagði að ráðgert væri að tengja vindmyllurnar á hvorum stað inn á dreifikerfi bæjarfélaganna. Hver vindmylla yrði 660 kílówött þannig að á hvorum stað yrðu virkjuð 3,3 megawött af rafmagni til að byrja með. Myllumastrið er 45 metra hátt og síðan er hver vængur mylluspaðans rúmlega 20 metrar þannig að þegar vængur liggur lóðrétt nær myllan allt að 70 metra hæð. Ásbjörn benti hins vegar á að hér á landi hefðu verið reist möstur, til dæmis fyrir sjónvarpsútsendingar, sem næðu allt að 50 metrum.

"Það er síðan háð því hver meðalvindurinn er hversu mikla orku þessar stöðvar framleiða," sagði Friðrik. "Okkur hefur reiknast svo til hér í Eyjum að fimm vindmyllur hér hjá okkur muni skila okkur um 12 gígawattstundum eða 30 prósentum af orkuþörf Eyjamanna. Þörfin hjá okkur er 39 gígawattstundir."

Nú kaupa Eyjamenn sína orku af Orkuveitu Reykjavíkur. Friðrik sagði að horfa yrði til þess að koma myndu dagar þegar ekki blésu vindar, en menn þyrftu engu að síður á rafmagni að halda. Þá kæmu dagar þar sem myndi blása vel og minna þyrfti af afli frá landi.

Mestur vindur á veturna þegar orkuþörf er mest

"Samkeyrsla vindorku og vatnsorku er ákjósanleg að okkar mati þar sem á veturna blæs mest, þá er rafmagnsþörf mest og vatnsbúskapur Landsvirkjunar viðkvæmastur," sagði hann. "Á sumrin er öfugt farið, vatnsbúskapur bestur, vindur minnstur og aflþörfin minnst. Þannig að þá er hægt að láta vatnið renna á veiturnar og öfugt. Við lítum þannig á að vindorka og vatnsorka geti fallið mjög vel saman og minnkað lón."

Hann sagði að annar kostur við vindorkuna væri að hægt væri að virkja hana í litlum skömmtum.

"Þá mun það seinka byggingu stærri vatnsaflsstöðva og þar með seinka því að taka þurfi meira land undir miðlunarlón," sagði hann og bætti við að þetta væri í samræmi við þau umhverfissjónarmið, sem stöðugt ættu meira fylgi að fagna: "Samspil vindorku og vatnsorku er nokkuð, sem við þurfum að skoða miklu betur."

Ásbjörn sagði að ekki væri nóg með að 70% af nýtanlegum vindi væri að vetrarlagi, heldur væri vindur meiri á Íslandi á daginn þegar orkuþörfin væri meiri, en á nóttunni þegar þörfin væri minni. Þetta væri enn einn kostur vindorku: "En því má ekki gleyma að vindorkustöðvar verða aldrei reknar einar og sér og munu aldrei sjá um orkukerfið því það koma logndagar og rokdagar þar sem myllurnar ganga ekki. En undirtektir Landsvirkjunar og Orkustofnunar gagnvart því að skoða þessi mál eru jákvæð."

Að sögn Ásbjörns yrði að reisa vindmyllur á tveimur stöðum vegna þess að vindur væri eðlilega mismikill og þá yrði hægt að kanna samlegðaráhrif.

Vindorka helsti vaxtarbroddur í orkuframleiðslu í heiminum

Friðrik kvaðst hafa upplýsingar um að fimm ár í röð hefði mesta aukningin í virkjun til rafmagnsframleiðslu verið virkjun vindorku. "Sem dæmi má nefna að í heiminum öllum voru 1998 virkjuð 2.100 megawött í vindorku og þá var 35% aukning í nýtingu vindorku. Ég hef séð áætlanir um 35% aukningu á ári næstu fimm árin þannig að það er sprenging í þessum markaði. Í Þýskalandi einu voru á síðasta ári virkjuð 800 megawött í vindi. Þeir eru komnir með það mikla framleiðslu í vindorku að það samsvarar tveimur stærstu kolaorkuverum landsins í rafmagnsframleiðslu. Og orkuverðið hefur stöðugt verið á niðurleið vegna þess hve mikið er framleitt með þessum hætti nú orðið."

Hann sagði að hvatinn til þess að virkja vindorku væri að draga úr mengun. Menn hefðu sett sér það markmið að draga úr útblæstri koldíoxíðs og þetta væri ein leiðin til að vinna að því.

Vindmyllur vinna á ákveðnu vindbili. Þær fara í gang þegar vindhraði er um fjórir metrar á sekúndu, en stöðvast þegar vindhraðinn nær tæpum 25 metrum á sekúndu. Fullri framleiðslugetu ná þær þegar vindur er um 12 metrar á sekúndu.

Friðrik sagði að miðað við framleiðslugetu eða full afköst mætti búast við 30 til 40% nýtingu, en það réðist af meðalvindi. Í Eyjum mætti gera ráð fyrir nær 40% nýtingu og 35% við Eyrarbakka. Hann bætti við að Danir teldu gott að ná 30% nýtingu.

Unnið að gerð vindatlas fyrir Ísland

Selfossveitur og Bæjarveitur Vestmannaeyja hafa haldið þessu verkefni á lofti og innan Samorku hefur verið stofnaður stýrihópur í samvinnu við Landsvirkjun, Orkustofnun, Orkuveitu Reykjavíkur og Veðurstofu Íslands. "Honum er ætlað að koma vindorku á orkukortið," sagði Friðrik, "því að menn hafa ekkert reiknað þetta sem möguleika í okkar orkuvinnslu. Starfsvið hópsins hefur að miklu leyti verið að skipuleggja hvernig löggjafinn eigi að koma að þessu og reyna um leið að vinna að því að gerður verði vindatlas fyrir landið til að finna út hvar hagkvæmt sé að reka vindorkustöðvar."

Hann sagði að það nýjasta í vindorkumálum væri að reisa myllur úti í sjó. Það væri ákjósanlegt vegna þess að fyrirstaða í umhverfi væri engin og vindar mjög jafnir því að mest blési við strendur. Að auki væri hægt að nota stærri myllur.

"Nú eru 1,5 megawatta myllur fjöldaframleiddar, en menn eru sífellt að gera þær öflugri og hagkvæmari," sagði hann. "Og það verður að segja eins og er að við teljum suðurströndina ákjósanlegt landsvæði til að virkja vindorku og þá í stórum einingum."

Í Danmörku fá menn sérstaka umhverfisumbun og er borgað fyrir að nýta græna orku. Þar þarf nýting því ef til vill ekki að vera jafn góð til að það beri sig að nýta vindorku og hér á landi. Friðrik sagði að hins vegar hefði ekki verið vakið máls á því við ráðamenn að hugleiða hvort slíka umbun ætti að taka upp hér á landi þar sem fyrir væri verið að nýta endurnýjanlega orkulind. Hann sagði að þó væri ljóst að virkjun vindorku gæti leitt til ákveðinnar hagkvæmni í rafveitukerfinu á Íslandi.

Leiddi til aukinnar hagkvæmni í rafveitukerfinu á Íslandi

"Menn virkja í stórum skrefum og vegna þess hefur öll orkan ekki verið seld fyrir fram," sagði hann. "Síðan vex orkuþörfin rólega upp í framleiðslugetuna. Þá er farið að skerða afgangsorku og síðan er virkjað upp á nýtt og þá skapast aftur tómarúm í kerfinu. En með því að tína inn vindorkuvirkjanir á milli er hægt að auka hagkvæmni. Þetta viljum við skoða og við höfum lagt mikla vinnu í styrkumsókn til Evrópusambandsins til að byggja tvo vindmyllugarða og rannsaka þetta samspil."

Friðrik sagði að í þessu verkefni væri samstarf við danskt ráðgjafafyrirtæki, Knudsen og Sørensen, og danska framleiðandann Vestas, sem væri einn sá stærsti í heimi. Hann bætti við að Íslenska vindorkufélagið hugsaði einnig til fyrirtækisins Vindorku, sem hyggst framleiða vindaflstöðvar, en þróun þeirra væri ekki nógu langt komin fyrir þetta verkefni.

Kostnaður við hverja myllu þegar hún er tilbúin og tengd við dreifikerfið er um 50 milljónir króna og kvaðst Friðrik eiga von á því að sú fjárfesting myndi borga sig.

"Við erum með tíu ára afskriftartíma á hverja vindmyllu eins og regla er með svona vélbúnað," sagði hann. "Miðað við þann afskriftartíma og þau gögn, sem við höfum um vinda á svæðinu, er þetta hagkvæmara en þau innkaup, sem við búum við í dag. Eftir tíu ár þegar fjárfestingin verður búin að borga sig verður þetta bullandi hagkvæmt og þá hef ég í huga að í dag er verið að reka myllur, sem hafa verið 20 ár í keyrslu."

Hann sagði að viðhaldskostnaður væri reiknaður 40 aurar á kílówattstund. Myllurnar gengju án þess að mannshöndin kæmi nálægt og sagt væri að einn dag á ári þyrfti til viðhalds, sem reynt væri að sinna á þeim dögum, sem lygnt væri og myllurnar gengju hvort sem er ekki.

Upphafið að öðru og meira

Að sögn Friðriks er aðeins litið á þetta verkefni sem upphafið að öðru og meira. "Hugmyndir okkar eru að virkja á suðurströndinni og ein af ástæðunum fyrir því að halda á stofnfund Íslenska vindorkufélagsins á Hvolsvelli er sú að við viljum höfða til sveitarfélaganna og hreppanna á Suðurlandi um hugsanlegt samstarf við okkur í þessu máli og að menn skoði þetta af fullri alvöru enda snýst umræðan í dag um það að opna markaðinn og hefja samkeppni á raforkumarkaði."

Þegar hefur farið fram frumumhverfismat á því að reisa fimm vindmyllur í Eyjum og sagði Friðrik að niðurstaðan hefði verið jákvæð. Náttúrufræðistofa Suðurlands hefði kannað áhrif myllanna á dýralíf og aðra þætti og ekkert væri því til fyrirstöðu að virkja í nýja hrauninu þar sem virkjunarsvæði hraunhitaveitunnar hefði verið áður.

Ásbjörn Blöndal, veitustjóri Selfossveitna, sagði að á fyrirhuguðum stað fyrir vindmyllurnar milli Stokkseyrar og Eyrarbakka væri talið að sjónræn mengun væri tæpast til staðar. Svæðið væri mjög opið og tiltölulega langt væri í næstu íbúðabyggð.

"Menn hafa því talið sig standa sæmilega föstum fótum hvað það varðar," sagði Ásbjörn. "Við höfum bæði gert frumathugun varðandi hagkvæmni, sem lofaði góðu, og tæknilega athugun á tengingu. Þarna á milli er tengistöð og voru könnuð gæði spennu og svo framvegis og sýna niðurstöður að þetta eigi að vera hægt án þess að rýra svokölluð spennugæði."

Að sögn Ásbjörns hefur einnig verið fjallað um staðsetninguna í bygginganefndinni og ekki væri komin endanleg niðurstaða. Myllurnar yrðu þó á kömbunum við fjöruborðið. Taka yrði tillit til fuglalífs og fara þyrfti með gát um mýrarsvæði, sem þarna væri. Hann sagði að allajafna væri lítið um mannaferðir við vindmyllur í hefðbundnum rekstri: "Hins vegar liggur fyrir umsókn til Evrópubandalagsins um að reisa þarna sýnistöðvar og er viðbúið að þarna verði eitthvað um mannaferðir þau tvö ár, sem rannsóknir myndu taka."

Hann bætti því við að hlyti styrkumsóknin jákvæðar undirtektir yrði kappkostað að ganga þannig frá myllunum fimm að það verði aðlaðandi fyrir fólk að koma og kynna sér orkutæknina.

Ásbjörn sagði að Selfossveitur hefðu farið að velta fyrir sér þeim kosti að nýta vindorku árið 1994. "Þá var enginn farinn að orða það að nýta vindorku hér," sagði hann. "Við höfum síðan fylgst grannt með verðlagi og segja má að það hafi riðið baggamuninn að við fórum í þetta í desember, að síðastliðin tvö til þrjú ár hafa tiltölulega stórar myllur verið í hefðbundinni fjöldaframleiðslu og þar með er verðlagið á hverri einingu orðið það lágt að framleiðslukostnaður á myllunum hefur verið samkeppnishæfur við það verð, sem við höfum verið að borga fyrir raforku í okkar innkaupum."

Komin vindmylla í landslagið eftir tvö ár

Ásbjörn sagði að þegar komið hefði í ljós að Vestmanneyingar hefðu verið farnir að mæla vindhraða hefði verið ákveðið að slá saman og síðan hefðu hitaveiturnar verið samstiga í að afla sér þekkingar og kynna málið.

"Segja má að stofnun Íslenska vindorkufélagsins sé næsta skrefið í því samstarfi," sagði Ásbjörn. "Við ætlum að láta félagið gæta okkar hagsmuna og keyra málið áfram því það hefur farið talsverð vinna í þetta. Þetta er staðan og hagkvæmniathuganir okkar sýna að þetta er hægt og getur skilað smá afgangi í kassann ef allt gengur eftir. Og ég geri fastlega ráð fyrir því að innan tveggja ára verði komin vindmylla hér í landslagið einhvers staðar."

Vindrafstöðvar eru orðnar nokkuð algengar á Norðurlöndunum, sérstaklega í Danmörku.

Verðlag á vindmyllum hefur lækkað

Einn dagur á ári í viðhald á vindmyllu